Glæponar Ógurlegir glæpamenn í glæpamyndinni Scarface frá árinu 1932.
Glæponar Ógurlegir glæpamenn í glæpamyndinni Scarface frá árinu 1932.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bíóklúbburinn Svartir sunnudagar vaknar aftur til lífsins í Bíó Paradís á morgun með sýningu á kvikmyndinni Scarface frá árinu 1932 með Paul Muni og Ann Dvorak í aðalhlutverkum.

Bíóklúbburinn Svartir sunnudagar vaknar aftur til lífsins í Bíó Paradís á morgun með sýningu á kvikmyndinni Scarface frá árinu 1932 með Paul Muni og Ann Dvorak í aðalhlutverkum. „Myndin var víða bönnuð og var fyrir vikið læst í geymslu annars framleiðanda hennar, Howards Hughes, í marga áratugi. Eftir andlát Hughes kom hún aftur fyrir sjónir almennings og fékkst þá leyfi fyrir endurgerð hennar 1983,“ segir á vef kvikmyndahússins en myndin segir af glæpamanni sem vinnur sig upp á tindinn í glæpaheiminum í Chicago á þriðja áratugnum. Leikstjóri myndarinnar er Howard Hawks og er hún sögð lauslega byggð á frásögnum af Al Capone.

Sem fyrr eru umsjónarmenn Svartra sunnudaga þeir Hugleikur Dagsson og Sigurjónarnir Kjartansson og Sigurðsson en sá síðarnefndi er þekktari undir listamannsnafni sínu Sjón. Verða nokkrar sígildar myndir og költmyndir sýndar á völdum sunnudögum fram á vor.

Kölski, vændi og augndropar

Sunnudaginn 27. febrúar verður hrollvekja á dagskrá, bandaríska kvikmyndin The Blood on Satan's Claw eða Blóðið á kló kölska frá árinu 1971. Leikstjóri hennar er Piers Haggard og er myndin sögð yfirnáttúrleg hrollvekja þar sem ungmenni smábæjar fara að dýrka djöfulinn.

Sunnudaginn 13. mars verður fransk-belgíska kvikmyndin Jeanne Dielman, 23, quai du commerce, 1080 Bruxelles sýnd en hún er frá árinu 1975 og eftir leikstjórann Chantal Akerman. Verður sýnt nýtt og uppgert eintak úr safni Akerman og er myndin sögð meistaraverk sem sogi áhorfandann inn í raunveruleika húsmóður í Brussel á áttunda áratugnum. Húsmóðir þessi, Jeanne Dielman, er heldur einmana ekkja sem býr með syni sínum og „stússast í dagverkunum, lappar upp á íbúðina og falbýður líkama sinn til þess að ná endum saman“, eins og því er lýst en eitthvað setur Dielmann svo út af laginu. 10. apríl verður aftur hrollvekja á dagskrá og það með vísindaskáldskaparívafi, X: The Man with the X-Ray Eyes eftir leikstjórann Roger Corman frá árinu 1963. Segir í henni af dr. Xavier sem þróar augndropa til að bæta sjón en þeim fylgja mjög alvarlegar aukaverkanir.

Barbari og mannæta

Sunnudaginn 24. apríl er svo komið að Conan the Barbarian , eða Villimanninum Conan sem var eftirminnilega túlkaður af Arnoldi Schwarzenegger. Myndin segir af Conan sem seldur er í þrældóm sem drengur og verður vöðvatröll mikið og vígamaður á fullorðinsárum. Leitar hann hefnda gegn vondum galdrakarli. Myndin er frá árinu 1982 og var leikstýrt af John Milius.

Sunnudaginn 8. maí verður svo sýnd kvikmyndin Ravenous frá árinu 1999 með Robert Carlyle í hlutverki mannætu. Er það hrollvekja sem segir af herdeild í háskalegri björgunaraðgerð sem lendir í vandræðum þegar hún hefur kynni af mannætu. Leikstjóri er Antonia Bird.

Frekari upplýsingar og miðasölu má finna á bioparadis.is.