Davíð Benedikt Gíslason fæddist 30. desember 1969. Hann lést 29. janúar 2022.

Útför fór fram 11. febrúar 2022.

Elsku hjartans vinur. Við trúum því ekki að þú sért farinn. Fallegi, hlýi, trausti, atorkumikli flotti Davíð. Við erum buguð af sorg. Þú áttir okkar einlægu aðdáun. Hvernig þú studdir og elskaðir börnin þín út fyrir mörk alheimsins, hvernig þú komst fram, hvernig þú varst alltaf tilbúinn í að aðstoða og hjálpa til, hvernig þú komst með hlýju og gleði inn í allar aðstæður, hvernig þú reifst fólk með þér í skemmtilega hluti með einstakt lag á skipulagi og dansandi húmor í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur.

Við erum heppin að eiga mikið af fallegum minningum um Davíð, okkar kæra vin. Þær minningar ylja og styrkja á sorgarstundu. Davíð, Brynhildi og þeirra fallegu fjölskyldu tengdumst við vinaböndum þegar synir okkar, Benedikt og Krummi, byrjuðu hjá dagmömmu. Meðal þeirra og okkar allra hófst fallegur og traustur vinskapur sem haldist hefur alla tíð síðan.

Í gegnum börnin okkar höfum við ferðast vítt og breitt um landið og út fyrir landsteinana. Jói og Davíð hafa skipulagt og haldið utan um margar ferðir, Davíð yfirleitt yfirfararstjóri því það var enginn betri í því. Á tímabili ferðuðust þeir meira saman en með konunum. Handbolta- og fótboltamót, Evrópumót, heimsmeistaramót, fermingarferðir og dósasöfnun allt frá Ísafirði til Katar. Og það var alltaf gaman, það var skilyrði hjá Davíð.

Við tengdumst líka í gegnum dans, zumbatíma hjá Jóa og Theu þar sem Davíð og Brynhildur voru yfirburða á gólfinu. Það margborgaði sig að vera í návígi við þau því að þar var mesta stuðið. Þegar Pitbull kom á fóninn hafði enginn roð við Davíð, hann var kóngurinn. Á þorrablótum og böllum undirbjó Davíð sig vel og kom með aukaboli til að geta skipt eftir sveifluna á gólfinu, það var yfirleitt þriggja bola ball.

Sumarið 2020 setti Davíð saman hóp af gæðavinum sem við vorum svo heppin að vera hluti af. Krafturinn, hlýleikinn og fjörið sem fylgdi Davíð var engu líkt. Hann hélt utan um hópinn, skipulagði, stýrði, hvatti og aðstoðaði við að takast á við þá áskorun sem það er að ganga Laugaveginn á tveimur dögum. Á göngu þar sem takast þarf á við erfiðar aðstæður kom karakter Davíðs sterkt í ljós, hann var alltaf til staðar fyrir sitt fólk og mörg trúnaðarsamtölin áttu sér stað þessa daga. Davíð var aldrei þreyttur, þegar við komum á áningarstað þá var hann yfirkokkur og reiddi fram veislumáltíð. Hann var með þrek á við okkur öll hin til samans. Við erum svo innilega þakklát fyrir þessa fallegu göngu sem var síðasta för okkar með Davíð. Mögnuð upplifun sem við munum geyma í hjarta okkar alla tíð.

Við munum ávallt minnast þín með söknuði og þakkæti fyrir að fara fengið að vera vinir þínir og njóta bæði í gleði og sorg. Við þökkum þér fyrir trausta vináttu og allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Við söknum þín sárt og munum gera um ókomna tíð.

Við sendum fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur, góður drengur er genginn allt of snemma.

Hvíl í friði elsku fallegi og góði vinur.

Jóhann G. Jóhannsson,

Guðrún Kaldal, Krummi Kaldal og Jóhann Kaldal.

Látinn er fyrir aldur fram Davíð Benedikt Gíslason, góður vinur og skólabróðir, eftir snarpa baráttu við illvígan sjúkdóm.

Kynnin við Davíð hófust í lagadeild Háskóla Íslands, þar sem við stunduðum saman nám á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar. Nokkrir úr hópnum höfðu þó einnig verið samnemendur hans í Menntaskólanum í Reykjavík. Háskólaárin eru, eins og margir þekkja af eigin raun, frjór og spennandi tími þroska og menntunar, en ekki síður skemmtunar; seminör og vísindaferðir, félagslíf og jafnvel íþróttir.

