Hjörtur Eiríksson Kjerúlf fæddist á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal 11. febrúar 1945. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 15. janúar 2022.

Foreldrar Hjartar voru hjónin Eiríkur M. Kjerúlf, bóndi á Vallholti, f. 31.10. 1915, d. 11.5. 1991, og Droplaug J. Kjerúlf, húsfreyja á Vallholti, f. 29.7. 1917, d. 23.11. 2011.

Systkini Hjartar: Reynir E. Kjerúlf, f. 6.5. 1950. Sigurður E. Kjerúlf, f. 31.12. 1951. Elísabet E. Kjerúlf, f. 8.12. 1957. Rúnar Metúsalem Kjerúlf, f. 3.2. 1956, d. 30.7. 1958.

Sambýliskona Hjartar frá 1970 til ársins 1986 var Málfríður Stella Benediktsdóttir frá Urðarteigi. Foreldrar hennar voru Lilja Skúladóttir frá Urðarteigi og Benedikt Sigur björnsson frá Gilsárteigi.

Börn Hjartar og Málfríðar Stellu eru: 1) Lilja, f. 11.8. 1971. 2) Eiríkur Rúnar, f. 4.1. 1974, maki Anna Guðlaug Gísladóttir. 3) Sólrún Júlía, f. 30.5. 1979, maki Kjartan Benediktsson. 4) Benedikt Logi, f. 28.11. 1981, maki Særún Kristín Sævarsdóttir.

Barnabörn Hjartar eru níu og tvö barnabarnabörn.

Hjörtur starfaði í sláturhúsum árin 1963-1970, bæði á Reyðarfirði og á Egilsstöðum, aðallega í fláningum. Hann hafði sumarvinnu í Vegagerð 1962-1965. Meirapróf tók hann 1965 og vann sem leigubílstjóri sumrin 1965 og 1966. Hann stundaði byggingarvinnu á Eskifirði 1967 og á Reyðarfirði 1968 og fór til sjós á vetrarvertíð á Breiðdalsvík 1969.

Árið 1968 stofnuðu þeir bræður hljómsveit í dalnum sem fékk nafngiftina Fljótsmenn og spilaði Hjörtur á gítar og söng. Þeir spiluðu á alls kyns samkomum til ársins 1971 en hljómsveitin kom síðar saman á 40 ára afmæli sveitarinnar og hélt tónleika á Skriðuklaustri árið 2008.

Árið 1970 keypti Hjörtur Hrafnkelsstaði I og II þar sem hann starfaði sem sauðfjárbóndi allt til síðasta dags. Hann var kosinn í hreppsnefnd í Fljótsdalshreppi 1982 og einnig til oddvita og sat til ársins 1999, alls 17 ár. Hjörtur var formaður byggingarnefndar við byggingu íþróttahúss og sundlaugar við grunnskólann á Hallormsstað. Hann var formaður ungmennafélags og búnaðarfélags í Fljótsdal um nokkurra ára skeið.

Hjörtur var mikill veiðimaður, stundaði refa-, rjúpna- og hreindýraveiðar. Hann var leiðsögumaður með hreindýraveiðum um 30 ára skeið.

Útför Hjartar fór fram í Egilsstaðakirkju 5. febrúar 2022 og var hann jarðsettur í Valþjófsstaðarkirkjugarði í Fljótsdal.

Kæri pabbi, þín er sárt saknað, þú varst friðsæll að sjá með bros á vör þegar ég kvaddi þig. Margar minningar koma upp þessa dagana um þig og varla líður sú stund að þú skjótir ekki upp kollinum í amstri dagsins. Þær eru ótal veiðiferðirnar sem við fórum saman í, en mér er sérstaklega minnisstæð ferðin sem við fórum upp á Fljótsdalsheiði að skoða tófugreni við Grjótöldu. Ferðalagið gekk hægt en vel og það var liðið þó nokkuð á daginn þegar við komum á áfangastað. Við skoðuðum grenið, þú sýndir mér ummerki um að hérna væri tófa og hvíslaðir að mér að tala ekki hátt. Við læddumst í byrgið og tókum okkur stöðu í því, svo gaggaðir þú eins og tófa og ekki leið á löngu þangað til litlir tófuhvolpar kíktu út um holurnar.

