„Kerfið er í eðli sínu íhaldssamt enda hefur það að mestu leyti gefist vel. En það hefur þanist út og við því þarf að bregðast. Sjúklingurinn á alltaf að vera í öndvegi og út frá því verðum við að vinna. Við verðum að sníða þjónustuna að þörfum fólksins í landinu,“ segir Runólfur Pálsson.
„Kerfið er í eðli sínu íhaldssamt enda hefur það að mestu leyti gefist vel. En það hefur þanist út og við því þarf að bregðast. Sjúklingurinn á alltaf að vera í öndvegi og út frá því verðum við að vinna. Við verðum að sníða þjónustuna að þörfum fólksins í landinu,“ segir Runólfur Pálsson. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Runólfur Pálsson er ekki verkkvíðinn maður. Annars hefði hann ekki sótt um embætti forstjóra Landspítala sem hann hefur nú valist til og tekur til starfa um næstu mánaðamót.

Runólfur Pálsson er ekki verkkvíðinn maður. Annars hefði hann ekki sótt um embætti forstjóra Landspítala sem hann hefur nú valist til og tekur til starfa um næstu mánaðamót. Hann dregur ekki fjöður yfir þá staðreynd að gríðarlegar áskoranir séu fram undan í starfseminni en í þeim felist jafnframt góð tækifæri svo laga megi spítalann sem best að breyttum tímum. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Runólfur Pálsson er hátt uppi þegar hann tekur á móti mér. Skrifstofa hans er sumsé á sjöundu hæð Landspítala í Fossvogi. Talan sjö er gjarnan tengd við heppni í vestrænni menningu enda vísar hún í allar mögulegar áttir, ekki síst trúarlega. Það mun hafa tekið almættið sjö daga að skapa heiminn, sjö voru hinstu spakmæli frelsarans á krossinum, dyggðirnar eru sjö, eins vikudagarnir. Svo mætti lengi telja. Þá þýðir nafnið á sjöunda syni Jakobs, Gad, einfaldlega „Gangi þér vel“ á íslensku. Full ástæða er til að færa það yfir á viðmælanda okkar en Runólfur hefur að sönnu tekið að sér eitt erfiðasta starf landsins, að stýra sjálfu þjóðarsjúkrahúsinu. Um það getum við flest verið sammála.

Runólfur kemur að vísu ágætlega nestaður að verkefninu en hann hefur starfað á spítalanum í meira en tvo áratugi og þekkir því prýðilega vel til. Hann er læknir að mennt með sérfræðiréttindi í lyflækningum og nýrnalækningum. Runólfur er prófessor við Háskóla Íslands og varaforseti læknadeildar sama skóla. Þá hefur hann gegnt leiðandi hlutverki á alþjóðavettvangi á sviði lyflæknisfræði og verið afkastamikill í vísindastarfi.

Stórfelld fólksfjölgun

Á starfsferlinum hefur Runólfur orðið vitni að miklum breytingum, á marga lund.

„Fyrir það fyrsta hefur íslensku þjóðinni fjölgað um tæplega 100 þúsund frá aldamótum með tilheyrandi áhrifum á Landspítala og heilbrigðiskerfið í heild. Starfsfólki í heilbrigðisþjónustunni hefur að sama skapi fjölgað mikið. Þjóðin hefur líka elst, umræða sem við erum að ganga gegnum núna, svolítið á eftir nágrannalöndum okkar. Það eru til dæmis 10 ár síðan samtök lyflækna í Bretlandi gáfu út skýrslu sem nefndist Hospitals on the Edge,“ byrjar hann samtal okkar en það myndi líklega útleggjast: Spítalar á ystu nöf.

Runólfur bendir á að fólki 67 ára og eldra hafi fjölgað um 60% undanfarna tvo áratugi og sú þróun stefni bara í eina átt. Hvað þýðir það eftir 10 ár? 20 ár? „Búist er við að fjöldi Íslendinga 70 ára og eldri muni tvöfaldast á næstu 30 árum og verði þá fjórðungur þjóðarinnar,“ segir hann.

