[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Sigmundur Sigurgeirsson Selfossi Kynning stendur nú yfir á drögum að nýju aðalskipulagi í Árborg, sem gilda á til ársins 2036. Er þar ýmislegt að finna svo sem um þéttingu byggðar, áætlanir um fjölgun íbúða og byggingarþörf.

Úr bæjarlífinu

Sigmundur Sigurgeirsson

Selfossi

Kynning stendur nú yfir á drögum að nýju aðalskipulagi í Árborg, sem gilda á til ársins 2036. Er þar ýmislegt að finna svo sem um þéttingu byggðar, áætlanir um fjölgun íbúða og byggingarþörf. Kemur fram að byggja þurfi á bilinu 65 til 300 íbúðir á ári hverju í sveitarfélaginu sé miðað við 1,5 til 5 prósenta árlega fjölgun íbúa. Á sl. misserum hefur fjölgunin verið ríflega það. Þá vekur athygli að tjaldsvæðið við Engjaveg á Selfossi sé víkjandi í skipulagi, og hafa rekstraraðilar þess mótmælt þeim áformum formlega. Að sögn Ara Björns Thorarensen bæjarfulltrúa, sem á sæti í vinnuhópi um breytingar á aðalskipulagi, er verið að horfa til lengri tíma og að heimild verði til staðar að breyta svæðinu ef þarf á að halda, og er einkum horft til þess að stækka þurfi íþróttasvæðið sem er þar við hliðina. Ef til kemur er ætlunin að nýtt tjaldsvæði gæti risið utan við á eins og það er kallað, á óbyggðu svæði nálægt athafnasvæði Olís.

Línur eru teknar að skýrast í framboðsmálum nokkurra þeirra framboða sem buðu fram í sveitarstjórnarkosningum síðast í Árborg. Þannig verður prófkjör framsóknarmanna þann 12. mars næstkomandi og hefur sitjandi oddviti þeirra fengið mótframboð. Hið sama gildir um D-lista sjálfstæðismanna, en þar verður prófkjör haldið þann 19. mars og hafa nú þegar nokkrir lýst yfir framboði í efsta sætið, þar á meðal sitjandi oddviti. Miðflokkurinn hefur kallað eftir framboðum á lista en hann á einn fulltrúa í bæjarstjórn. Samfylkingin, sem á tvo fulltrúa í bæjarstjórn, ákvað á fundi félagsmanna á fimmtudagskvöldið að stilla upp á lista fyrir kosningarnar í vor og hefur uppstillingarnefnd verið skipuð. Sigurjón Vídalín Guðmundsson, bæjarfulltrúi listans Áfram Árborg, er genginn til liðs við Samfylkinguna og hefur hann lýst því yfir að hann sækist eftir einu af efstu sætunum. Þá kom einnig fram á fundinum að Arna Ýr Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi sækist eftir umboði til að leiða listann, en hún var í öðru sæti síðast. Oddviti listans nú, Eggert Valur Guðmundsson formaður bæjarráðs, hefur flust búferlum úr sveitarfélaginu og mun eftir því sem næst er komist afsala sér sæti í bæjarstjórn á næsta fundi hennar.

Kuldakastið síðustu daga og vikur hefur kallað á að íbúar í Árborg fari sparlega með vatn. Þá hefur sundlauginni á Stokkseyri verið lokað í fáeina daga og stendur lokun yfir fram yfir helgi. Almennt er staða á heitu vatni í sveitarfélaginu ágæt og með þeim hætti sem verið hefur, en fjölgun notenda kallar á að borað sé eftir meiru þar sem það er að finna. Nú er verið að leita eftir vatni í Hellisskógi en er það verkefni of skammt á veg komið til að hægt sé að segja til um árangur. Þá eru uppi hugmyndir um að leita á svæði vestan Eyrarbakka í þeim tilgangi að tryggja nægt framboð til notenda í strandbæjunum, Eyrarbakka og Stokkseyri. Heitavatnsleiðslan sem veitir vatni þangað ofan frá Selfossi er komin til ára sinna og stendur til að endurnýja á næstu árum.

Nú stendur yfir leit að nafni á nýtt hjúkrunarheimili sem verið er að leggja lokahönd á við heilbrigðisstofnunina á Selfossi. Taka á heimilið í notkun um mitt ár en þar verður pláss fyrir 60 heimilismenn. Athygli hefur vakið að fjörutíu af þeim rýmum eru frátekin fyrir íbúa sem koma af höfuðborgarsvæðinu og er hluti af því að vinna á fráflæðivanda Landspítalans. Það þýðir að tuttugu rými verða til fyrir íbúa af Suðurlandi, en svo virðist sem ekki sé viðvarandi skortur á hjúkrunarrými fyrir aldraða í héraðinu sem stendur. Kemur það m.a. til af því að þegar starfsemi var hætt á Kumbaravogi var nokkrum rýmum á dvalar- og hjúkrunarheimilum hér og þar á Suðurlandi breytt í hjúkrunarrými með aukinni þjónustu, en við úthlutun þeirra er litið á Suðurland sem eitt svæði.

Engin ein skammtímalausn er í sjónmáli er varðar húsnæði barnaskólans á Eyrarbakka en núverandi húsnæði er í raun og veru ónýtt sökum rakaskemmda. Búið er að stofna vinnuhóp sem á að finna lausn til skemmri tíma svo hægt sé að kenna fjórum fyrstu bekkjum grunnskóla á staðnum, en kennsla í eldri bekkjum grunnskólabarna á Stokkseyri og Eyrarbakka fer fram á Stokkseyri. Að sögn Sigurjóns Vídalín Guðmundssonar bæjarfulltrúa þarf að ráðast í hugmyndavinnu til lengri tíma litið um framtíð skólahalds við ströndina. Hann vill sjálfur sjá sameinaðan skóla fyrir bæði þorpin á svæði á milli þeirra, þar sem jafnframt yrðu íþróttamannvirki, enda þróunin sú að þorpin vaxi í átt hvort að öðru. Aðspurður hvort nýta megi bráðabirgðahúsnæði sem nú er nýtt við Stekkjaskóla á Selfossi segir Sigurjón það ekki raunhæfa lausn þar sem það húsnæði verði í notkun þar sem það er um ófyrirsjáanlegan tíma vegna fjölgunar grunnskólanema á Selfossi.