Bjarnar Ingimarsson fæddist 9. apríl 1935 í Reykjavík. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 24. janúar 2022.

Foreldrar hans voru Guðný Jóna Þorbjörnsdóttir bóndi, f. 12. september 1915, d. 26. nóvember 2019, og Ingimar Sölvason loftskeytamaður, f. 20. desember 1910, d. 30. október 1940. Stjúpfaðir Bjarnars var Jóhannes Ásbjörnsson rennismiður, f. 26. nóvember 1911, d. 30. ágúst 2005.

Systkini Bjarnars (börn Jóhannesar) eru: Guðrún, f. 1942; Jórunn, f. 1943; Bryndís, f. 1945; Steingrímur, f. 1951, d. 2016; Björn, f. 1953; Hansína Hrönn, f. 1958.

Bjarnar giftist 25. desember 1956 Nönnu Sigríði Ottósdóttur sjúkraliða, f. 16. október 1935, d. 20. apríl 2015. Foreldrar hennar voru Ottó Albert Árnason, f. 4. nóvember 1908, d. 6. september 1977, og Kristín Vigfúsína Gunna Þorgrímsdóttir, f. 2. ágúst 1908, d. 29. júní 1987.

Börn Nönnu og Bjarnars eru: 1) Jóhann Guðni, f. 5. október 1957. Eiginkona hans er Þórunn Huld Ægisdóttir, f. 22. apríl 1960. Börn þeirra eru Sædís Huld og Árný Guðrún. Börn Jóhanns og Elnu Christelar Johansen eru Nanna Kristín og Sveinn Rúnar. Barn Jóhanns og Eydísar Unnu Daníelsdóttur er Dana Þuríður. Jóhann á 13 barnabörn. 2) Guðný, f. 2. mars 1960. Eiginmaður hennar er Karl Óskar Magnússon, f. 29. nóvember 1968. Börn þeirra eru Þóra Margrét og Magnús Gunnar. 3) Ingibjörg, f. 23. júní 1967. Eiginmaður hennar er Sigurður Pétur Sigurðsson, f. 17. febrúar 1958. Barn þeirra er Lárus Ottó. Börn Ingibjargar og Jóns Gunnars Svanlaugssonar eru Kristín Bára, Freyja Dís og Bjarnar Þór. Sonur Sigurðar er Ferdinand Söebeck. Ingibjörg á fimm barnabörn. 4) Ottó Albert, f. 10. maí 1973. Eiginkona hans er Sandra Gísladóttir, f. 1. maí 1972. Börn hans og Guðlaugar Sigmundsdóttur, f. 8. nóvember 1975, eru Heikir Örn, Sölvi Mar og Nanna Sóley. Börn Söndru eru Sóley Ósk og Steinar Freyr. Barnabörnin eru þrjú.

Bjarnar varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1955. Hann starfaði lengstum hjá Íslenska álfélaginu hf. í Straumsvík (ÍSAL), eða í 33 ár, lengst af sem fjármálastjóri. Hann lét af störfum árið 2000, 65 ára gamall. Hann var í stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins á árunum 1987 til 2013.

Bjarnar var alla tíð virkur í ýmsum félagsmálum. Hann var félagi í Round Table-samtökunum á sínum yngri árum og í framhaldinu gerðist hann félagi í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar og gegndi hann trúnaðarstörfum á báðum stöðum.

Bjarnar hafði mikið yndi af spilamennsku og spilaði brids hjá Félagi eldri borgara í Hafnarfirði og líka í Reykjavík, allt til þess síðasta.

Útför Bjarnars var gerð í kyrrþey frá Hafnarfjarðarkirkju 2. febrúar 2022.

Faðir minn missti föður sinn ungur að árum, en Ingimar faðir hans fórst með togaranum Braga haustið 1940. Amma kynntist fljótlega eftir það afa mínum, Jóhannesi Ásbjörnssyni, sem gekk pabba í föðurstað. Það var gæfa pabba að móðir hans kynntist Jóhannesi.