Þá er gott að búa að góðum grunni í heilbrigðisþjónustunni – sem við og gerum, að áliti Runólfs. „Ég er oft spurður erlendis: Hvernig farið þið að því að annast allt sem þið eruð að gera, þessi pínulitla þjóð? Ég svara því jafnan til að við höfum vanist því að vera sjálfbær. Auðvitað erum við smáþjóð, þótt við tölum ekki mikið um það. Það er einna helst í kringum Smáþjóðaleikana og okkur finnst við ekkert endilega eiga heima þar.“

Hann brosir. Og við báðir.

„En þrátt fyrir smæðina höfum við náð ótrúlega langt á mörgum sviðum sem hlýtur að helgast af mikilli hagsæld og eljusemi og dugnaði kynslóðanna á undan okkur. Núna erum við hins vegar aftur að reka okkur á vegna þess hve við erum smá. Það er mikill mannauður í heilbrigðiskerfinu, vel menntaðir læknar, hjúkrunarfræðingar og aðrir. Við erum hins vegar komin á þann stað að það dugar ekki að vera með hæft starfsfólk, við þurfum fleira fólk. Þá getum við ekki deilt verkefnum milli sjúkrahúsa, til dæmis varðandi fátíðari hluti, og fyrir vikið verður þjónustan hjá okkur ekki eins hagkvæm og hjá fjölmennari þjóðum. Til þess er verkefnafjöldinn í sumum tilvikum ekki nægilega mikill og þá þarf að leita annarra leiða. Það er óhagkvæmt að halda uppi sérhæfðri vaktþjónustu á ýmsum sviðum þar sem verkefni eru takmörkuð.“

Landið ekki aðlaðandi fyrir alla

Hann bendir á að lausnin sé ekki endilega í því fólgin að flytja inn vinnuafl. „Þótt lífsskilyrði séu góð, þá er eyjan okkar ekkert endilega aðlaðandi fyrir alla. Ég nefni veðrið í því sambandi. Það er ekki fyrir alla. Það getur líka verið flókið fyrir fólk að taka sig upp með alla fjölskylduna.“

Sameining sjúkrahúsa er leið sem farin var upp úr aldamótum til að svara kalli nútímans og Runólfur segir þá aðgerð að ýmsu leyti hafa heppnast prýðilega. „Það þýddi að við vorum komin með nægilega stóran spítala til að geta verið með sérhæfðari lækningar og þróað starfseiningar út frá því. Á hinn bóginn var óheppilegt að þurfa að deila meginstarfseminni milli Fossvogs og Hringbrautar. Svo hefur tekið alltof langan tíma að endurnýja húsakost spítalans sem að miklu leyti er úreltur. Þá var lagt upp með að fækka sjúkrarúmum að erlendri fyrirmynd og áhersla lögð á að veita fremur þjónustu á göngu- og dagdeildum, enda mun hagkvæmara. Þarna voru áhrif mikillar fjölgunar aldraðra vanáætluð því þótt fólk eldist alla jafna betur nú en það gerði hér áður fyrr þá þurfa aldraðir oft á sjúkrahúsþjónustu að halda. Þess utan fækkuðum við sjúkrarúmum meira en aðrir voru að gera og afleiðingin er sú að þau eru allt of fá í dag.“

Hann nefnir vanda bráðamóttökunnar í þessu sambandi, sem kominn var til löngu fyrir heimsfaraldur kórónuveirunnar. „Það er bæði erfitt að veita þjónustuna og tryggja öryggi sjúklinga á yfirfullri bráðamóttöku, eins og ítrekað hefur komið fram í fréttum. Því hefur verið kennt um að aldraðir séu að teppa legurými en ef grannt er skoðað kemur í ljós að við erum með 28% færri rúm á hverja þúsund einstaklinga en meðaltal 11 landa í Vestur-Evrópu eins og nýlega kom fram í grein í Læknablaðinu. Sé höfuðborgarsvæðið borið saman við þéttbýl svæði í þessum löndum er staðan enn verri. Það skortir því mikinn fjölda legurýma á Landspítala. Þetta er eitt af vandamálunum sem risu í kringum Covid-19. Við höfðum bara ekki svigrúmið sem þarf.“

– Hefur það komist til skila?

