Fjölgun smita breytir litlu um álag á heilbrigðiskerfið

Á miðnætti gekk í gildi ný reglugerð þar sem samfélagslegar takmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins voru rýmkaðar verulega. Þessar aðgerðir eru tveimur vikum á undan upphaflegri áætlun og verður það að teljast lofsverður sveigjanleiki að tekið hafi verið tillit til þess að aðstæður leyfðu að hraðar yrði farið.

Með hinum nýju reglum eru miklar breytingar boðaðar. Ekki verður lengur gerð krafa um sóttkví þeirra, sem hafa verið í návígi við smitaða einstaklinga. Við það fengu tæplega 10 þúsund manns frelsi. 200 manns mega koma saman í stað 50 og þúsund manns mega vera í hverju hólfi á sitjandi viðburðum. Afgreiðslutími bara og skemmtistaða hefur verið rýmkaður og engar fjöldatakmarkanir eru utandyra. Og er þá ekki allt talið.

Fyrirkomulag takmarkana hefur verið með ýmsu móti undanfarin tvö ár, eitt minnisblaðið tekið við af öðru og haftaharmónikan ýmist dregin sundur eða saman.

Oft hefur aflétting dregist af ótta við hún væri ótímabær og allt myndi hrökkva í gamla farið. Voru rökin þau að engu munaði um nokkrar vikur til eða frá. Það hugarfar lýsir verulegum skorti á skilningi á aðstöðu þeirra, sem eru með fólk í vinnu og hafa þurft að stöðva starfsemi sína eða takmarka verulega. Í þeirra rekstri munar verulega um eina viku til eða frá.

Nú er staðan sú að mikið er af smitum í samfélaginu. Í fyrradag greindust 1.800 smit innanlands og daginn þar áður 2.167. Vegna þess hvað margir sýna lítil eða engin einkenni er afar sennilegt að smitin séu mun útbreiddari.

Stefnt hafði verið að því að ná smitunum niður í 500 á dag. Þótt það hafi ekki tekist er staðan engu að síður sú að fjöldi innlagna sjúklinga með kórónuveiruna hefur verið nokkuð stöðugur þrátt fyrir fjölgun smita og fáir hafa að jafnaði legið á gjörgæsludeild. Það er auðvitað lykilatriði.

Það er því löngu orðið ljóst að ómikron-afbrigðið, sem á nokkrum dögum leysti delta-afbrigðið af hólmi, hefur mun vægari áhrif en forverinn. Á það sérstaklega við ef fólk er bólusett eins og raunin er með þorra landsmanna.

Sú spurning vaknar við þá afléttingu takmarkana, sem nú hefur verið gerð, hvort við höfum svo lengi búið við hömlur að erfitt sé að sleppa þeim alveg rétt eins og sá sem er að byrja að hjóla er ragur við að sleppa hjálpardekkjunum. Reynslan sýnir að ómíkron-afbrigðið lætur fátt stoppa sig. Hefði það breytt einhverju um útbreiðslu smita að aflétta samkomutakmörkunum alveg? Það er ólíklegt, en almenningur og atvinnulífið hefðu varpað öndinni léttar.

Meginatriði er þó að stjórnvöld hafa ákveðið að hraða afléttingu og komi í ljós að það breyti litlu um álagið á heilbrigðiskerfið hlýtur að styttast í næsta skrefið.