Stóra-Sandvík Dauðir fiskar lágu hvarvetna og margir grafnir í sand.
Stóra-Sandvík Dauðir fiskar lágu hvarvetna og margir grafnir í sand. — Ljósmynd/Svanhildur Egilsdóttir
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Töluvert rak af dauðum fiski eftir hafrótið sem fylgdi aftakaveðrinu að kvöldi 7. febrúar og aðfaranótt 8. febrúar.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Töluvert rak af dauðum fiski eftir hafrótið sem fylgdi aftakaveðrinu að kvöldi 7. febrúar og aðfaranótt 8. febrúar. Ölduhæð, það er kennialda, fór upp í 20 metra á Garðskagadufli sem merkir að stærstu öldurnar voru mun hærri en það. Á milli öldutoppa voru um 300 metrar.

Hafrannsóknastofnun var látin vita að mikið hefði rekið af fiskum í Stóru-Sandvík á vestanverðu Reykjanesi. Starfsmenn stofnunarinnar fóru á staðinn og mátu að þar hefði rekið minnst 29 þúsund fiska af tegundinni litla karfa (5-23 sentimetra), 140 ljóskjöftur (8-19 cm), tvær keilur, 115 sentimetra langan þorsk og eins ufsa, spærling og marsíli. Þá fundust fimm súlur, tvær langvíur, fýll og æðarfugl, allt nýdautt og líklega vegna óveðursins.

Við Garðskagavita fundust nokkrir tugir af litla karfa og mikið upprót af þara. Þá fréttist af litla karfa í fjöru í Sandgerði, við Sandhöfn norðan Hafnarbergs og við Ísólfsskála.

Jón Sólmundsson fiskifræðingur var í hópi þeirra sem fóru í Stóru-Sandvík. Hann sagði að síðan hefði frést af sjóreknum fiskum á fjörum í Vestmannaeyjum, við Stokkseyri og á sunnanverðu Snæfellsnesi við Búðir og Arnarstapa. Mest hafði rekið af litla karfa en líka eitthvað af löngu, keilu og smáufsa.

Jón sagði að litli karfi, sem er minnsta karfategundin, væri oft frekar grunnt á hörðum klettabotni. Ljóskjaftan er fyrst og fremst grunnslóðafiskur og kom á óvart að sjá svo mikið af henni því hún fór ekki að finnast hér að neinu ráði fyrr en árið 2008.

„Ég hef ekki áður séð eða heyrt um svona mikið af sjóreknum fiski og sama á við um fólk sem ég hef talað við. Atburður af þessari stærðargráðu er mjög sjaldgæfur,“ sagði Jón. Hann sagði að fiskar gætu lamist til á botninum í svo miklu hafróti sem varð þarna. Eins gæti verið að þeir réðu ekki við aðstæður og bærust hratt upp í sjó. Þá gæti sundmaginn þanist út, fiskurinn næði sér ekki aftur niður á botn og bærist á land. Í fjörunum sáust fiskar með innyflin úti, sem bendir til þanins sundmaga. Stofnunin vill gjarnan fá að vita ef víðar hafa fundist dauðir fiskar á fjörum. Senda má upplýsingar á hafogvatn@hafogvatn.is .