Sigurbjörg Sara Bergsdóttir
Sigurbjörg Sara Bergsdóttir
Eftir Sigurbjörgu Söru Bergsdóttur: "Yfir 90% af öllum gerendum voru áður þolendur. Ræður kerfið ekki við að finna úrlausnir fyrir bæði þolendur og gerendur?"

Síðustu misseri hef ég spurt mig hvert við séum að stefna sem samfélag. Ég trúi og veit að flest okkar vilja vera góð við aðra, sérstaklega þegar það á við um okkar nánasta fólk. Ég velti fyrir mér hvers vegna það sé svona auðvelt að vera vond(ur) við einhvern sem er ekki okkar nánasti heldur einhvers annars.

Hefur eitthvað breyst eða erum við orðin grimmari með tilkomu samfélagsmiðla? Erum við búin að gleyma að það er fólk á bak við alla sem hafa gert eitthvað rangt, sem þykir vænt um þá einstaklinga.

Það er lítið talað um börnin í þessu samhengi, en það eru allir sammála í fræðunum um að ef foreldrar inni á heimili eru ósáttir sé betra að fara í bíltúr eða inn í herbergi til að vernda börnin fyrir rifrildi, þannig að þau verði ekki hrædd.

Það er ekki gott fyrir börn að hlusta á hávaðarifrildi, þannig verða þau kvíðin og meðvirk. Það er gott fyrir börn að foreldrar geti talað saman og skipst á skoðunum, en allt ofbeldi er óásættanlegt og er skýrt um það kveðið í barnaverndarlögum og við jafnframt hvött til að tilkynna slíkt.

Getum við ekki verndað börnin okkar á netinu eins og við reynum að gera heima hjá okkur? Hvernig ætli það sé fyrir börn að verða vitni að nákvæmum skrifum um hvað foreldri sé hræðilegt, eða einhver nákominn því, það að viðkomandi missi vinnu, sé tekinn úr umferð í samfélaginu án þess að það fari rétta leið í kerfinu.

Sá sem er brotið á verður að geta komið sínu máli í réttan farveg án þess að það taki mörg ár og kerfið á að halda utan um og leysa þessi viðkvæmu og erfiðu mál. Ég hitti ungt fólk fyrir stuttu sem langar í pólitík eða að verða einhvers konar opinberar persónur, en þora það ekki af því þau eru svo hrædd við að verða tekin af lífi á netinu, þrátt fyrir að hafa ekkert sér til saka unnið.

Óöryggið sem fylgir því að mál fari ekki rétta leið í kerfinu er að búa til nýtt og stærra vandamál sem í mínum huga sér ekki fyrir endann á.

Það hefur aldrei verið eins auðvelt að gagnrýna og segja ljóta hluti þegar við sitjum á bak við lyklaborðið, en fæstir myndu láta vaða ef þeir þekktu viðkomandi eða annan þeim tengdum.

Ég veit það fyrir víst að fólk sem hefur orðið fyrir áföllum og miklum erfiðleikum í lífinu er líklegra til þess að meiða aðra því sársaukinn leitar alltaf eitthvað. Fólk í ójafnvægi þarf að koma spennunni úr líkamanum og gerir það oft við þá sem eiga það ekki skilið. Aðrir ná að vinna úr sáraukanum og bera hann ekki áfram í annað fólk. Það er stórt skref að stíga að axla ábyrgð á eigin sársauka og viðurkenna fyrir sjálfum sér bæði það góða sem maður á og líka það slæma. Að geta horfst í augu við söguna sína og gengist við henni er stærsta gjöfin sem við gefum okkur sjálfum og fólkinu í kringum okkur.

Hvað varð um það að vera þakklát fyrir að við erum ólík, getum öll haft eitthvað til málanna að leggja? Við megum og eigum að vera ólík, það er heilbrigt og við þurfum að geta unnið með það. Við sem samfélag erum á villigötum ef við ráðum ekki við það að við séum ekki alltaf sammála og það er illa fyrir okkur komið ef það er bara til einn sannleikur, fólk er ekki fullkomið og hefur aldrei verið í gegnum mannkynssöguna.

Við þurfum að vera málefnaleg þótt við séum ekki sammála og við verðum að getað hlustað og skoðað alla fleti. Það kallast réttlæti, við eigum öll rétt á því að fá að heyra og hafa allar hliðar uppi á borðinu.

Kerfið okkar á að vernda þetta og það er á ábyrgð stjórnvalda og fjölmiðla sem er fjórða valdið í landinu að passa þennan rétt. Er ekki hægt að gera þá kröfu að farvegur ofbeldismála sé þannig að þolandi sé öruggur og geti þannig farið með sitt mál í öruggan farveg? Yfir 90% af öllum gerendum voru áður þolendur. Ræður kerfið ekki við að finna úrlausnir fyrir bæði þolendur og gerendur? Er kerfið það veikt að það geti ekki haldið utan um hvoru tveggja?

Það er okkar samfélagslega ábyrgð að hlúa að þeim sem verða fyrir ofbeldi og finna úrlausnir fyrir þá sem beita ofbeldi. Ekki síst þurfum við að varðveita börnin okkar fyrir þessum harða heimi netsins.

Erum við komin aftur í stóra dóm og netið hinn nýi drekkingarhylur? Það er mín einlæga von að við sem samfélag stöldrum aðeins við áður en við setjumst í sæti sjálfskipaðs dómara og köstum einhverjum í hylinn.

Höfundur er BA/MS í stjórnun í heilbrigðisþjónustu, áfallasérfræðingur (TRM) og samskipta- og fyrirtækjaráðgjafi.