Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Veiðidýri veldur þján. Vígfimur hann sveigði Án. Líta þann í lofti má. Lætur tóninn hljóma sá. Þessi er lausn Hörpu á Hjarðarfelli: Af boga flaug örin í bráð. Bogann Án sveigði þá vel.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Veiðidýri veldur þján.

Vígfimur hann sveigði Án.

Líta þann í lofti má.

Lætur tóninn hljóma sá.

Þessi er lausn Hörpu á Hjarðarfelli:

Af boga flaug örin í bráð.

Bogann Án sveigði þá vel.

Regnboga næstum er náð.

Nýtan ég boga hér tel.

Eysteinn Pétursson svarar:

Verða dýr í boga bráð.

Boga fimur sveigði Án.

Regnboginn fagur litar láð.

Létt fiðluboga strýkur kván.

Sigmar Ingason leysir gátuna þannig:

Bogann kátur beygði Án

beindi að ungri hind á engi

– sú fékk ekki að lifa lengi –.

Regnboga skartaði skýjahiminn

í skugganum bogi grét á fiðlustrengi.

Helgi R. Einarsson svarar:

Bogi Ána í fjöru fann.

Fiðluboginn tónum ann.

Dýraboginn bana kann.

Börnin spá í regnbogann.

Guðrún B. á þessa lausn:

Boginn olli birni þján.

Bogsveigirinn frækni Án.

Hjá regnboganum gæfan gefst.

Glaðtónn fiðlubogans hefst.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna svona:

Bogi dýri bakar þján.

Bogasveigir var hann Án.

Ég regnboga í lofti leit.

Lít svo boga í strengjasveit.

Þá er limra:

Þótt bogann býsna hátt spenni

og bulli, það fús viðurkenni,

er hún ljómandi fín

þessi limra mín,

svo líklega stal ég henni.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Öskubylur úti hrín,

æfir kári lögin sín,

eflaust fer ég ekki á sjó,

eina gátu samdi þó:

Hrekkaus oft við henni gín.

Hugmynd, sem ég áðan fékk.

Búin táli, býsna fín.

Bítur fólk og veldur skrekk.

Gömul ástarvísa í lokin, viðlag:

Úti ert þú við eyjar blár,

eg er sestur að dröngum,

blóminn fagur kvenna klár,

kalla ég til þín löngum.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is