Innflutningur Búist er við samdrætti í kaupum á áburði vegna verðhækkunar erlendis. Það getur komið niður á uppskeru og framleiðslu.
Innflutningur Búist er við samdrætti í kaupum á áburði vegna verðhækkunar erlendis. Það getur komið niður á uppskeru og framleiðslu. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Mikil óánægja er með ákvörðun matvælaráðuneytisins um að greiða sérstakan stuðning við matvælaframleiðslu vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði á áburði út sem álag á jarðræktarstyrki og landgreiðslur á síðasta ári. Forysta Bændasamtaka Íslands lagði til að bændur fengju endurgreiddan hluta af kostnaði við áburðarkaup ársins í ár, þannig að stuðningurinn nýttist örugglega þeim sem verða fyrir barðinu á áburðarverðshækkun.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Mikil óánægja er með ákvörðun matvælaráðuneytisins um að greiða sérstakan stuðning við matvælaframleiðslu vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði á áburði út sem álag á jarðræktarstyrki og landgreiðslur á síðasta ári. Forysta Bændasamtaka Íslands lagði til að bændur fengju endurgreiddan hluta af kostnaði við áburðarkaup ársins í ár, þannig að stuðningurinn nýttist örugglega þeim sem verða fyrir barðinu á áburðarverðshækkun.

Matvælaráðherra fékk á fjárlögum 700 milljónir króna til að koma til móts við aukinn kostnað bænda og annarra matvælaframleiðenda vegna mikillar hækkunar á verði tilbúins áburðar.

Matvælaráðuneytið hefur ákveðið að nota hluta af fjárheimildinni, 50 milljónir króna, í sérstakt átak um bætta nýtingu áburðar og leiðir til að draga úr notkun hans. Verður Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) falið að framkvæma átakið.

650 milljónum verður varið í beinan stuðning við bændur. Það verður framkvæmt þannig að greitt verður álag á jarðræktarstyrki og landgreiðslur sem greiddar voru út á síðasta ári, í samræmi við búvörusamninga. Munu 1.534 bú njóta þeirra greiðslna vegna ræktunar á liðlega 91 þúsund hekturum. Áætlað er að hægt verði að greiða 79% álag á greiðslurnar í fyrra. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra reiknar með að greiðslurnar verði afgreiddar strax um næstu mánaðamót.

Þýðir þetta að ekki er tekið tillit til breytinga sem verða á milli ára sem meðal annars geta falist í því að menn bera á önnur stykki, stærri eða minni, en í fyrra, eru hættir búskap eða draga úr áburðarnotkun. Aðeins er tiltekið í tilkynningu ráðuneytisins að gætt verði sérstaklega að nýjum ábúendum jarða.

Mikil óánægja virðist vera meðal bænda, ef marka má umræður á samfélagsmiðlum, með greiðslur til RML og að ekki verði greiddur stuðningur út á raunveruleg áburðarkaup ársins í ár. Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, upplifir viðbrögðin á sama hátt, tekur þannig til orða að allt hafi orðið vitlaust þegar ráðuneytið birti ákvörðun sína.

Ekki farið að tillögum BÍ

Gunnar segir að forysta Bændasamtakanna hafi átt fundi í ráðuneytinu frá því snemma í janúarmánuði um útdeilingu þessara fjármuna. Frá upphafi hafi ráðuneytið verið með þær hugmyndir sem nú hafa birst í ákvörðun ráðherra. Bændaforystan hafi rætt málið í sínum röðum og við bændur. „Okkar nálgun var sú að þetta yrði gert á „allir vinna“-grundvellinum. Þeir sem kaupi áburð fái endurgreiðslu út á hvert tonn sem keypt er vegna búrekstrar. Við fórum með það í ráðuneytið en niðurstaðan varð önnur,“ segir Gunnar.

Spurður um viðbrögð við niðurstöðunni segir Gunnar að þótt ekki hafi verið farið að tillögum Bændasamtakanna sé ekki hægt að munnhöggvast við stjórnvöld um útdeilingu fjármuna á þeirra vegum. Þetta sé niðurstaða ráðuneytisins og það beri ábyrgð á henni.

Hann gagnrýnir hins vegar ekki 50 milljóna króna framlag til RML til að vinna að bættri nýtingu áburðar og leiðum til að draga úr notkun hans. Bendir hann á þarna sé verið að þróa aðferðir til lengri tíma og það snúist meðal annars um að nýta húsdýraáburð betur og að nýta laxamykju og annan lífrænan áburð. „Ég tel að það sé mikilvægt fyrir íslenskan landbúnað að leita annarra leiða en kaupa á tilbúnum áburði til þess að gera reksturinn enn sjálfbærari en hann er í dag,“ segir Gunnar Þorgeirsson.

Áburðarverð hækkar
» Áburðarvísitala Alþjóðabankans hefur hækkað um 93% frá lokum síðasta áburðartímabils, meðal annars vegna hækkunar á gasi og vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á framleiðsluna.
» Hagstofa Íslands áætlar að áburðarliður í verðlagsgrundvelli kúabús hafi hækkað um 87% frá síðasta ári.