[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Þegar múrar milli háskólastarfs, vísinda, nýsköpunar og atvinnulífs eru felldir skapast óteljandi tækifæri,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Viðtal

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Þegar múrar milli háskólastarfs, vísinda, nýsköpunar og atvinnulífs eru felldir skapast óteljandi tækifæri,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. „Menntun og mannauður er undirstaða hagvaxtar og velsældar til framtíðar. Í því skyni er mikilvægt að háskólastarf hafi sterkar beinar tengingar út í samfélagið. Rannsóknir og niðurstöður þeirra þurfa að nýtast betur til að skapa ný störf og aukin verðmæti. Að sama skapi verður atvinnulífið að geta lagt sitt af mörkum gagnvart háskólasamfélaginu. Meðal Íslendinga býr mikill frumkvöðlaandi sem þarf að nýta vel.“

Stilla kúrs til árangurs

Verkaskipting innan stjórnarráðsins var stokkuð upp og skipulagi þess breytt með nýrri ríkisstjórn sem tók við völdum í nóvember síðastliðnum. Málefni háskóla, iðnaðar og nýsköpunar hafa nú verið sameinuð í nýju ráðuneyti og hófst starfsemi þess formlega 1. febrúar sl. Þessi breytingar var gerð, meðal annars í því skyni að styrkja íslenskan hugverkaiðnað og gera að öflugri stoð í verðmætasköpun. Áslaug Arna segir þessar breytingar þarfar og um þær hafi verið góð samstaða. Að fenginni reynslu eftir fjögurra ára ríkisstjórnarsamstarf hafi þótt ástæða til að fínstilla kúrsinn, allt í því skyni að ná betri árangri.

Áslaug Arna hefur boðað að í sínu ráðuneyti – þar sem vinna tæplega 40 manns – verði störf að öðru jöfnu án staðsetningar. Fólk þurfi ekki endilega að vera í Reykjavík heldur geti verið hvar sem er, rétt eins og tæknin býður. Til starfa í ráðuneytinu verði fólk sömuleiðis í vaxandi mæli ráðið inn í krafti sérþekkingar sinnar á málum og verkefnum sem eru í deiglu hverju sinni. Starfsumhverfi muni taka mið af þessu með nýrri nálgun.

Mörg egg í fleiri körfum

„Ísland þarf ekki að vera einhæft auðlindahagkerfi,“ sagði Áslaug þegar blaðamaður tók hana tali nú í vikunni. Viðfangsefnin í ráðuneytinu segir hún spennandi og sig hlakki alltaf til að mæta í vinnu.

„Með þekkingardrifnu atvinnulífi verður verðmætasköpunin fjölbreyttari með mörgum eggjum í enn fleiri körfum en nú. Með slíku ætti að ráðast betur við efnahagsleg áföll sem alltaf koma öðru hverju. Auðlindir eru í eðli sínu takmarkaðar en hugvit ekki. Framúrskarandi fyrirtæki byggð á hugviti héldu sínu og sum hafa raunar eflst í faraldrinum. Tekjurnar sem þau skapa eru miklar og fara vaxandi. Framlag tæknigreina á sinn þátt í því að bakslagið sem fylgdi samdrætti af völdum veirunnar varð minna en ella. Mín sýn er sú að hugvit verði í fyllingu tímans stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar.“

Eitt af stefjum sáttmálans sem ríkisstjórnin starfar eftir er að nýta skuli tæknibreytingar til að auka lífsgæði. Meðal annars stendur til að bæta aðgengi að stafrænu háskólanámi á Íslandi, svo möguleikar til menntunar verði sem allra mest óháðir búsetu.

„Þegar stefna í háskólamálum er mótuð er mikilvægt að hið opinbera hafi sýn yfir mönnunarþörf til langs tíma í heilbrigðis- og menntakerfinu. Þar þarf meðal annars að hafa hliðsjón af aðstæðum í hinum dreifðu byggðum, þar sem nú eru komar mikilvægar þekkingarmiðstöðvar og háskólastofnanir. Örar tæknibreytingar kalla á nýja færni fólks, svo starfs-, sí- og endurmenntun verður enn mikilvægari. Einnig þarf nauðsynlega að gera fyrirtækjum betur kleift að fá erlenda sérfræðinga til starfa.“

Nýsköpunarstjórn endurvakin

„Nú er veður til að skapa “ yrkir Tómas Guðmundssonar í frægu ljóði. Fyrir 80 árum var við völd á Íslandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og sósíalista sem kenndi sig við nýsköpun í atvinnulífinu. Vann vel að slíku með verksmiðjum og nýmæli í sjávarútvegi. Hafa ber svo í huga að sagan endurtekur sig oft og í sáttmála núverandi ríkisstjórnar kemur orðið nýsköpun fyrir alls 34 sinnum. Áslaug hlær þegar þetta er nefnt – en segir að ekki megi líta of þröngt á hugtakið nýsköpun , það eigi við um allt samfélagið.

„Allt sem fólk tekur sér fyrir hendur með breyttum aðferðum er á sinn hátt nýsköpun. Hver einasti dagur er nýsköpun, sem á sér stað í öllu daglegu lífi fólks. Inni á heimilunum og úti í fyrirtækjunum, litlum sem stórum, alls staðar þar sem nýrri hugsun er hrint í framkvæmd er nýsköpun. En sé litið á þetta þrengra þá er nýsköpun á Íslandi á blússandi siglingu, meðal annars í krafti aðgerða síðustu ríkisstjórnar. Þar má telja hækkaðar skattaendurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar og hærri framlög í sjóði sem styðja við fjárfestingar í sprotafyrirtækjum,“ segir Áslaug Arna og að síðustu:

Mæta áskorun

„Nýsköpun er ekki bara snjallforritagerð í 101 Reykjavík, heldur svo miklu meira. Tækifærin nú eru ekki síst í heilbrigðis- og lífvísindum, matvælum og grænni tækni svo tekin séu dæmi. Íslendingar standa framarlega í þessari þróun, meðal annars í þekkingu til þess að takast á við loftslagsbreytingar, eina stærstu áskorun samtímans.“

Vilji og kjarkur til breytinga

„Ég vil gera stjórnkerfið sveigjanlegra, svo hægt sé að ná meiri árangri í þágu fólksins í landinu,“ segir Áslaug Arna. „Í því skyni vil ég skapa starfsumhverfi í ráðuneytinu sem er öðruvísi en tíðkast hefur hingað til. Ná með því betri árangri fyrir minna skattfé og búa til umhverfi sem skapar aukin verðmæti fyrir samfélagið. Þetta er spennandi vegferð og við ætlum okkur stóra hluti.“

Áður en Áslaug Arna tók við núverandi embætti var hún í dómsmálaráðuneytinu í rúm tvö ár. Var þar ráðherra til dæmis lögreglu, réttarfars og stofnana sem sinna margvíslegri þjónustu við almenning. Þrátt fyrir að þessar stofnanir séu íhaldssamar í eðli sínu segir Áslaug að tekist hafi að breyta mörgu og þróa til betri vegar. Margvíslega þjónustu embætta sýslumanna megi nú nálgast á netinu, ökuskírteini hafi verið gerð stafræn og rafræn réttarvörslugátt opnuð. Boðunarlista í fangelsi hafi tekist að stytta með nýrri nálgun og svo megi áfram telja.

„Ef raunverulegur áhugi er fyrir breytingum má ná ýmsu í gegn þó svo kerfin sem unnið er eftir séu þunglamaleg. Vilji og kjarkur er allt sem þarf.“