Hjartað fór að slá hraðar og adrenalínið streymdi um mig allan. Þá hófst biðin og við biðum og biðum og já biðum, þetta var erfitt fyrir ungan mann sem átti nú nógu erfitt með að sitja kjurr í stól. Þú lést mig hafa verkefni; horfa vel í vissar áttir, hlusta og vera vakandi eftir hreyfingum. Eitthvað var mér farið að leiðast þetta, lítið að gerast og það eina sem heyrðist var vindurinn og lóan sem flögraði í kringum okkur. Svo ég fór að telja steinana sem stóðu upp úr á klettinum fyrir ofan okkur. Þar var farið að skyggja, ég veit ekki hvað ég var búinn að telja þessa blessuðu steina oft en ég hefði alveg getað skírt þá með nöfnum: Steinn Steinarr, Stulli Bergs, Steini Mokk og svo framleiðis. En í eitt skiptið var einum steini ofaukið. Mér fannst þetta frekar einkennilegt og hvíslaði að þér: „Pabbi, það er einum steini ofaukið á klettinum.“ Þú horfðir upp í klettabrúnina og sagðir: „Ætli tófan sé mætt?“ Jú, ekki leið á löngu þangað til við urðum varir við hana gægjast á milli steina og sáum glitta í eyrun sem komu upp um hana. Við máttum okkur ekki hreyfa því hún hafði gott útsýni yfir greni sitt en svo læðupokaðist hún niður og í fyrsta skoti lá hún blessuð. Þarna var mig farið að gruna að ekki værum við að fara heim heldur myndum við sofa undir berum himni langt frá byggðu bóli. Nóg höfðum við af nesti en bara einn gamlan svefnpoka með ónýtan rennilás. Mér fannst þetta eins og í kúrekamynd nema það eina sem vantaði var varðeldurinn og pottur með bökuðum baunum. Það var áliðið og þú sagðir mér að skríða í pokann því þú ætlaðir að taka fyrstu vakt. Ég var fljótur að sofna þótt ég reyndi að halda mér vakandi, vildi ekki missa af neinu. Morguninn eftir vaknaði ég og fann að mér var heitt í andlitinu, sólin var búin að baka á mér andlitið og þegar ég ætlaði að opna augun gerðist ekki neitt, þau vildu ekki opnast, það var eins og augnlokin væru límd saman. Ég varð skelkaður og kallaði á þig í geðshræringu. Þú komst og reifst upp augun og sagðir mér að það hefði verið svo mikið moldrok um nóttina sem hefði valdið þessu, mér 13 ára guttanum var mikið létt. Refurinn kom skokkandi beint í fangið á okkur snemma um morguninn grunlaus um að langbesta refaskytta Austurlands væri mætt á svæðið, hvolpana öngluðum við upp með æti og grenið fullunnið. Þú varst duglegur að taka mig með í veiðiferðir sem eru fyrir mér ógleymanlegar minningar, mikil lexía og ævintýri. Okkar bestu stundir voru í þessum ferðum sem faðir og sonur. Ég átti eftir að segja þér svo margt og hvað mér þótti vænt um þig en það samtal varð aldrei.

Hvíldu í friði, elsku pabbi.

Eiríkur H. Kjerúlf.

Kæri vinur og frændi! Ekki óraði mig fyrir því að símtal okkar fyrsta föstudagskvöld í janúar yrði það síðasta á okkar lífsleið. Seinustu árin höfum við reglulega talað saman og rætt ýmis brýn málefni, meðal annars búskaparhætti, veiðar og allt það helsta í þjóðfélagsumræðunni. Ekki var það verra að óbilandi frásagnargleði þín og einstaki húmor skein í gegnum samtöl okkar.