„Ég veit það ekki. Auðvitað verða spítalar að geta brugðist við frávikum í starfseminni, það á ekki að þurfa heimsfaraldur til. Það geta verið hópslys, erfiður inflúensufaraldur eða annað slíkt. Almennt er miðað við að meðalrúmanýting sé 85% og fari ekki yfir 90% á bráðasjúkrahúsum. Hér hefur hún verið um og yfir 100%. Ég hef áhyggjur af þessu og ef við grípum ekki inn í með markvissum hætti verður vandamálið enn stærra þegar fram líða stundir.“

Runólfur segir nýja spítalann sem er í byggingu við Hringbraut haldið á lofti sem lausn við legurýmisskortinum en því miður taki sú framkvæmd langan tíma og ekki liggi fyrir hvenær sá húsakostur verði kominn í gagnið. „Við þurfum að lifa með því þangað til og finna lausnir. Það er ekki nóg að kalla bara eftir nýjum byggingum.“

Breytt viðhorf nýrra kynslóða

Runólfur var forseti Evrópusamtaka lyflækna 2016-2018 og tók á þeim vettvangi meðal annars þátt í umræðum um breytt viðhorf nýrra kynslóða til krefjandi spítalastarfsemi. „Nýjar kynslóðir hafa annað viðhorf til þessarar starfsemi. Þá er ég ekki bara að tala um fagfólk, heldur ekki síður almenning. Almenningur er miklu upplýstari en hann var fyrir 20-30 árum og gerir fyrir vikið mun meiri kröfur. Við björguðum okkur oft hér áður með löngum og tíðum vöktum enda var það partur af kúltúrnum á spítalanum að vinna mikið, eins og víða annars staðar í þjóðfélaginu. Vaktir stóðu gjarnan yfir í sólarhring eða lengur. Það er ekki inni í myndinni í dag og fyrir bragðið verður mönnunarþörfin meiri.“

Hann segir sérhæfð sjúkrahús ekki síst hafa orðið fyrir barðinu á þessari þróun. Það eigi við hér eins og í löndunum í kringum okkur. „Ef við skiptum þjónustunni í almenna og sérhæfða þjónustu þá hefur sú fyrrnefnda þanist mun meira út. Það er bráðaþjónusta, öldrunarþjónusta og þjónusta vegna einfaldra vandamála sem krefst ekki mikillar sérhæfingar. Við vorum á hinn bóginn á leið í átt að meiri sérhæfingu og höfum fyrir vikið þurft að taka skref til baka og segja: Við þurfum að skilgreina almennu þjónustuna að nýju og skipuleggja hana frá grunni. Skipulag bráðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið þróað að marki í áratugi. Við reiðum okkur á Læknavaktina og bráðamóttöku Landspítala. Önnur úrræði þurfa að vera í boði fyrir ýmsa hópa sjúklinga sem eru kannski með aðkallandi vandamál en komast hvergi að og enda á bráðamóttökunni. Til að mæta þessu höfum við sett á laggirnar bráðadagdeild lyflækninga á Landspítala sem er valkostur á móti bráðamóttökunni og erum að þróa hana. Sama hugmyndafræði var raunar á bak við Covid-göngudeildina, þar sem fólk getur komið til mats og meðferðar og sleppur við að fara á bráðamóttökuna.“

