Jónas Hallgrímsson fæddist 6. september 1931. Hann lést 12. janúar 2022.

Útför Jónasar fór fram 28. janúar 2022.

Þeim er vandi á höndum sem gera vill kveðju góðum manni og vini.

Kveðja felur í sér ummæli af góðum hug, enda er ekki annar kvaddur en sá sem góða innistæðu á í huga þess sem kveður. Meðalhóf er vandratað, en liggur hátt á stiku þegar sagður er kostur á Jónasi Hallgrímssyni, lækni og meinafræðingi, hætta á oflofi þess vegna fjarri.

Á upphafi vega í Læknadeild Háskóla Íslands var hann svo sem ætíð síðar glæsimenni, ekki aðeins á velli, heldur einnig og einkanlega vegna greindar, mannkosta og góðsemi. Þá megindrætti mennskunnar ræktaði hann vel allt til uppgjörsins allra. Ekki dreg ég í efa að hann hafi notið þess í hinum faglega uppvexti, að eldri menn og reyndari hafi fundið hjá sér hvöt til að bera svo vænan dreng á höndum sér, enda varð honum meira úr menntun sinni en mögum hinna.

Meinafræði er einn mikilsverðastur þekkingargrunnur allrar viðleitni til þess að koma í veg fyrir sársauka, örkuml og ótímabæran dauða. Þegar menn tóku að freista þess að komast að raun um orsakir margvíslegra mannanna meina varð hin vísindalega meinafræði til og hefur æ síðan verið styrkur grunnur nútímalegra lækninga, einkum og ekki síst handlækninga.

Auk þeirra mannkosta sem prýða mega lækninn er sérstakt myndskyn af þeirri ætt sem gerir listmálara góðan í sínu verki sjónræn sérgáfa meinafræðings.

Það heyrir og til friðar forystumanns á vísindarannsókna- og kennslustofnun að leiðbeina, leiða, laða fram, hvetja og styðja, auk þess að vinna vel þau verk sem er hans hluti af sameiginlegri viðleitni manna á þeim vettvangi sem hann stýrir, þannig verður hann fyrirmynd öðrum og leiðbeinandi, en á sinni könnu hefur forystumaðurinn einnig það sem kalla mætti köllunarstarf hans, að miðla þekkingu sinni og starfsreynslu, kenna öðrum kúnstina og afhenda hana þannig þeim sem á eftir koma; „sic transit gloria mundi“ var sagt um slíkt handsal listar frá kynslóð til kynslóðar. Þessum greinum öllum þeirra skyldna sem á herðum forystumanns hvíla veit ég vin minn hafa þjónað með miklum ágætum.

Í öllum þeim þáttum, sem ég ætti að geta talist dómbær um, var verk hans framúrskarandi, en um þau atriði þar sem dómhæfni mín er vafa undirorpin hef ég samhljóða frásögn þeirra manna, sem stóðu honum nær í verkunum og áttu þess kost að deila viti hans og verkgleði, um vegsemd hans og virðingu.

Alls þessa naut ég og sjálfur oft og iðulega, og margir þeirra sem voru samverkamenn mínir um árabil, auk allra þeirra sem áttu lausn vanda síns undir verki hans komna.

Nú þegar kveðjan er send og þess vænst að hún skynjist fyrir handan „tjaldið hljóða“ er það vináttu- og kærleikskveðja af heilum hug.

Votta vil ég fyrir mína hönd og konu minnar, Sólrúnar Sveinsdóttur, Önnu Margréti, eiginkonu Jónasar, og ástvinum þeirra öllum innilega hluttekningu.

Gauti Arnþórsson.