Eyjólfur Kársson Níu manns sóttu að honum; hann varðist fyrst með öxi en síðan með ferjuár, og „hjuggu þeir fjórar árar fyrir honum“.
Eyjólfur Kársson Níu manns sóttu að honum; hann varðist fyrst með öxi en síðan með ferjuár, og „hjuggu þeir fjórar árar fyrir honum“.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eyjólfur Kársson frá Breiðabólstað í Vatnsdal er ein ævintýralegasta persóna Sturlungaaldar. Hann „sló á marglæti“ við ekkju frá Reykjum í Miðfirði. Bræðrum hennar líkaði það illa, og hófst af þessu „ófagnaður og orðasukk“.

Eyjólfur Kársson frá Breiðabólstað í Vatnsdal er ein ævintýralegasta persóna Sturlungaaldar. Hann „sló á marglæti“ við ekkju frá Reykjum í Miðfirði. Bræðrum hennar líkaði það illa, og hófst af þessu „ófagnaður og orðasukk“. Eyjólfur varð nú frá að hverfa og fór vestur í Arnarfjörð og fékk þar Herdísar, dóttur hins nafnkunna höfðingja, Hrafns Sveinbjarnarsonar á Eyri sem þar hafði verið hálshöggvinn árið 1213.

Eyjólfur bjó um tíma á Rauðasandi og hélt þar sekan mann og slapp þá naumlega út um „glerglugga“ í kirkju en sakamaðurinn var drepinn. Nú keypti Eyjólfur Flatey á Breiðafirði, og um tíma var þar hjá honum sá frægi Aron Hjörleifsson en sameiginlegur vinur þeirra var Guðmundur góði.

Tryggð Eyjólfs við Guðmund góða má rekja til þess að Hrafn Sveinbjarnarson hafði verið góðvinur hans og fylgt honum í vígsluferðina til Noregs árið 1203. En árið 1218 var svo komið að höfðingi Skagfirðinga, Arnór Tumason, hafði tekið biskupinn með valdi og sett í myrkvastofu og síðan látið flytja hann suður yfir heiði að bökkum Hvítár og skyldi hann sendur úr landi. Þá birtist þar Eyjólfur Kársson um nótt í foraðsveðri og tókst á ævintýralegan hátt að frelsa biskupinn úr prísundinni þar sem sex varðmenn gættu hans. Hann tók biskup í fang sér og gekk með hann frá búðinni og hafði hann hjá sér í Flatey um veturinn.

Nú tekur þessi eigandi Flateyjar sig upp og fer með Guðmundi góða allt norður í Aðaldal þar sem þeir berjast í kirkjugarðinum á Helgastöðum við sjálfan Sighvat Sturluson og syni hans Tuma og Sturlu auk Arnórs Tumasonar. Þar var líka bróðir ekkjunnar í Miðfirði sem Eyjólfur hafði haldið við og gekk sá hart fram gegn Eyjólfi. Þess verður að geta að frilla Sturlu Sighvatssonar var systir téðrar ekkju. Þannig börðust í kirkjugarðinum á Helgastöðum tveir miklir kappar, hverra frillur voru systur í Miðfirði.

Þótt undarlegt megi virðast voru Eyjólfi gefin grið.

En þessi kappi gerði það ekki endasleppt við Guðmund góða. Árið eftir Helgastaðafund fylgdi hann vini sínum í Málmey þegar biskup hrökklaðist frá Hólum undan Tuma Sighvatssyni. Þaðan fór Eyjólfur ásamt mönnum biskups til Hóla um hávetur og tóku þeir Tuma þar af lífi. Og nú flýði Eyjólfur með biskupi til Grímseyjar. Þangað fóru þeir Sighvatur með þrjú hundruð manna – enga frægðarför, misstu þar 32 menn en létu að vísu gelda tvo presta.

Það var í Grímsey sem Eyjólfur Kársson drýgði sína síðustu dáð. Hann bar vin sinn Aron særðan á skip og hratt frá landi en sjálfur kaus hann verða eftir og „meiða skip“ þeirra Sighvats „svo að eigi væri eftir þeim róið“. Níu manns sóttu að honum; hann varðist fyrst með öxi en síðan með ferjuár og „hjuggu þeir fjórar árar fyrir honum“. Helsærður synti hann í sker eitt. Þegar að honum var komið lá hann á grúfu „og hafði lagt hendur í kross frá sér. Ekki blæddi þá er þeir lögðu til hans.“

Baldur Hafstað hafstad.baldur@gmail.com

Höf.: Baldur Hafstað hafstad.baldur@gmail.com