Verk að vinna í öldrunarþjónustu

Víða er verk að vinna og Runólfur nefnir einnig öldrunarþjónustuna sem sé mjög umfangsmikil á Landspítala. Rúmafjöldinn er sem dæmi um fjórðungur þess sem spítalinn ræður yfir. „Vegna skorts á öðrum úrræðum vistast fólk stundum lengi á Landspítala, einkum meðan það bíður eftir að komast að á hjúkrunarheimili. Við þurfum að endurskipuleggja öldrunarþjónustuna frá öllum hliðum í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld og sveitarfélögin. Færa þarf hluta þessara verkefna frá Landspítala, meðal annars með því að efla heimaþjónustu og bjóða upp á fjölbreyttari úrræði. Hlutverk Landspítala hefur ekki þróast á nægilega markvissan máta í öllum þeim hræringum sem verið hafa síðustu tvo áratugi. Það virðist sem öll verkefni sem ekki rúmast annars staðar komi hingað. Það þarf að skilgreina hlutverk spítalans að nýju.“

– Alltaf er verið að tala um peninga í sambandi við Landspítalann. Sumir segja að hann sé undirfjármagnaður og aðrir að hann sé illa rekinn.

„Jú, láttu mig þekkja það. Þessu á ég ekki nægileg svör við en hvet til þess að horft sé á málið frá öllum hliðum. Ég get til dæmis ekki séð annað en að það komi til með að kosta peninga að snúa uppsöfnuðum vanda spítalans við. Auðvitað á Landspítali að vera mjög vel rekinn og ætíð ber að gæta ýtrustu hagkvæmni. Að mínu viti er reynt að gera það. Vandinn er sá að það eru alltaf að koma ný og fjárfrek úrlausnarefni sem krafa er gerð um að við leysum.“

Hann bendir á að Landspítali sé líka háskólasjúkrahús með 2.000 nemendur og því hlutverki verði hann að geta sinnt af fullum þunga. „Það er ekkert launungarmál að þetta hlutverk hefur liðið fyrir það að hin mikla aukning klínískra verkefna kaffærir allt annað. Það hefur orðið hnignun á framlagi á vísindasviðinu sem við þurfum að snúa við. Góðar hugmyndir geta kviknað hér eins og annars staðar og vel útfærðar vísindarannsóknir farið hér fram, þrátt fyrir okkar smæð. Í því sambandi hefur tilkoma Íslenskrar erfðagreiningar skipt sköpum. Ég nefni líka Hjartavernd. En Landspítali á líka að vera öflug vísindastofnun. Háskólahlutverkið getur haft mikil áhrif á framtíð okkar, ekki síst hvað snertir nýliðun.“

Kallar á meiriháttar viðbragð

Að sögn Runólfs er erfitt að bera Landspítalann saman við háskólasjúkrahús í öðrum löndum fyrir þær sakir að hann er þjóðarsjúkrahús en þau lúta yfirleitt öðrum lögmálum. „Víðast annars staðar eru mörg sjúkrahús sem geta stutt hvert við annað og skipt með sér verkum en yfirbugist Landspítali höfum við ekki í önnur sjúkrahús að venda. Auk þess að veita sérhæfða þjónustu fyrir alla landsmenn er Landspítali bráðasjúkrahús 64% Íslendinga sem búa á höfuðborgarsvæðinu, að ekki sé talað um alla ferðamennina í venjulegu árferði. Sú mikla fólksfjölgun sem hefur átt sér stað hefur stóraukið verkefni og álag á Landspítala. Starfsfólki hefur fjölgað en ekki nægilega. Þetta kallar á meiriháttar viðbragð án tafar. Þá er ég að tala um endurskipulagningu heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og verkaskiptingu milli spítalans, heilsugæslunnar og þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og annarra sérfræðinga. Við verðum að nýta öll okkar úrræði eins vel og kostur er.“

Hér er rætt um stór úrlausnarefni en Runólfur er ekki í nokkrum vafa um að í þeim felist tækifæri fyrir spítalann. „Mér finnst fráleitt að ætlast til að yfirvöld komi og lagi ástandið fyrir okkur; við verðum að gera það sjálf. Það er átaksverkefni en í mínum huga eru klár sóknarfæri víða, ekki síst í skipulagi. Kerfið er í eðli sínu íhaldssamt enda hefur það að mestu leyti gefist vel. En það hefur þanist út og við því þarf að bregðast. Sjúklingurinn á alltaf að vera í öndvegi og út frá því verðum við að vinna. Við verðum að sníða þjónustuna að þörfum fólksins í landinu.“

– Hversu hátt hlutfall starfseminnar væri hægt að flytja annað?

