Skógarhlíð 6 Öllum rýmum ráðuneytanna í kjallara var lokað í gær.
Skógarhlíð 6 Öllum rýmum ráðuneytanna í kjallara var lokað í gær. — Morgunblaðið/Unnur Karen
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Komið hefur í ljós að mygluna, sem fundist hefur í húsnæði félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins í Skógarhlíð 6, er víða að finna í kjallara hússins og mælst hefur hækkaður raki í botnplötu byggingarinnar.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Komið hefur í ljós að mygluna, sem fundist hefur í húsnæði félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins í Skógarhlíð 6, er víða að finna í kjallara hússins og mælst hefur hækkaður raki í botnplötu byggingarinnar.

Var kjallaranum alfarið lokað frá og með gærdeginum. Þetta veldur miklum óþægindum og röskun á þeirri starfsemi sem fram hefur farið í kjallara húsnæðisins.

Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu, segir að nú sé verið að leita leiða til að finna annað húsnæði. Hann sendi tölvupóst til starfsmanna í gær vegna þeirrar stöðu sem upp er komin þar sem segir að miklar vísbendingar um skemmdir hafi komið fram í niðurstöðum á sýnum í kjallaranum.

„Því er lagt til að öll starfsemin verði færð annað tímabundið og öllum rýmunum í kjallaranum sé lokað til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif á heilsufar fólks,“ segir í póstinum.

Hækkaður raki hafi mælst víða í botnplötunni og aðgerðaáætlun var sett strax í gang til að meta og greina orsök rakavandamála í botnplötunni. Mun sú vinna halda áfram næstu daga.

„Þegar allar niðurstöður úr sýnatökunum liggja fyrir verður strax farið í að kortleggja nákvæma aðgerðaráætlun fyrir allt húsnæðið, en beðið er eftir niðurstöðum sýnatöku frá 1.-3. hæð,“ segir í póstinum.

Aðstöðu 19 starfsmanna lokað

Margrét Erlendsdóttir, upplýsingafulltrúi í heilbrigðisráðuneytinu, segir í svari til blaðsins að vegna þessa ástands sé ekki hægt að nýta kjallarann að neinu leyti og hafi öllum rýmum þar verið lokað til að sporna gegn neikvæðum áhrifum myglu á heilsu fólks.

„Á þessu svæði eru skjalasafn heilbrigðisráðuneytisins, aðstaða fyrir starfsfólk skrifstofu innviða heilbrigðisþjónustu, mötuneyti sem þjónar bæði heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytinu og einn stór sameiginlegur fundasalur fyrir ráðuneytin, auk geymsluhúsnæðis. Starfsmenn sem höfðu aðstöðu á því svæði sem nú hefur verið lokað eru samtals 19,“ segir hún.

Tryggt verði þó áfram að starfsemin í ráðuneytinu skerðist ekki vegna þessa en að sögn hennar er nú ekki lengur húsrúm fyrir alla starfsmenn ráðuneytisins og verður að leysa þann vanda tímabundið með fjarvinnu þar til aðrar lausnir finnast.

Pöntuðu pítsur í hádeginu

„Ráðuneytið vill ekki hætta á neitt hvað varðar heilsu starfsfólks vegna húsnæðisins og því er þetta gert,“ segir Gissur um aðgerðirnar sem gripið hefur verið til.

Hann segir að til að bjarga málum í gær vegna lokunar mötuneytisins hafi verið pantaðar pítsur í hádeginu fyrir starfsfólk. „Við munum reyna að redda okkur áfram næstu daga með þessum hætti þar til annað verður ákveðið.“