Pabbi átti alltaf auðvelt með að setja sig inn í flókna hluti og skilja kjarnann frá hisminu. Hann hóf störf hjá Íslenska álfélaginu hf. (ÍSAL) fljótlega eftir að það hóf starfsemi. Hann starfaði hjá félaginu í 33 ár, lengst af sem fjármálastjóri, og bar hag félagsins ætíð fyrir brjósti. Pabbi var í stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins til fjölda ára og tók starf sitt hjá sjóðnum alvarlega og þótti góður stjórnarmaður.

Pabbi var virkur í félagsmálum og talaði mamma oft um béin þrjú; bridge, billjard og badminton, og varaði okkur systkinin við að byrja aldrei á iðkun þeirra því þau áhugamál gætu tekið óratíma. Pabbi hafði alla tíð mikið yndi af spilamennsku og hin síðari ár spilaði hann bridge af lífi og sál, oft fjórum sinnum í viku.

Eftir að pabbi hóf störf hjá ÍSAL fluttist fjölskyldan til Hafnarfjarðar, að Smyrlahrauni 44, en þar bjó pabbi til dauðadags og undi hag sínum þar vel. Það var margt á heimilinu hjá mömmu og pabba og líf og fjör í kringum þau. Heimilið stóð alltaf opið fyrir ættingja og vini og börnin og barnabörnin sóttu mikið í veru þar. Má segja að heimili þeirra hafi alla tíð verið „félagsmiðstöð“ fyrir fjölskylduna. Pabbi elskaði að hafa alla sína í kringum sig og var stoltur af fjölskyldu sinni og það var mannmargt í kringum hann, allt til þess síðasta.

Eftir starfslokin hjá ÍSAL keyptu pabbi og mamma sumarhús í landi Indriðastaða við Skorradalsvatn í Borgarfirði. Þau nutu verunnar í sveitinni, oftar en ekki með börnum og barnabörnum eða öðrum ættingjum. Þá ferðuðust mamma og pabbi alltaf mikið, bæði innanlands og erlendis, og eigum við fjölskyldan góðar minningar frá þeim tímum. Oft var farið austur á Stöð og vestur til Ólafsvíkur.

Pabbi var mjög fróðleiksfús og las alla tíð mikið. Hann fylgdist vel með öllum fréttum og var margfróður um menn og málefni. Hann hafði gaman af því að njóta lífsins og var ætíð mjög gestrisinn og örlátur á allt sitt. Hann var alltaf reiðubúinn að aðstoða börnin og barnabörnin, t.d. við heimaverkefni, ritgerðasmíð eða annað ef á þurfti að halda.

Um 70 ára aldur greindist pabbi með mergæxli og var þá sagt að hann gæti búist við að lifa í þrjú ár. Hann fékk þó mjög góða læknisþjónustu og lyf við sjúkdómnum, og lifði ágætis lífi í 17 ár eftir greiningu. Pabbi fylgdist vel með öllu er varðaði sjúkdóm sinn, en miklar framfarir urðu í meðhöndlun við honum á þessum tíma. Hann var virkur félagi í Perluvinum, en það er félagsskapur þeirra sem fengið hafa þennan sjúkdóm.

Pabbi var sáttur við hlutskipti sitt í lokin og var ánægður með það líf sem hann hafði átt og feginn því að hafa getið notið þess fram á síðasta dag. Ég kveð elsku föður minn með söknuði og trega en jafnframt þakklæti fyrir allt. Minningu um einstaklega góðan föður geymi ég í hjarta mínu.

Guðný Bjarnarsdóttir.

Elsku afi, mér finnst svo óraunverulegt að þú sért farinn. Ég talaði við þig daginn áður en þú kvaddir, og var eitthvað svo viss um að þú myndir hrista þetta af þér eins og allt annað. Ég vildi óska þess að ég fengi eitt símtal enn. Mér finnst ég eitthvað svo áttavillt núna, en þú varst einhvern veginn alltaf póllinn minn sem hjálpaði mér að rata í gegnum lífið, alveg sama hversu oft ég villtist. Ég veit ekki hvert ég á að leita núna með allar mínar lífsins ákvarðanir og pælingar, þú sýndir öllu sem ég gerði áhuga, og vissir alltaf allt og gafst mér góð ráð. Það skein í gegn hvað þér þótti óendanlega vænt um okkur fjölskylduna þína og hvað þú varst stoltur og ánægður með okkur. Ég er svo þakklát fyrir að akkúrat þú varst afi minn. Það er þér að þakka hvernig líf ég á í dag. Þú hvattir mig áfram og gafst mér trú á sjálfa mig.