Vinátta okkar hefur varað allt frá því að ungur ég var í sveit á Vallholti og þið Stella keyptuð ættaróðalið Hrafnkelsstaði II af ömmu. Næstu árin þar á eftir var ekki óalgengt að ég húkkaði mér far frá Egilsstöðum til að komast í sveitina til ykkar í fríum eða um helgar, þar leið mér vel og fann að ég var alltaf velkominn.

Veiðar voru eitt af þínum aðaláhugamálum. Margar ferðirnar fórum við saman til rjúpna, hreindýraveiða, gæsaveiða eða á greni. Góðar og skemmtilegar minningar eru tengdar þessum ferðum okkar og ekki síst hvað þú hafðir mikla snilligáfu og útsjónarsemi við að nálgast bráðina, af því lærði ég mikið. Ekki er ég viss um að margir hafi skotið 70 rjúpur á einum degi og notað til þess einungis 50 skot.

Undanfarin 15 ár hefur það verið eitt af vorverkunum mínum að mæta í sauðburð til þín á Hrafnkelsstaði. Sá tími er mér ómetanlegur og er ég ævinlega þakklátur fyrir hann. Ýmsar uppákomur eru í minningunni, ein þeirra var þegar vaskir Ameríkanar komu á miðjum sauðburði til að rannsaka tilurð ormsins fræga, þá gekk nú ýmislegt á og ekki er ég frá því að minn maður hafi verið svolítið stressaður.

Þegar ég hugsa til vorsins þá verður skrítið að mæta í sauðburð í vor og þú fjarri góðu gamni, en ég veit að þú munt passa upp á okkur, passa að við gerum hlutina eftir settum reglum.

Elsku Lilja, Eiríkur, Júlía, Benni og fjölskyldur, votta ykkur mína dýpstu samúð um góðan dreng sem gaf mér svo margt á lífsleiðinni.

Hreinn Ólafsson Kjerúlf.

Nú ertu farinn, fóstri minn og vinur, það er sárt að þurfa að kveðja.

Fyrstu kynnum mínum af þér og þínum bæ mun ég aldrei gleyma. Það var á 8 ára afmælisdaginn minn sem við mamma komum til að hitta þig til að ráða okkur í vinnu um sumarið í heyskap og síðar mömmu sem ráðskonu hjá þér. Þegar við komum á bæinn heilsuðumst við öll kampakát og þú sýndir okkur húsakynni þín. Síðan ferð þú með okkur í fjárhúsin og á leiðinni upp að húsum er þér bent á að ég eigi 8 ára afmæli í dag. Þú stoppar og tekur höfðinglega í hönd mína og óskar mér innilega til hamingju með daginn. Frá þessum degi varð ekki aftur snúið og hef ég verið með annan fótinn á Hrafnkelsstöðum síðan.

Ég fékk oft frí í skólanum til að geta verið í sauðburði hjá þér. Fyrsta rollan mín var einstök og þú hafðir oft orð á því hvað hún væri einstök skepna, hún hvarf oftar en ekki á sauðburðartímanum og þá vissum við að hún var að fara að bera en kom svo til baka með sín lömb.

Það er varla hægt að horfa yfir farinn veg án þess að líta á allar hrakfallasögurnar frá þér. Þeim sögum fannst þér skemmtilegast að segja frá sjálfur og varstu oft glaður í bragði ef sagan var komin um víðan völl. Gott dæmi um það að þú vildir vera á milli tannanna á fólki er eitt þorrablót þar sem ég man eftir að þú varst tekinn fyrir, enda varla blót nema þú fengir gott hlutverk þar. En þegar leið á kvöldið og þulur kvöldsins sagði svona út í salinn: „Jæja, þá er þetta nú orðið gott um hann Hjört okkar“ greipst þú orðið og sagðir hátt og snjallt: „Er þorrablótið þá búið?“ Blótið var rétt að byrja og þetta vakti mikla kátínu. En þetta sýndi bara hvað þú hafðir gaman af því þegar aðrir tóku undir þínar hrakfallasögur.