„Því get ég ekki svarað á þessari stundu; það þarf að greina. En ég tel að efla eigi bráðaþjónustu sjúkrahúsanna í Kraganum. Eins mætti sinna endurhæfingarþjónustu fyrir aldraða að verulegu leyti annars staðar en á Landspítala.“

Kominn í forystuteymið

– Það er augljóst að þú varst ekki að byrja að velta þessum málum fyrir þér í gær. Var sjálfgefið að þú myndir sækjast eftir embætti forstjóra þegar það losnaði?

„Í raun ekki. Ég var yfirlæknir nýrnalækninga á Landspítala í mörg ár og vann ásamt fleirum að uppbyggingu líffæraígræðslustarfsemi spítalans, auk þess að sinna vísindastörfum og kennslu. Ég hafði hugleitt að einbeita mér í auknum mæli að starfi mínu við Háskóla Íslands. Þegar breytingar urðu á skipulagi forystuteymis spítalans í árslok 2019 var hins vegar lagt hart að mér að sækja um starf forstöðumanns lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu sem ég gerði. Það þýddi að ég var kominn framarlega meðal stjórnenda spítalans. Skömmu síðar skall kórónuveirufaraldurinn á og ég kom mikið að þróun göngudeildarinnar og þjónustunni yfirhöfuð. Síðan gerðist það að Páll Matthíasson steig skyndilega frá borði og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs, tók tímabundið við starfi forstjóra og ég við hennar starfi. Í framhaldi af því var starf forstjóra auglýst og ég get ekki neitað því að ég var hvattur til að sækja um.“

– Hvaðan kom sá stuðningur, að innan eða utan?

„Bæði að innan og utan. Ég hugsa að fyrir tveimur til þremur árum hefði ég ekki einu sinni litið á auglýsinguna en nú var önnur staða komin upp og mér þótti eðlilegt að gefa kost á mér. Síðan hélt ég bara áfram að sinna mínum störfum og er enn á kafi í verkefnum sem ég þarf að ljúka fyrir 1. mars. Það hefur satt best að segja ekki verið mikill tími til að máta sig við forstjórastólinn. En það kemur að því.“

– Lítur þú svo á að því fylgi fleiri kostir en gallar að þú komir að innan? Sumir segja að best hefði verið að fá utanaðkomandi mann til að taka við starfi forstjóra.

„Almennt séð held ég að gott sé að fá af og til utanaðkomandi aðila til að koma inn með ferska strauma. Ég hef líka verið spurður að því hvort forstjórinn þurfi endilega að vera læknir. Auðvitað er það ekki svo en staðreyndin er eigi að síður sú að á þekktustu sjúkrahúsum heims eru forstjórarnir oft læknar. Einnig hefur færst í vöxt að fólk með viðskipta- eða rekstrarmenntun sé þjálfað upp í stjórnun og rekstri stórra heilbrigðisstofnana, hvort sem það er á viðkomandi stofnun eða einhverri annarri. Hvað Landspítala varðar þá höfum við kannski ekki mikla völ á ferskum straumum utan frá, nema þá helst frá útlöndum. Sjálfur bjóst ég til dæmis við fleiri umsækjendum utan spítalans, í ljósi umræðunnar sem hefur verið í gangi. Hvað mig sjálfan varðar þá vona ég að minn bakgrunnur sé það fjölbreyttur að ég hafi eitthvað nýtt fram að færa.“

