[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Um 72% af dreifikerfi Rarik eru komin í jarðstrengi eða hátt í sjö þúsund kílómetrar. Áætla má að kostnaður við það sem eftir er sé um 15 milljarðar króna, á verðlagi í dag. Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik, segir að fyrirtækið hafi fundið það vel í stórviðrum á allra síðustu árum hversu mikilvægt sé að hafa stóran hluta kerfisins í jörð. Tjón hefði að öðrum kosti orðið mun meira.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Um 72% af dreifikerfi Rarik eru komin í jarðstrengi eða hátt í sjö þúsund kílómetrar. Áætla má að kostnaður við það sem eftir er sé um 15 milljarðar króna, á verðlagi í dag. Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik, segir að fyrirtækið hafi fundið það vel í stórviðrum á allra síðustu árum hversu mikilvægt sé að hafa stóran hluta kerfisins í jörð. Tjón hefði að öðrum kosti orðið mun meira.

Miklar skemmdir urðu á raflínum hjá Rarik í fárviðri sem gekk yfir landið í október 1995 og urðu verstu afleiðingarnar á norðanverðu landinu. Víða varð rafmagnslaust og tók langan tíma að gera við skemmdir. Í kjölfarið féllu mannskæð snjóflóð á Flateyri og fyrr á árinu sömuleiðis í Súðavík.

Endurnýjun með jarðstrengjum

Rarik hóf þá endurnýjun dreifikerfis síns og var ákveðið að leggja áherslu á að nota jarðstrengi í stað loftlína. Dreifikerfi Rarik á 11 og 33 kílóvolta spennu var þá um 7.300 km að lengd, að mestu leyti í loftlínum. Kerfið hefur stækkað með nýjum notendum og er nú, um aldarfjórðungi síðar, um 9.460 km að lengd. Ef það yrði lagt saman færi það vel yfir vegalendina frá Íslandi til Japans. Eru um 72% þess komin í jörðu, eða nálægt 6.800 kílómetrum.

Gert er ráð fyrir að allir stórnotendur, til dæmis kúabú og fleiri atvinnufyrirtæki í sveitum, verði komin með þriggja fasa rafmagn um jarðstreng á árinu 2025 og eftir átta ár, héðan í frá, verði öll býli í ábúð komin með þá innviði. Heldur lengra er í að þriggja fasa rafmagn verði komið í alla vita, endurvarpa, sumarhús og fleiri staði en stefnt er þó að því að þeim tengingum verði lokið árið 2035.

Gert er ráð fyrir að kostnaður við þær línulagnir sem eftir eru sé um 15 milljarðar króna. Verkefnið í heild með jarðstengjum og tengivirkjum hefur þá kostað hátt í 60 milljarða, miðað við verðlag dagsins í dag.

Jarðstrengir ódýrari

Kerfið var farið að eldast og kominn tími á að fjárfesta í endurnýun þess. Tryggvi segir að ódýrara sé orðið að leggja jarðstrengi en loftlínur, á 11 kV spennu. Rarik framkvæmir þetta verk með fjármunum úr sínum rekstri. Ríkið hefur auk þess lagt fram fjármuni á fjárlögum til einstakra verkefna.

Rarik hefur að undanförnu lagt áherslu á Norðurland og Suðurland, þar sem kerfið er elst, en er nú að færa sig meira yfir á Vesturland og Austurland.

„Við höfum fundið það mjög í óveðrum á undanförnum árum, til dæmis í febrúar 2020 og jafnvel í desember 2019, hvað það hefur gífurlega mikil áhrif að vera með stóran hluta dreifikerfisins í jörðu. Það á einnig við um veðrið um síðustu helgi sem var vont en stóð stutt,“ segir Tryggvi.

Staurarnir ekki reistir

Í óveðrinu um helgina brotnuðu um 30 raflínustaurar. Nærri 20 staurar fóru við Heklubæina í Rangárvallasýslu. Verið er að plægja þar niður jarðstreng og var ákveðið að reisa ekki nýja staura heldur leggja jarðstreng í staðinn og keyra varaaflsvélar þangað til strengurinn kemst í gagnið. Gert var við aðrar línur sem biluðu strax á mánudag.