Þú gafst mér svo margt, en mikilvægastar eru minningar um yndislegan afa. Sundferðirnar með okkur stelpurnar þegar við vorum litlar, sem alltaf enduðu á ísferð. Sumarbústaðaferðirnar upp í Skorradal, og ferðalögin um landið. Æskuminningarnar frá Smyrlahrauninu, en ég var með annan og oftast báða fæturna þar frá því ég man eftir mér. Heimili ykkar ömmu stóð alltaf opið, og var mikið um gesti, enda voruð þið höfðingjar heim að sækja.

Ég er svo þakklát fyrir stundirnar sem við áttum saman í sumar. Langa spjallið um allt milli himins og jarðar, og allar spurningarnar mínar um líf þitt sem þú svaraðir. Ég er svo þakklát fyrir að þú kynntist krökkunum mínum, en þau elskuðu þig og að vera hjá þér. Lífið verður skrýtið án þín, en ég ætla að halda áfram að gera þig stoltan af mér.

Kristín Bára Jónsdóttir.

Að koma til afa á Smyrlahraun var alltaf jafn notalegt og var það sérstaklega skemmtilegt þegar við fjölskyldan borðuðum kvöldmat þar. Það var skemmtilegt að spjalla við hann Badda afa og hafði hann sérstaklega gaman af að fræða mann um eitthvað sem maður vissi ekki mikið um. Einnig var hann duglegur að hjálpa við verkefni þegar maður þurfti á þekkingu hans að halda, en eins og amma heitin sagði þá ætti maður að nýta þessa þekkingu á meðan hægt væri. Afi hjálpaði mér meðal annars við lokaverkefnið mitt úr Kvennaskólanum. Ég er ánægð með að hafa náð að eyða tíma með honum seinustu jólin hans, og eitt síðasta spjallið okkar var um bækur sem hann hafði nýverið verið að lesa og hafði þótt einkar góðar. Ég er þakklát fyrir þann tíma sem hann fékk með okkur og minning um einstakan og góðan mann fylgja mér.

Ég læt fylgja ljóð eftir Grétar Fells sem mér finnst passa einstaklega vel við hann Badda afa:

Þú áttir söngva og sól í hjarta

er signdi og fágaði viljans stál.

Þeir þurftu ekki um kulda að kvarta,

er kynni höfðu af þinni sál.

Þóra Margrét Karlsdóttir.

Elskulegur afi minn, Bjarnar Ingimarsson, var jarðsunginn í fallegu blíðskaparveðri. Hans verður sárt saknað. Afi var maður sem tekið var eftir. Staðfastur, hófsamur, rökfastur og strangheiðarlegur maður með fæturna á jörðinni. Hann var eldklár og víðlesinn. Lengst af starfaði afi sem fjármálastjóri Íslenska álfélagsins hf., en að auki sat hann m.a. lengi í stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins og þótti afar góður stjórnarmaður. Hann naut virðingar í starfi og eins innan fjölskyldunnar. Sannur fjölskyldumaður, gestrisinn og gjöfull. Hann hafði mikinn áhuga á spilamennsku og spilaði bridge vel ásamt því að hafa mikinn áhuga á billjard og badminton og raunar flestum íþróttum.

Við föðurfjölskyldan hittumst lengi vel á jólum og þá spiluðu allir félagsvist og ég man það að maður varð aðeins stressaðri við borðið þegar afi lenti með manni í spilunum. Eiginlega var maður mjög feginn að vera með honum í liði, en verst ef maður tapaði í nóló því hann gat rakið hvern einasta slag aftur og manni varð þá ljóst að maður hefði betur spilað út laufi en spaða í það skiptið.