Verðmætust og viðkvæmust

Oft er sagt að mannauðurinn sé verðmætasta eign fyrirtækja og stofnana og Runólfur segir brýnt að hlúa betur að starfsfólki spítalans. „Mannauðurinn er okkar verðmætasta og um leið viðkvæmasta auðlind og auðvitað óttumst við brottfall í okkar takmarkaða mannafla, fólk er orðið langþreytt eftir tveggja ára baráttu við faraldurinn. Vegna þess hversu erfiður reksturinn hér hefur verið höfum við ekki verið í aðstöðu til að gera nógu vel við starfsfólkið. Vinnuumhverfið er ekki nógu gott og við höfum ekki getað bætt það vegna þess að við erum alltaf að bjarga hlutum fyrir horn. Það er mjög mikilvægt að lagfæra. Umræðan um kulnun hefur verið áberandi og var reyndar hafin áður en farsóttin skall á. Það er brýnt að leita leiða til að auka vellíðan og ánægju starfsfólksins. Við þurfum að mennta og þjálfa fleira fólk og gera starfið hérna meira aðlaðandi. Við verðum að tryggja næga nýliðun til að manna störfin í heilbrigðisþjónustunni í framtíðinni. Síðustu ár hefur mikil áhersla verið lögð á að efla sérnám í læknisfræði hér á landi því námslæknarnir eru mikilvægir starfskraftar sem við höfum misst til annarra landa í gegnum tíðina. Okkar vel menntuðu hjúkrunarfræðingar eru sannarlega burðarás en það þarf líka að fjölga öðru starfsfólki sem vinnur við umönnun, einkum sjúkraliðum. Við getum þó ekki gert ráð fyrir því að allir sem ljúka námi í heilbrigðisvísindagreinum hér verði sjálfkrafa starfsmenn Landspítalans. Margvísleg önnur störf eru í boði, hér heima og erlendis, sem við þurfum að geta keppt við,“ segir Runólfur og bætir við að ekki megi gleyma því að lífsviðhorf hinna nýju kynslóða sé um margt frábrugðið því sem þekktist áður.

Runólfur nefnir einnig uppbyggingu innviða en gríðarleg framþróun hefur orðið á sviði upplýsingatækni sem hann segir spítalann þurfa að færa sér betur í nyt. „Nýting upplýsingatækni hefur skipt sköpum í viðureigninni við kórónuveirufaraldurinn og hefur heilbrigðis- og upplýsingatæknideildin okkar unnið mjög gott starf. Við eigum líka að horfa til nýsköpunarverkefna sprotafyrirtækja. Það eru mikil tækifæri fólgin í stafrænni heilbrigðisþjónustu, ekki síst fjarþjónustu, en við höfum því miður setið svolítið eftir á þeim vettvangi. Við þurfum að nýta betur lausnir á sviði upplýsingatækni og til þess að koma því í kring þurfum við fjárfestingu. Ég sé ekki hvernig við eigum að gera það með öðrum hætti. Það er í raun með ólíkindum að við séum ekki komin lengra í þessu háþróaða samfélagi í ljósi smæðarinnar sem hlýtur að einfalda þetta verkefni. Notkun rafrænnar sjúkraskrár þarf að vera að fullu samræmd og beinar samskiptaleiðir fyrir hendi milli lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna. Þetta vil ég ráðast í og það gæti orðið heilladrjúgt vegna þess að sóun er vel þekkt fyrirbæri í nútímaheilbrigðisþjónustu. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur til dæmis haldið því fram að 20% af fjárveitingum sé á endanum sóað. Af margvíslegum ástæðum. Að stórum hluta vegna þess að starfsemin er ekki nægilega samhæfð og of oft gripið til dýrari lausna en þörf er á.“

Málefnaleg gagnrýni af hinu góða

– Nú koma orð fjármálaráðherra upp í hugann en hann hefur sagt að lausnin á vanda Landspítalans sé ekki endilega fólgin í auknum fjárveitingum, heldur betri nýtingu þeirra.

