Ingibjörg Ragnheiður Magnúsdóttir fæddist 23. júní 1923. Hún andaðist 20. janúar 2022.

Ingibjörg var jarðsungin 1. febrúar 2022.

Didda frænka var mikil fyrirmynd okkar allra, bæði í starfi og leik, í jákvæðni sinni og sjálfstæði en ekki síst í hlýleika og umhyggju í okkar garð. Það var alltaf svo gott að fara til hennar, fá french toast og leika í sólskálanum, og síðar meir í kaffibolla og að fá að heyra af ævintýrum og afrekum hennar. Það virtist í hverju samtali koma upp nýtt ferðalag eða verkefni og ný baráttumál sem hún hafði sinnt. Allt til leiðarloka kenndi hún okkar nýjar lífslexíur, um mikilvægi hreyfingar, listrænnar sköpunar og að fara sína eigin leið í lífinu. Við minnumst hennar með hlýhug og munum sakna hennar.

Bjarni Þór, Helga Björk, Linda Ósk og Tómas Viðar.

Í dag kveðjum við Ingibjörgu Ragnheiði Magnúsdóttir eða Diddu frænku, föðursystur Adda mannsins míns.

Ég kynntist Diddu frænku fyrir rétt um 40 árum þegar við Árni Þór Bjarnason byrjuðum saman, hún tók mér strax opnum örmum. Frá okkar fyrstu kynnum tengdi Akureyri okkur saman þar sem við vorum báðar aldar upp á suðurbrekkunni á Akureyri, hún sagði oft við mig „við Akureyrarstelpurnar“.

Didda var mjög góð við mig, hún bauð mér í Zontaklúbbinn sinn sem ég var í í nokkur ár. Það sem tengdi okkur Diddu líka saman var að við elskuðum blóm og garðrækt, hún kom á hverju sumri í garðinn minn og ég fór líka til hennar á Þorfinnsgötuna þar sem hún hugsaði sérlega vel um garðinn sinn. Við ræddum um garðrækt og blómin okkar og nutum þess báðar.

Didda frænka var ljúf og góð við okkur fjölskylduna og vildi hjálpa okkur eins og hún gat. Hún kom í öll afmæli, veislur og matarboð til okkar. Didda var alltaf fyrsti gesturinn og kom alltaf 5-10 mín. áður en veislan byrjaði, þegar dyrabjöllunni var hringt þá vissum við að Didda frænka var komin. Didda frænka var alltaf skemmtileg, jákvæð og fylgdist vel með málum bæði innanlands og utan og það var sérstaklega gaman að ræða málin við hana.

Didda frænka var listamaður og fagurkeri, þegar hún hætti að vinna um 70 ára fór hún að gera handavinnu, glerlistaverk og mála. Hún málaði mikið á keramik og kom í flestar veislur með falleg verk sem hún gaf okkur. Við eigum fallegt handmálað jólamatarstell sem við notum öll jól, kertaluktir, lampa og málverk. Fyrir nokkrum árum gaf hún mér fallegt málverk af Súlum sem hún hafði málað handa mér, mér þykir afskaplega vænt um málverkið og það tengdi saman ást okkar á Akureyri.

Hvíl í friði, elsku besta Didda okkar, við munum hugsa mikið til þín og höldum minningu þinni lifandi.

Ásdís Alda Þorsteinsdóttir.

Ingibjörgu kynntist ég ekki á bernsku- eða unglingsárum mínum á Akureyri. Hún var 13 árum eldri og dágóður spölur milli heimilis hennar að Vesturgötu 13, á nánast óbyggðri sléttunni ofan Menntaskólans að fjallsrótum og Lækjargötunnar minnar í Búðargilinu. En húsið hennar man ég vel, fór þangað oft sem blaðberi og þar framhjá á leið í skátaskálann Fálkafell eða fjallgöngu á Súlur.

Ingibjörg, eina systirin, ólst upp með fimm bræðrum. Magnús faðir hennar kenndi mér handavinnu í Barnaskóla Akureyrar og Sverrir, elsti bróðirinn, leikfimi. Ingibjörg var ráðin hjúkrunarforstjóri á F.S.A. beint úr Hjúkrunarskólanum vorið 1961. Þar lágu leiðir okkar saman næsta ár, þegar ég tók kandídatsárið á heimaslóðum 1962. Fljótt var ljóst hvers vænta mátti af henni. Af 14 hjúkrunarkonum sem luku námi þetta vor fóru sjö til Akureyrar með henni. Afrekaskrá hennar í hjúkrun og heilbrigðismálum er löng. Víða sat hún í nefndum og stjórnum, m.a. í fulltrúaráði Landakotsspítala, sem var vinnustaður minn í rúmlega 30 ár.

Þetta ár, 1962, tók sig upp „fjallgöngufíkn“, sem ég á Skátafélaginu og Tryggva Þorsteinssyni að þakka. Í einni slíkri ferð vísaði ég þeim Ingibjörgu og Guðmundi Karli yfirlækni til vegar – nokkuð bratt, á tind Kerlingar (1538 m.y.s) upp af Grund í Eyjafirði. Kerling er drottning minna norðlensku fjalla. Ingibjörg var Fjallkona á Akureyri 17. júní 1962.

Hin síðari ár fyrir sunnan sáumst við helst við jarðarfarir. Hún varð fyrri til að kveðja, lést á Grund (hjúkrunarheimili) og lagði þaðan upp í sína hinstu för, en stefnir nú í hæstu hæðir.

Ég vil benda á skemmtilegt og fróðlegt myndskreytt viðtal Jóns Hjaltasonar sagnfræðings við Ingibjörgu. („Súlur tímarit Sögufélags Eyfirðinga Akureyri“, XLV. árg. 2019).

Í takt við titil þess viðtals, óska ég „hjúkrunarkeisara Íslands“ góðrar ferðar.

Jóhann Lárus Jónasson.