Einbeittur Hannes Hlífar Stefánsson sigraði á Temprumóti Taflfélags Garðabæjar sem lauk á fimmtudaginn. Halldór Grétar Einarsson varð jafn honum að vinningum en lægri á stigum.
Einbeittur Hannes Hlífar Stefánsson sigraði á Temprumóti Taflfélags Garðabæjar sem lauk á fimmtudaginn. Halldór Grétar Einarsson varð jafn honum að vinningum en lægri á stigum. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjörvar Steinn Grétarsson hefur unnið allar skákir sínar eftir fimm umferðir á Skákþingi Reykjavíkur sem hófst 2. febrúar. Mótinu var frestað í byrjun janúar en 40 skákmenn hófu keppni. Hjörvar vann einn helsta keppinaut sinn, Davíð Kjartansson, í 5.

Hjörvar Steinn Grétarsson hefur unnið allar skákir sínar eftir fimm umferðir á Skákþingi Reykjavíkur sem hófst 2. febrúar. Mótinu var frestað í byrjun janúar en 40 skákmenn hófu keppni. Hjörvar vann einn helsta keppinaut sinn, Davíð Kjartansson, í 5. umferð en staða efstu manna er þessi: 1. Hjörvar Steinn Grétarsson 5 v . (af 5). 2. Arnar Milutin Heiðarsson 4½ v. 3. Jóhann Jónsson 4 v. 4. Gauti Páll Jónsson, Sverrir Hákonarson, Davíð Kjartansson og Sigurbjörn Björnsson 3½ v.

Hilmir Freyr efstur í Serbíu

Þrír ungir íslenskir skákmenn, Vignir Vatnar Stefánsson, Hilmir Freyr Heimisson og Alexander Oliver Mai, skráðu sig á þrjú áfangamót í Arandjelovac í Serbíu í þessum mánuði og sitja þeir Hilmir Freyr og Alexander að tafli í flokki alþjóðlegra meistara. Vignir Vatnar varð að sleppa fyrsta mótinu í flokki stórmeistara en bólusetningarvottorð hans reyndist ófullnægjandi þegar millilent var á Ítalíu. Ræst hefur úr og er hann tilbúinn í slaginn þegar næsta mót í syrpunni hefst.

Hilmir Freyr , sem keppir að lokaáfanga sínum að alþjóðlegum meistaratitli, hefur teflt af miklum krafti og er einn efstur 18 keppenda með fimm vinninga af sex mögulegum með árangur sem reiknast upp á 2.513 elo-stig. Hann hóf mótið með eftirfarandi sigri:

Arandjelovac 2022; 1. umferð:

Hilmir Freyr Heimisson – Lazar Ivanovic (Serbía)

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 g6 3. d4 cxd4 4. Dxd4 Rf6 5. Rc3 Rc6 6. Da4 Dc7 7. Bg5 Rg4

Honum gast ekki að eðlilegasta leiknum, 7. ... Bg7 vegna 8. Bxf6! (eða fyrst 8. 0-0-0 ) Bxf6 9. Rd5 með sterku frumkvæði. Sennilega er hægt að skella skuldinni á 6. ... Dc7 því svartur hefur þegar ratað í vandræði.

8. Rd5 Db8 9. h3 Rge5 10. Rxe5 Rxe5 11. 0-0-0 h6 12. Be3 Bg7

(Sjá stöðumynd 1)

13. Bb6!

(Bráðsnjall leikur sem gerir út um taflið vegna hótunarinnar 14. Bc7. Ekki gengur 13. ... axb6 vegna 14. Dxa8 Dxa8 15. Rc7+ og 16. Rxa8.)

13. ... 0-0 14. Bc7 b5 15. Dxb5 Db7 16. Rxe7+ Kh7 17. Bxe5 Dxb5 18. Bxb5 Bxe5 19. Rxc8 Haxc8 20. Bxd7

Nú er eftirleikurinn auðveldur.

20. ... Hc4 21. Hhe1 a5 22. c3 Ha8 23. Hd5 Bf4+ 24. Kc2 a4 25. a3 Hc7 26. Bb5 Hac8 27.Ba6

- og svartur gafst upp.

Averbakh 100 ára

Rússneski stórmeistarinn Júrí Averbakh, sem varð 100 ára 8. febrúar sl., á merkilegan feril að baki. Hann varð Sovétmeistari árið 1954, þátttakandi í áskorendamótinu 1953 og síðar forseti sovéska skáksambandsins, atkvæðamikill á vettvangi FIDE, ritstjóri skáktímarita og höfundur frábærra fræðibóka t.d. um endatöfl og þróun skáklistarinnar frá örófi alda. Á Ólympíumótinu í Dúbaí 1986 vakti hann athygli á gleymdum skáksnillingi araba, As Suli, og skákdæmi hans sem fjallað var um í pistli í Morgunblaðinu fyrir tæplega 15 árum – sjá: http://mbl.is/go/rtge9.

Það eru ákveðin líkindi með lausninni á dæmi As Suli og dæminu sem hér fylgir og Averbakh hélt mikið upp á; kóngarnir stíga sérkennilegan dans á reitum sem kallast á:

Nikolai Grigoriev

Hvítur leikur og vinnur.

Lausnin er í stórum dráttum þessi: 1. g4 Ka3 2. Ka5 Kb2 3. Kb6 Kb3 4. Kb5 Kc2 5. Kc6 Kc3 6. Kc5 Kd2 7. Kd6 Kd3 8.Kd5 Ke2 9. Ke6 Ke3 10.Ke5 Kf2 11. Kf6 Kf3 12. Kf5 Kg2 13. Kg6 Kh3 14. Kh5 Kxh2 15. Kxh6 – og hvítur vinnur.

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)