„Og hann hefur mikið til síns máls. Ég veit að ekki eru allir hérna á spítalanum sammála honum en við þurfum samt á þessari umræðu að halda; málefnaleg gagnrýni og aðhald eru af hinu góða. Að því sögðu þá er líka mikilvægt að við kynnum okkar hlið á nægilega skýran og skiljanlegan máta. Fjármálaráðherra hefur líka sagt að umræðan milli stjórnvalda og forsvarsmanna stofnana í heilbrigðisþjónustunni sé oft og tíðum ekki nógu djúp. Úr því þurfum við að bæta og ég mun beita mér fyrir auknu samtali.“

– Nú er kominn nýr heilbrigðisráðherra úr öðrum flokki. Breytir það einhverju fyrir spítalann?

„Nei, það held ég ekki. Mér líst ljómandi vel á nýja ráðherrann. Hann ber þess merki að vera vinnusamur og setur sig vel inn í mál sem hann kemur að. Vel var látið af honum sem formanni fjárlaganefndar og hann hefur sinnt þingstörfunum vel. Aðalatriðið er að ráðherra búi að víðsýni og sé þess umkominn að hugsa út fyrir rammann enda þarf að leysa þessi viðfangsefni í þágu þjóðarinnar. Mér finnst skipta mestu máli að hlutirnir séu framkvæmdir frekar en með hvaða hætti þeir eru útfærðir.“

– Rætt hefur verið um rekstrarvanda Landspítalans eins lengi og elstu menn muna, liggur manni við að segja. Þurfum við ekki að komast upp úr því hjólfari?

„Heilbrigðisþjónusta er í eðli sínu mjög rekstrarfrek og vörslumenn ríkissjóðs bera ábyrgð á því að hagkvæmni sé gætt og peningum vel varið. Að þessu vinna forsvarsmenn heilbrigðisstofnana stöðugt. En við verðum líka að meta og forgangsraða því sem við viljum fá gert. Stundum er sagt að það sé dýrt að vera fátækur og við verðum því oft að leita lausna sem reynast ekki varanlegar, til dæmis varðandi legurými og ýmsa aðstöðu. Margar byggingar Landspítala eru úreltar með tilheyrandi viðhaldskostnaði og þar fram eftir götunum. Við erum á eftir flestum þjóðum hvað þetta varðar og taka verður tillit til þess. Reyndar varð ákveðin breyting í tengslum við farsóttina; þá kviknuðu alls konar hugmyndir og voru settar í framkvæmd og fjármagnaðar. Ákveðið var að við myndum gera allt það sem við gætum í glímunni við sóttina.“

– Mun það þá ekki nýtast okkur áfram?

„Jú, við munum nýta þau úrræði og halda áfram þeirri þróun. Við höfum náð mjög góðum árangri í baráttunni við Covid-19. Samfélagsaðgerðir hafa þar skipt miklu máli, þótt þær hafi verið dýrkeyptar fyrir marga. Við verðum að vera meðvituð um það og sú umræða á að sjálfsögðu fullan rétt á sér.“

Samtalið er mikilvægt

– Læknar eru upp til hópa ekki skoðanalausir menn og hika margir hverjir ekki við að tjá sig um málefni spítalans ef svo ber undir. Muntu leita eftir samtali við þína menn?

„Ég vil gjarnan gera það. Samtalið er mikilvægt og þá er ég ekki bara að tala um lækna, heldur aðrar starfsstéttir spítalans líka. Það er nauðsynlegt að skoðanir séu settar fram og helst á uppbyggilegan og lausnamiðaðan máta. Sjálfum bauðst mér starf fyrir nokkrum árum á Massachusetts General Hospital í Boston, þar sem ég stundaði nám. Ég fór utan í viðtöl og áttaði mig fljótt á því hversu frábrugðin okkar starfsemi er. Allt er svo miklu stærra í sniðum úti. Fyrir vikið gengi aldrei að allir færu að viðra sínar skoðanir opinberlega, eins og smæðin býður upp á hér. Við getum ekki deilt endalaust innbyrðis. Við verðum að sættast á ákveðna leið á endanum og snúa bökum saman.“

– Ertu bjartsýnn fyrir hönd spítalans þegar þú horfir til framtíðar?