Það var gott að vera í kringum afa. Hann hafði góða nærveru og það var gaman að heimsækja ömmu og afa í Skorradalinn þar sem þau áttu sumarbústað. Í dag hafa orðin vorkunn, forkunn, miskunn og einkunn stöðugt verið að brjótast fram í hausnum á mér og er mér mjög minnisstætt þegar afi tók það að sér að hjálpa mér í íslenskum stíl í menntaskólanum hér forðum. Við krakkarnir í 3. bekk í MR vorum allmörg að berjast við stafsetningaræfingar og var gefin einkunn undir núllið. Algeng einkunn var –10 en einhverjir voru í –13 og þurftu því að vinna sig upp í núllið. Ég vil ekki þurfa að muna hver mín einkunn var en smám saman náði afi að berja þetta svo fast inn í hausinn á manni að reglurnar spretta fram. Afi er nú kominn í sumarlandið til ömmu Nönnu og ég þakka fyrir allar þær góðu minningar sem ég á um þau.

Nanna Kristín.

Mig langar til að minnast eins besta vinar míns með nokkrum fátæklegum orðum. Við Bjarnar erum börn systkina og urðum strax nánir í bernsku þar sem fjölskyldur okkar voru samrýndar. Er ég var í 3. bekk MR var frændi í 6. bekk. Hann starfaði hjá Sameinuðu verksmiðjunum á Bræðraborgarstíg sem gjaldkeri og svo hjá Bifreiðum og landbúnaðarvélum. Hann réð sig til Íslenska álfélagsins og varð starfsmaður nr 3. Þar gegndi hann starfi innkaupastjóra og síðar fjárhagsstjóra. Hann þótti harðduglegur og farsæll í starfi. Bjarnar var frábær í ensku og liðtækur bridsspilari. Það æxlaðist þannig að ég fór til starfa hjá sama fyrirtæki og unnum við saman í næstum aldarfjórðung og sátum báðir í framkvæmdastjórn þess uns ég hvarf til annarra starfa en hann lauk starfsævinni 65 ára gamall hjá Álfélaginu. Eftir starfslok kenndi hann viðvarandi heilsuleysis sem varð honum erfitt og lést hann næstum 87 ára. Bjarnar missti konu sína Nönnu fyrir nokkrum árum en hún var frá Ólafsvík. Þau hjónin voru samhent og einstaklega gestrisin og gott að heimsækja. Í einni ferð með frænda til Ólafsvíkur réð ég mig á báta þaðan sem stýrimaður og bjó þar á annað ár. Svo vel aflaðist vertíðina 1961 að ég ákvað að fara utan til frekara náms. Þá þurfti að fjármagna nám meira úr eigin vasa en nú og sá Bjarnar um fjármálin og gjaldeyrisyfirfærslur mínar, en gjaldeyrishöft voru á þessum tíma. Iðulega kom ég í heimsókn að Smyrlahrauni 44 í Hafnarfirði og sátum við oft lengi yfir kaffibolla og kökum og ræddum heimsmálin vítt og breitt. Var gaman að ræða við frænda minn því að hann var fróður og greindur vel. Mun ég sakna samverustunda okkar. Þá samhryggjumst ég og kona mín innilega fjölskyldu hans sem er orðin stór og hefur komið sér vel áfram en það gladdi gamla manninn mjög. Hann hélt alltaf eins konar fjölskylduhús fyrir afkomendurna og vini sína er þeir komu í heimsókn eða þurftu tímabundið aðstöðu. Minningin um góðan og heiðarlegan dreng lifir áfram.

Pálmi Stefánsson

efnaverkfræðingur.

Í dag kveðjum við Bjarnar Ingimarsson, fyrrverandi fjármálastjóra ISAL. Bjarnar var meðal fyrstu starfsmanna ISAL og hóf störf árið 1968 sem innkaupastjóri. Hann hlaut þjálfun hjá Alusuisse í Sviss áður en eiginleg starfsemi hófst í Straumsvík en strax frá upphafi var hann í forystu meðal starfsfólks. Bjarnar var í fyrstu stjórn Starfsmannafélags ISAL - STÍS sem var stofnað síðla árs 1968 og er það enn virkt. Þá var hann einn af forvígismönnum Pöntunarfélagsins Straums sem var stofnað árið 1971 en á þeim tíma voru slík félög algeng á Íslandi. Straumur hafði milligöngu um innkaup á ýmsum varningi fyrir starfsfólk og byggði einnig hús. Mikill kraftur var í félaginu fyrstu árin en þegar verslunum fjölgaði í Hafnarfirði var félagið lagt niður.

