[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Undanfarið hef ég lagst í heimshornaflakk í tíma og rúmi með bækur sem fararskjóta. Frásagnir af ímynduðu eða raunverulegu lífshlaupi, réttum og röngum ákvörðunum, ást, hatri, kvíða, reiði og gleði undirstrika að mannskepnan er söm við sig.

Undanfarið hef ég lagst í heimshornaflakk í tíma og rúmi með bækur sem fararskjóta. Frásagnir af ímynduðu eða raunverulegu lífshlaupi, réttum og röngum ákvörðunum, ást, hatri, kvíða, reiði og gleði undirstrika að mannskepnan er söm við sig. Það sem skilur að er umhverfi og aðstæður.

Margir amerískir rithöfundar eru og hafa verið í uppáhaldi. Hvort sem það er kæfandi hiti, mannýg naut og veiðimaður sem hvílist í forsælunni í bók Hemingways The Sun Also Rises , eða angurvær og oft óvænt lýsing á tilfinningalífi og örlögum í bókum Johns Irvings The Ciderhouse Rules eða The World According to Garp . Eða beitt samfélagsrýni Jonathans Franzens í The Corrections , sem ég held mest upp á af bókum hans þótt Freedom sé einna frægust. Saul Bellow fer á dýpið í bókinni More Die of Heartbreak . Hann tók mig alveg með trompi karlinn og ég leitaði töluvert að sömu hughrifum, sem ég fann í Dóminíska lýðveldinu í bók Junots Días, The Brief Wondrous Life of Oscar Wao .

Þá komst ég á slóðir sem ég hef ekki yfirgefið síðan og það eru sögur fólks frá öllum heimshornum sem segja örlagasögu sína, forfeðra eða samlanda sinna sem varpa ljósi á sögulega atburði eða menningu heima- eða upprunalandsins. Innsýn í sögu Mjanmars má finna í Miss Burma eftir Charmaine Craig. Þá skrifar Viet Thanh Nguyen í sínum kaldhæðna og vel heppnaða stíl um víetnamskan gagnnjósnara í bókinni The Sympathizer . Ekki má gleyma Americanah og fleiri bókum nígeríska rithöfundarins Chimamanda Ngozi Adichie. Hún er orðin svo fræg að hún kom meira að segja til Íslands fyrir ekki svo löngu. Mér tókst einhvern veginn að missa af því. Frá Nígeríu er líka Ayòbámi Adébáyò en hún skrifaði Stay With Me . Úganda er sögusviðið í Kintu eftir Jennifer Nansubuga Makumbi og Indónesía í Man Tiger eftir Eka Kurniawan. Ekki má síðan leita langt yfir skammt því nýjasta eftirlætið er af fjarlægum slóðum, þótt nálægar séu, en það er bókin Blomsterdalen eftir hina grænlensku Niviaq Korneliussen. Svo ég endi nú heima á Fróni fannst mér Meydómur eftir Hlín Agnarsdóttur ansi lunkin skrif og eiga alveg heima í þessari heimsreisu minni.