Davíð var frá unga aldri íþróttamaður og einlægur áhugamaður um íþróttir, ekki síst handbolta sem hann keppti í og unni mjög. Síðar á ævinni gegndi hann trúnaðarstörfum fyrir Handknattleikssamband Íslands við góðan orðstír.

Við skólafélagarnir lékum lengi vel innanhússknattspyrnu einu sinni í viku í KR-heimilinu, til að létta okkur lífið við lesturinn, og fór Davíð þar jafnan fremstur í flokki.

Davíð var drengur góður. Hann var heill og traustur vinur, kappsamur en glaðlyndur og hófsamur í orði og æði. Í störfum sínum eftir útskrift sem lögmaður var hann fær og vel metinn og var ávallt gott að leita til hans með ráð.

Það eru forréttindi að kynnast góðu fólki um ævina og fá að vera því samferða um stund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(Valdimar Briem)

Ég færi eftirlifandi eiginkonu Davíðs, Brynhildi Þorgeirsdóttur, og börnum þeirra, Evu Björk, Þorgeiri Bjarka, Önnu Láru og Benedikt Arnari, svo og fjölskyldu allri, innilegar samúðarkveðjur. Guð geymi Davíð Benedikt Gíslason.

F.h. útskriftarárgangs úr lagadeild HÍ 1995,

Jónas Þór Guðmundsson.

Einn af þeim Seltirningum sem settu svip á samfélagið á Seltjarnarnesi var Davíð Benedikt Gíslason, sem lést á dögunum eftir erfið veikindi. Ég kynntist Davíð og konu hans Brynhildi í gegnum Íþróttafélagið Gróttu, ég man að í einu Gróttupartíinu tók ég eftir því að þau voru farin að líta hvort á annað með glampa í augunum, það var eitthvað í gangi. Stuttu seinna frétti ég að þau voru orðin par, æðislegt hugsaði ég, þau eiga svo vel saman. Davíð keppti í handboltanum bæði með manninum mínum Kidda og elsta syninum Gísla, hann var örvhent skytta, útsjónarsamur að skora mörkin og gaf góðar sendingar á félaga sína á línunni en það var einmitt staða minna manna, línan.

Davíð og eiginkona hans, Brynhildur Þorgeirsdóttir, tóku strax virkan þátt í samfélaginu á Seltjarnarnesi. Bæði voru mjög virk í starfi Íþróttafélagsins Gróttu þar sem Davíð gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Það var alltaf gaman að hitta þau hjónin á íþróttapöllunum að horfa á meistaraflokka Gróttu kvenna og karla í handboltanum, og áhugi hans á handbolta, reynsla og ósérhlífni skilaði sér svo í starfið innan handboltahreyfingarinnar með stjórnarstörfum fyrir Handknattleikssamband Íslands og ÍSÍ.

Davíð reyndist mér alltaf vel. Þau hjónin fluttust svo á Fornuströnd þar sem ég ólst upp og mamma býr enn og þá náði maður að vinka og kasta kveðju. Það var gott að leita til hans og því bað ég hann fyrir hönd bæjarstjórnar strax árið 2014 að taka sæti sem varamaður í yfirkjörstjórn. Ég þurfti bara að nefna það, hann sagði strax já eins og hans var von og vísa. Og þegar ég bað hann að taka að sér formensku í yfirkjörstjórn bæjarins sumarið 2018 sagði hann alveg sjálfsagt Ása mín – persónueinkenni hans voru góðmennska og ekki síst ósérhlífni.

Hann var félagsmálamaður mikill og voru honum falin mörg trúnaðarstörf. Davíð upplýsti mig strax um veikindi sín, hann sagðist ekki geta verið lengur í forsvari og formaður yfirkjörstjórnar. Honum þótti það leitt enda fannst honum þetta gaman og þetta lék í höndunum á honum að bera ábyrgð á kosningum eins og í forsetakosningunum í júní 2020.

Davíð var gegnheill Seltirningur og lagði sitt af mörkum til að gera góðan bæ enn betri. Fyrir hönd bæjarstjórnar sendi ég fjölskyldu Davíðs Benedikts innilegar samúðarkveðjur á sorgarstundu. Megi hann nú njóta þess að vera mættur á grænar grundir eilífðarinnar. Ég horfi með söknuði á eftir góðum félaga.

Ásgerður Halldórsdóttir

bæjarstjóri.