Eldsneyti Dropinn er orðinn dýr og verðið í hæstu hæðum. Það má rekja til heimsmarkaðsverðsins, hárra skatta og álagningar seljenda eldsneytis.
Eldsneyti Dropinn er orðinn dýr og verðið í hæstu hæðum. Það má rekja til heimsmarkaðsverðsins, hárra skatta og álagningar seljenda eldsneytis. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Bensín hefur aldrei verið dýrara í krónum talið en nú, að sögn Runólfs Ólafssonar, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB). Í gær var bensínið dýrast á mörgum stöðvum N1 eða 281,90 kr./l og 280,80 kr.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Bensín hefur aldrei verið dýrara í krónum talið en nú, að sögn Runólfs Ólafssonar, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB). Í gær var bensínið dýrast á mörgum stöðvum N1 eða 281,90 kr./l og 280,80 kr./l hjá Olís. Verðið var svo lægra hjá hinum ýmsu sjálfsafgreiðslustöðvum olíufélaganna. Það var lægst hjá nokkrum stöðvum Orkunnar 246,80 kr./l og tveimur stöðvum Atlantsolíu, ÓB stöðvum og nokkrum N1 stöðvum 248,90 kr./l samkvæmt vefnum gsmbensin.is .

„Við erum á alveg nýjum stað í verðmyndun á eldsneyti,“ sagði Runólfur. „Heimsmarkaðsverð á eldsneyti er nú í hæstu hæðum. Kostnaðarverð á einum bensínlítra erlendis er núna um og yfir 100 krónur fyrir hver lítra, sem er mjög hátt. Heimsmarkaðsverð á tonni af bensíni er nálægt 950 bandaríkjadölum. Það sem hefur hjálpað okkur í þessum mánuði varðandi eldsneytisverðið er að krónan hefur verið að styrkjast gagnvart bandaríkjadal,“ sagði Runólfur í gær.

Hann sagði að skattar í ríkissjóð væru nú um 52% af útsöluverði hvers bensínlítra, eða um og yfir 140 krónur. Svo dregst frá innkaupsverð og mismunurinn er álagning sem er mismunandi eftir bensínstöðvum.

„Það er almennt há álagning á eldsneyti hér á landi og fljótt á litið virðist sem það hafi verið tilhneiging til að hækka hana undanfarið. Hún er samt ekki í sögulegu hámarki. Skattar á bensín og dísilolíu eru föst krónutala á hvern lítra og svo kemur virðisaukaskattur,“ sagði Runólfur. „Ég tel að það sé borð fyrir báru að lækka álagningu á eldsneyti, sérstaklega í árferði eins og nú. Við sjáum að olíufélögin eru að skila methagnaði. Þótt heimsmarkaðurinn sé erfiður bera seljendur eldsneytis ekki skarðan hlut frá borði, nema síður sé.“

Hann sagði að ámóta hátt heimsmarkaðsverð á bensíni og nú hefði áður sést. Óvissuástandið í Úkraínu virtist m.a. hafa haft áhrif til hækkunar eldsneytisverðs. Runólfur rifjaði upp að árið 2013 hefði heimsmarkaðsverð á bensíni verið um 95 krónur fyrir hvern lítra. Þá var gengi krónunnar sterkara gagnvart bandaríkjadal en nú og útsöluverðið í kringum 250 krónur á lítra. Síðan þá hafa skattar á eldsneyti hækkað auk verðlagsþróunarinnar.