Bjarnar vann nánast alla sína starfsævi hjá ISAL. Hann gegndi ýmsum ábyrgðarstöðum af bæði fagmennsku og samviskusemi en hann var lengst af fjármálastjóri ISAL eða þar til hann lét af störfum árið 2000. Ég tók við starfi forstjóra árið 1997 og það var gott fyrir ungan forstjóra að hafa reyndan fjármálastjóra sér við hlið fyrstu árin. Er ég mjög þakklát fyrir hans stuðning og reynslu, sem nýttist mér ákaflega vel fyrir rúmum tveimur áratugum.

Í Straumsvík minnumst við hans með mikilli hlýju og þakklæti og sendi ég fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Með kveðju frá Straumsvík,

Rannveig Rist.

Minn kæri vinur, meistari Bjarnar Ingimarsson, fyrrverandi fjármálastjóri Íslenska álversins, hefur fengið hvíldina, pabbi minnar yndislegu Guðnýjar vinkonu. Ég kom fyrst á heimili Bjarnars og Nönnu þegar við Guðný kynntumst sem stelpur í sama hverfi í firðinum fríða. Ég man svo vel eftir þegar Baddi og Nanna komu heim úr einni utanlandsferðinni, hvað ég heillaðist yfir hversu smekkleg þau voru að velja föt á börnin og barnabörnin sín. Fallegir kjólar og allt svo vel valið. Hjónin höfðu glöggt auga fyrir fallegri list og hönnun. Heimili þeirra var þakið fallegri myndlist eftir fræga listamenn en einnig myndum eftir Guðnýju mömmu Bjarnars, sem hafði yndi af því að skapa á sínum efri árum. Þegar yngri dóttir þeirra greindist með hvítblæði og var heima ásamt meðferð á spítala er mér svo minnisstætt þegar Bjarnar var að bera hana upp og niður stigann og ég skildi ekki allt á þeim tíma en við svona aðstæður þarf mikið æðruleysi og skilning sem þau hjónin gerðu svo sannarlega vel.

Bjarnar var fróður og vel lesinn. Mikið sem börnin og barnabörnin voru heppin að hafa sinn dásamlega pabba og afa sér við hlið til hjálpar hvort sem var í tungumálum, ritgerðasmíð, íslensku, stærðfræði eða hvað sem var. Hann vildi ávallt hjálpa og var umhugað um að fólkinu sínu gengi vel í námi og starfi til framtíðar í lífinu. Bjarnar hafði yndi af því að spila bridge og ég veit að hann var þar mjög klár og vildi ávallt vera efstur í spilamennskunni. Bjarnar keyrði bílinn sinn nánast til síðasta dags. Hann var mikill bókamaður og ávallt með lesefni sér við hlið hvort sem var á íslensku eða öðrum tungumálum. Sænska, danska og norsku sjónvarpsstöðvarnar voru ávallt í gangi hjá honum flesta daga. Bjarnar var í Rótarýklúbbnum og sat í stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins enda mjög góður í samskiptum sem stjórnandi. Oft var spjallað um heima og geima og í einni umræðu okkar um lífið og tilveruna þá sagði hann: „Sibba mín, það þýðir ekki að hafa áhyggjur af því sem við ráðum ekki við.“ Ég hugsa oft um þessi ráð hans til mín og finnst notalegt að hafa þetta til umhugsunar.

Frá haustinu 2018 aðstoðaði ég Bjarnar með ýmis heimilisverk, ég var í hlutastarfi og æxluðust málin þannig að við gerðum samning okkar á milli. Hann vildi ráðskonu, eins og hann kallaði það. Ég bjó á Smyrló í tæpt ár þar sem ég var að bíða eftir húsnæði en var áfram honum til aðstoðar þangað til í desember 2021. Þakklæti er mér efst í huga fyrir góða hjálp sem ég fékk hjá honum sem er alls ekki svo sjálfsagt og met ég það svo mikils. Bjarnar vildi alltaf hafa alla hjá sér og bjó þannig um hnútana alla tíð að það væri í boði að hýsa sitt fólk til gistingar og samveru. Takk fyrir allt kæri vinur, nú ertu kominn í draumalandið til elsku Nönnu þinnar.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni

sitji guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

Frá

Sigurbjörgu ráðskonu.