„Eins og ég segi þá finnst mér tækifærin vera næg ef við höldum rétt á málum. Manneklan er okkar akkilesarhæll en við erum rík þjóð sem byggir á mikilli hagsæld sem fyrri kynslóðir sköpuðu. Við þurfum að gera vel við það fólk sem orðið er aldrað í dag. Allt eru þetta verkefni sem við þurfum að sinna eftir bestu getu og ég er bjartsýnn á að það takist. Annars hefði ég ekki gefið kost á mér í þetta verkefni.“

– Þú ert ráðinn til fimm ára. Sérðu fyrir þér að vera lengur en það? Eða er alltof snemmt að spyrja um það?

„Ég vona bara að þessi fimm ár gangi þannig að ég verði hér enn að þeim loknum. Næstu tvö til þrjú ár eru krítísk fyrir okkur í þessum rekstri og ætli ég byrji ekki á að horfa á það.“

The Clash og Arsenal

Við ljúkum spjalli okkar á persónulegri nótum. Runólfur er 62 ára, kvæntur Ragnheiði Linnet, klassískri söngkonu, prófarkalesara og blaðamanni, og eiga þau tvö börn, dóttur og son, og tvö barnabörn sem veita afa sínum ómælda ánægju. Dóttirin, Hrafnhildur, er með doktorspróf í læknavísindum, vinnur nú á Covid-göngudeild Landspítalans og hefur árum saman verið með föður sínum í rannsóknarteymi. Sonurinn, Bjarni Páll, er í meistaranámi í heilbrigðisvísindum og leikur knattspyrnu með HK.

Ég veiti athygli bók um sögu bresku pönksveitarinnar The Clash á hillunni fyrir aftan Runólf og hann gengst við því að hafa verið aðdáandi frá því á menntaskólaárunum.

– Er þá nettur pönkari í þér?

„Já, ætli það ekki,“ svarar hann hlæjandi. „Ég hreifst mjög af Joe Strummer. Líkt og John Lennon. Mér finnst báðir þessir menn hafa haft einstaklega mikið fram að færa á stuttri ævi. Ég hafði líka gaman af Bítlunum, Stones, Led Zeppelin og fleiri sveitum. Annars hef ég mjög breiðan tónlistarsmekk og hef í seinni tíð hlustað talsvert á klassíska tónlist sem ég kynntist gegnum konuna mína.“

Runólfur er líka forfallinn bridsari og náði langt í þeirri ágætu grein á íslenskan mælikvarða áður en hann fór utan í sérnám. Nú spilar hann sér til ánægju með gömlum skólafélögum úr MH. „Brids er frábært spil og mikið keppniselement í því en ég sæki ekki síður í það út af félagsskapnum.“

Hann leggur líka mikið upp úr hreyfingu og hefur stundað víðavangshlaup um langt árabil. Er núna að koma sér í gang á ný eftir þrálát hnémeiðsli.

Síðast en ekki síst hefur Runólfur mikið yndi af því að fylgjast með fótbolta og öðrum keppnisíþróttum. Hann er stuðningsmaður hverfisfélagsins, Víkings, og var meðal annars læknir meistaraflokks karla þegar sonur hans lék þar. Hann segir það hafa verið sérlega ánægjulegt að sjá liðið vinna tvöfalt á síðasta ári. Í Englandi á Arsenal hug hans og hjarta. „Það var mikill fengur fyrir Arsenal að fá Arsène Wenger á sinni tíð en í mínum huga hófst byltingin aðeins fyrr, með komu Dennis Bergkamps. Það var innblástur að fylgjast með Arsenal á árunum 1998 til 2005 en ekki bara truflun, eins og stundum í seinni tíð. Það hefur ekki gengið nógu vel síðustu árin og fari gengi liðsins ekki að batna óttast ég að við missum unga og bráðefnilega stráka eins og Bukayo Saka til annarra liða.“

Við treystum á Guð og lukkuna í þeim efnum. Enda er okkur fullkunnugt um númerið á bakinu á Saka – sjö.