Petrína Mjöll Jóhannesdóttir
Petrína Mjöll Jóhannesdóttir
Við finnum hve uppbyggjandi er að leita eftir hinu góða og hvernig það opnar augu okkar fyrir því fallega í tilverunni.
Fyrir skömmu stóð nánast öll þjóðin á öndinni yfir Evrópumótinu í handbolta þar sem íslenska karlalandsliðið keppti og sýndi einstaklega mikið hugrekki og seiglu í erfiðum aðstæðum. Og víst er, að þetta keppnisskap handboltamannanna hleypti mörgum kapp í kinn og auðveldaði okkur að takast á við gráan hversdagsleikann í janúar. Keppnir geta nefnilega haft þessi jákvæðu áhrif og eru ein ástæðan fyrir því að við drögumst að þeim og fylgjumst með þeim, nú eða keppum sjálf. Við viljum svo gjarnan upplifa árangur og sigurtilfinningu í okkar lífi. Á svo mörgum sviðum lífsins er hvatt til keppni. Ef fólk er ekki að keppa í íþróttum við aðra þá er það að keppa við sjálft sig í líkamsrækt og ýmsum þrekraunum. Það er einnig keppt í hæfileikum og í alls kyns þrautum og leikjum. Í menntastofnunum og atvinnulífinu er keppt eftir háum einkunnum, styrkjum, stöðum og árangri. Í Biblíunni erum við líka hvött til að keppa en eftir öðru en við erum vön. Þar erum við meðal annars hvött til þess að keppa eftir kærleikanum, friði og réttlæti og því sem eflir samfélagið. Í fyrra Þessalóníkubréfi 5. kafla og 15. versi erum við hvött til þess að keppa ávallt eftir hinu góða. Góðsemi virðist kannski óspennandi við fyrstu sýn og er ekki ofarlega á blaði þegar fólk setur sér markmið. En góðlyndi er þó það sem við heillumst af í öðrum og finnum sárt fyrir þegar það vantar. Því er gott að einsetja sér að keppa eftir því góða og ekki bara þegar það er þægilegt eða þegar liggur vel á okkur heldur alltaf. Við getum keppt eftir hinu góða með svo margvíslegum hætti. Við getum hrósað, uppörvað og þakkað fólkinu sem er í kringum okkur. Við getum talað vel um aðra og dregið fram í samtölum og á samfélagsmiðlum allt hið jákvæða sem við vitum um annað fólk. Við getum gert eitthvað gott fyrir aðra með því að heimsækja fólk, sinna viðvikum fyrir það og létta undir með því. Við getum með því að leggja okkur fram þjálfað okkur í hinu góða svo það verði okkur tamt og eðlilegt. Því það er svo auðvelt að ætla sér að gera eitthvað en framkvæma ekki. Seinna, hugsum við, en áður en við vitum af hefur tíminn hlaupið frá okkur. Vissulega getum við ekki gert allt sem hugur okkar stendur til en við getum gert mun meira en okkur grunar. Við getum eins og keppnisfólkið gert æfingaplan og útbúið okkar eigin góðgerðaráætlun. Við getum útbúið lista með góðum verkum sem við viljum framkvæma og gert eitt góðverk á dag, eða á viku eða eins og við höldum að sé nauðsynlegt. Við getum notað símana til að minna okkur á og merkt svo við á listanum þegar því er lokið. Þegar við keppum eftir hinu góða þá reynum við eftir fremsta megni að leita að því, í hvaða kringumstæðum sem við erum. Það reynir vissulega á. Við þurfum stundum að leggja mikið á okkur til þess að sjá hið góða í tilverunni. Þegar eitthvað er erfitt og sárt reynir sérstaklega á okkur að gera eins vel og við getum svo að hið góða fái að blómstra. Því það er oft auðveldara að bregðast við með illu. Þegar við upplifum neikvæðni og nöldur er freistandi að svara í sömu mynt eða með því að gera ekki neitt. Þegar við mætum mótlæti og erfiðleikum fallast okkur oft hendur og við fyllumst svartsýni og kaldhæðni. Þá reynir heldur betur á keppnisskapið. Stundum þurfum við að leggja okkur sérstaklega fram eins og íþróttafólkið sem agar sig hart og fórnar ýmsu til þess að ná árangri. Við þurfum að halda áfram þó að á móti blási og við fáum ekki ætíð hið góða metið sem skyldi. Þegar við kappkostum að gera ávallt hið góða og sýna öllum kærleika þá finnum við að það hefur áhrif á svo margt. Hið góða vex nefnilega og blómstrar og umbreytir fólki og andrúmslofti. Þegar við leitumst við að sjá hið góða í öðrum þá verður það meira áberandi og við sjáum fólk í nýju ljósi. Þegar við tölum fallega við aðra og ræðum meira um hið jákvæða í fari fólks þá verður andinn betri í kringum okkur. Góðsemi annarra hleypir kappi í okkur og við viljum einnig sýna kærleika. Fyrst og fremst breytir keppnin eftir því góða okkur sjálfum. Við förum ósjálfrátt að meta lífið betur. Við njótum hversdagslegu hlutanna af því að við skynjum að þeir eru ekki sjálfsagðir og metum annað fólk meira að verðleikum því að það er dýrmæt sköpun Guðs eins og við. Við finnum hve uppbyggjandi er að leita eftir hinu góða og hvernig það opnar augu okkar fyrir því fallega í tilverunni. Því þvert á það sem margir halda þá fer veröldin batnandi. Það er auðvelt að festast í fortíðarþrá og telja að allt hafi verið betra eins og það var. Því eldri sem við verðum, því hættara er okkur við að álíta nútímann ógnvekjandi með öllum sínum breytingum. En tilveran er alltaf að breytast og stefnir sífellt fram á við. Það er svo margt sem hefur breyst til hins betra og mun vonandi halda þannig áfram. Veröldin fer örugglega batnandi ef við leggjum okkur fram við að keppa eftir hinu góða. Og það sem meira er: í slíkri keppni getum við öll unnið sætan sigur.

Höfundur er prestur í Árbæjarkirkju í Reykjavík. petrina@arbaejarkirkja.is