Íslenskt sjávarfang reynist mjög heilnæmt ef marka má mælingarnar.
Íslenskt sjávarfang reynist mjög heilnæmt ef marka má mælingarnar. — Morgunblaðið/Alfons Finnsson
Íslenskar sjávarafurðir koma vel út úr mælingum á óæskilegum efnum í sjávarfangi ef marka má niðurstöður sívirkrar vöktunar sem Matís framkvæmdi á síðasta ári. Vegna fjárskorts náði vöktunin ekki til afurða sem ekki eru ætlaðar til manneldis.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Öll sýni af sjávarafurðum til manneldis voru vel undir hámarksgildum ESB fyrir þrávirk lífræn efni og þungmálma. Þá reyndist styrkur svokallaðra ICES6-PCB-efna vera lágur í ætum hluta sjávarfangs, miðað við hámarksgildi ESB. Sömuleiðis sýndu niðurstöðurnar að styrkur þungmálma, t.d. kadmíums (Cd), blýs (Pb) og kvikasilfurs (Hg), í íslenskum sjávarafurðum var alltaf undir hámarksgildum ESB,“ segir í skýrslu Matís sem birt var í síðasta mánuði.

Markmið vöktunarverkefnisins er að sýna hver staða íslenskra sjávarafurða sé með tilliti til öryggis og heilnæmis þeirra. Þá eru gögnin notuð sem grundvöllur fyrir áhættumat á matvælum til að „tryggja hagsmuni neytenda og lýðheilsu“, eins og segir í skýrslunni. Um er að ræða langtímaverkefni sem tengist markmiði um að byggja upp þekkingargrunn um magn óæskilegra efna í efnahagslega mikilvægum tegundum og sjávarafurðum.

„Almennt voru niðurstöðurnar sem fengust 2021 í samræmi við fyrri niðurstöður frá árunum 2003 til 2012 sem og 2017 til 2020. Niðurstöðurnar sýndu að íslenskar sjávarafurðir innihalda óverulegt magn þrávirkra lífrænna efna s.s. díoxíns, PCB og varnarefna.“

Engar reglur um skordýraeitur

Fram kemur í skýrslunni að skordýraeitur hafi mælst mjög lítið en mest var að finna af DDT í sýnum úr síld og grálúðu. Þá reyndist mest af sveppaeitrinu HCB í loðnu. Almennt reyndist vera fylgni milli magns efnanna og fituhlutfalls fiskanna. Ber að taka fram að magnið sem um var að ræða er mjög lítið og jafnvel í svo litlu magni að talið er að mælingin sé ofmat.

„Engin mörk hafa enn verið sett fyrir varnarefni í sjávarfangi, en til að gera samanburð við fyrri mælingar sem fram koma í fyrri skýrslum verkefnisins eru niðurstöður vegna DDT og HCB kynntar í skýrslu vöktunarinnar árið 2021,“ segja skýrsluhöfundar.

Í ágripi skýrslunnar er vakin athygli á því að vöktunin hafi fyrst farið af stað árið 2003 þegar Árni M. Mathiesen gegndi embætti sjávarútvegsráðherra. Var Matís falið að safna gögnum og gefa út skýrlu vegna vöktunarinnar árin 2003 til 2012. Hins vegar þurfti að gera hlé á verkefninu frá 2013 til 2016 vegna skorts á fjármagni og því fjögurra ára gat í gagnasafninu.

„Verkefnið hófst aftur í mars 2017 en vegna fjárskorts nær það nú eingöngu yfir vöktun á óæskilegum efnum í ætum hluta sjávarfangs úr auðlindinni sem ætlað er til manneldis, en ekki fiskimjöl og lýsi fyrir fóður. Af sömu ástæðu eru ekki lengur gerðar efnagreiningar á PAH-, PBDE- og PFC-efnum,“ segir í skýrslunni.