Veiðidella mín er alfarið komin frá þér. Þær ferðir sem ég hef fengið að fara mér þér í tengslum við grenjavinnsluna á vorin eru ómetanlegar minningar. Þolinmæði var nú oft ekki til hjá þér en þegar það kom að þessum veiðum var þér fært að sitja og horfa á sömu holuna í marga klukkutíma. Ég lærði þetta fljótt af þér að njóta þess að vera í náttúrunni og hlusta á „þögnina“, þetta var bara einskonar hugleiðsla.

Þegar ég nefndi það hvort ég ætti ekki bara að byggja bústað í Hrafnkelsstaðalandi þá þurftir þú greinilega ekki að hugsa þig mikið um því þú varst ekki lengi að svara og sagðir: „Jú, og ég er með stað fyrir þig.“ Úr varð að við fórum að skoða staðinn og ég var heillaður. Hef upp frá því verið að koma mér upp aðstöðu þar í því landi sem kallast Brattagerði. Þessi staður minn í landi þínu varð til þess að samverustundir okkar urðu fleiri og meiri tengsl einnig við fjölskyldu mína sem kemur alltaf með mér á sumrin til að dvelja þar og koma til þín í kaffi eða mat, ómetanlegt fyrir okkur.

Það er bara svo margt sem mig langar að segja og spyrja. En það sem stendur upp úr öllu er þakklætið fyrir allar stundir sem þú hefur gefið af þér og allt sem ég hef lært í gegnum árin. Minning þín gleymist aldrei og í hvert sinn sem ég fer um sveitina veit ég að þú ert þar, þú átt heima þar og í hjörtum okkar.

Takk, Hjörtur, takk.

Meira á www.mbl.is/andlat

Kveðja

Ásgeir Eiríksson.

Þeir eru margir sem ég hef kynnist á ferð minni gegnum lífið. Sumir fljóta fram hjá og maður tekur vart eftir, aðrir vekja hjá manni forvitni, gleði eða lífskraft. Einn af þeim var hann Hjörtur „mín“. Hann var alltaf brattur og hrókur alls fagnaðar, hafði endalausan húmor fyrir sjálfum sér og gjörðum sínum. Þorði að vera öðruvísi og var stoltur af. Sagði hlutina beint út og jafnan frá spaugilegu sjónarhorni. Frásagnargleðin var aðdáunarverð og varla var hægt að hugsa sér meiri hæfileika á því sviði. Hann hafði áhuga á öllu því sem við kom sveitinni sinni, búskap, sveitarfélaginu og pólitíkinni allt um kring. Hann var sannur framsóknarmaður sagðist reyndar hafa keypt flokkinn í heild sinni á síðasta ári. Hann var einn af sveitarhöfðingjunum hér á Héraði, sem fækkar nú einum af öðum. Oddviti var hann til margra ára og lagði krafta sína fyrir samfélagið í Fljótsdal, sem og héraðsins alls. Hjörtur fór ótroðnar slóðir í búskapnum og var alltaf í samspili við náttúruna, skóginn og árstíðirnar. Hann stundaði rjúpna- og hreindýraveiðar sér til ánægju og tekna. Hann var í essinu sínu er hann renndi til fjalla á fjórhjóli að líta eftir kindum. Bestur var hann einn í þeim smalaferðum, því enginn var jafn góður smali og hann, að hans sögn og þó víðar væri leitað og reynt væri að leika eftir.

Upphaf kynna okkar Hjartar voru þau að hann réði mig á sauðburð vorið 1988 á þorrablóti þeirra Jökuldælinga og var ég hjá honum tvö vor. Sá tími var eftirminnilegur þegar ég vakti næturlangt yfir fé Hjartar. Aldrei hækkaði hann róminn og varð aldrei stressaður eða lýsti vandlætingu yfir einu né neinu sem ég gerði. Heldur var hann ætið léttur í lund og leysti úr verkefnum sem upp komu af lipurð. Alltaf þegar ég heimsótti Hjört eða hringdi til hans, gaf hann af sér mikla gleði og spaug inn í líf mitt. Fyrir mig verður Fljótsdalurinn fagri ávallt tengdur minningunni um vin minn Hjört.

Elsku Lilja, Eiríkur, Júlía, Benedikt og fjölskyldur innilegar samúðarkveðjur til ykkar.

Þórhalla, Birnufelli.

Hjörtur, vinur ninn á Hrafnkelsstöðum, var sífellt að koma mönnum á óvart. Nú síðast alveg óforvarendis með því að snarast snöggt og allt of snemma yfir móðuna miklu.

Hjörtur var gæddur sérstökum persónuleika náttúrubarnsins, mótaður af nálægð hans við umhverfið allt frá blautu barnsbeini og síðar sem bóndi á víðfeðmu ættaróðali sínu, gjarna við smala- og veiðimennsku um Fljótsdalsafrétti.

Þrátt fyrir dreifbýlismennsku Hjartar verður hann þó seint bendlaður við heimóttarskap, enda ófeiminn og gjarna fyrirmannlegur í framgöngu, enda félagsmálamaður og oddviti um langt skeið í hreppnum.

Eins og sambúðin við frelsi og duttlunga náttúrunnar sem ólu hann upp gat Hjörtur stundum verið ólíkindatól, sem gjarna gaf lífinu lit og yfirleitt stutt í húmorinn.

Má sem dæmi nefna þegar hann kom auga á og náði vídeómynd af fyrirbrigði á sundi í Lagarfljóti skammt frá bæ sínum fyrir svo sem áratug. Að sögn lá hann að sjálfsögðu ekkert á þeirri trú sinni að hér væri sjálfur Lagarfljótsormurinn lifandi kominn.

Þetta þótti stórfrétt og olli miklu fjölmiðlafári, ekki síst eftir að myndbandið komst á veraldarvefinn og varð Hjörtur þar með heimsfrægur á augabragði. Ormurinn hvarf hins vegar fljótlega eftir þetta eins og hans hefur verið siður síðan hann sást fyrst á 14. öld.

Á meðan við Hjörtur vorum sveitungar áttum við þó nokkur samskipti, svo sem í þorrablótsnefndum og við endurskoðun hreppreikninga ásamt séra Bjarna á Valþjófsstað, svo eitthvað sé nefnt. Einna minnisstæðast er þó atvik tengt undirbúningi 100 ára afmælishátíðar Gunnars skálds Gunnarssonar á Skriðuklaustri sem haldið var þar í ágúst 1989.

Í þessu sambandi þurfti að útvega undirstöðu undir höggmynd Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara af höfði skáldsins. Þótti við hæfi að leita að passlegum stuðlabergsdrangi í hlutverkið, ekki síst þegar fréttist að einn slíkan mætti trúlega finna í hlíðinni fram og upp af bænum á Hrafnkelsstöðum.

Í fyrstu atrennu fannst óskasteinninn þar ekki umsvifalaust, auk þess sem Hjörtur sagðist þurfa að verðleggja steininn. Var þá leitað vítt um Hérað en án árangurs og því snúið aftur til Hjartar.

Hittum við nú vel á Hrafnkelsstaðabóndann. Tók hann strax forystuna upp að námunni og leið ekki á löngu þar til snotur og passlegur stuðlabergsdrangur var kominn upp á kerru. Allt gjaldtökutal var nú fyrir bí, en auðséð að enginn var þessum lyktum fegnari en Hjörtur. Það má telja sönnun þess að hann hefði ekki getað hugsað sér utansveitarstein undir höfði skáldsins fræga og allra síst vegna orðróms um gjaldtöku hans fyrir djásnið, enda má telja víst að þeim orðum hafi eingöngu ráðið meðfædd stríðnisárátta hans. – Svo mikið er víst að hann kunni ætíð vel að meta listaverk náttúrunnar úr eigin ranni undir listaverki Sigurjóns af höfði skáldsins ofanvert við Gunnarshús.

Rýmis vegna verða þessi fátæklegu orð að duga.

Við Guðborg kveðjum Hjört með þakklæti og söknuði og sendum börnum hans og barnabörnum, ásamt öðrum ástvinum og ættingjum innilegar samúðarkveðjur.

Þórarinn Lárusson.