Blómlegt Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur með myndarlega begóníu rex. Hún segir að litríkar blaðplöntur hafi notið vinsælda.
Blómlegt Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur með myndarlega begóníu rex. Hún segir að litríkar blaðplöntur hafi notið vinsælda. — Ljósmynd/Björgvin Örn Eggertsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Vaxandi áhugi hefur verið fyrir ræktun pottaplantna til heimilisprýði síðasta áratug eða svo.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Vaxandi áhugi hefur verið fyrir ræktun pottaplantna til heimilisprýði síðasta áratug eða svo. Frá því að kórónufaraldurinn skall á hefur þessi áhugi enn aukist, reyndar svo mikið „að það hálfa væri hellingur“, eins og Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur á Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi, orðar það. Hún segir þróunina ánægjulega og ekki síst hvað yngra fólk sé áhugasamt um ræktun pottaplantna.

„Í faraldrinum hefur fólk verið meira heima hjá sér en alla jafna og vildi hafa hlýlegt og fallegt í kringum sig,“ segir Guðríður. „Fólk keypti pottaplöntur í gríð og erg til að prýða hús og híbýli og hafa eitthvað til að dunda við. Það er líka fjöldi rannsókna sem sýnir að geðheilsan er betri ef fólk er með eitthvað grænt í kringum sig.“

Skjaldarskytta, piparskott, mánagull, veðhlaupari...

Hún segir að þessi ræktun sé ekki bundin við pottaplöntur því garðrækt ýmiss konar hafi aukist síðustu ár. Þannig hafi meira selst af sumarblómum og hraðar en áður þar sem hún þekki til í garðyrkjustöðvum. Þetta sé væntanlega af sama meiði og að margir hafi fengið sér gæludýr í faraldrinum og aðrir staðið í alls konar framkvæmdum. Fólk hafi einfaldlega haft meiri tíma heima hjá sér en fyrir faraldur.

Um vinsælar pottaplöntur segir Guðríður að listinn sé langur og breytist hratt. Áberandi hafi þó verið að margir byrji með ræktun á plöntum með falleg og oft litförótt blöð, stundum með rauðum skellum eða gulum röndum. „Margir byrja með einfaldar plöntur, sem eru tiltölulega auðveldar í ræktun og henta byrjendum. Þegar vel gengur færir fólk sig smátt og smátt upp á plöntuskaftið og fær sér plöntur sem eru flóknari í umhirðu og stærri umfangs,“ segir Guðríður.

Af blaðplöntum nefnir hún friðarlilju, köllubróður (dieffenbachia), drekatré, rifblöðku (monstera), skjaldarskyttu, piparskott, mánagull, veðhlaupara, indíánafjöður, risajukku og ýmsa pálma, en segir að listinn sé langur. Af blómstrandi plöntum megi meðal annars nefna sankti-pálur, ástareld, nóvemberkaktus, vaxblóm, brönugrös og stofulyngrós.

Spurð um heilræði fyrir þá sem standa í ræktun pottaplantna segir hún að þessar vikurnar sé gott að láta plöntunrar sem mest í friði. Enn sé vetur og töluvert myrkur og margar plöntur séu nánast í dvala þannig séð, ekki þurfi að vökva oft og þá einungis með volgu vatni. Mikilvægt sé að gæta að því að ræturnar standi ekki á kafi í vatni um lengri tíma, það geti orðið plöntum að aldurtila.

Ekki gefa áburð í mánuðum sem enda á r

„Ekki er ráðlegt að gefa áburð fyrr en fer að birta meira og plönturnar fara af stað í vöxt,“ segir Guðríður. „Það er ágætisviðmið að gefa ekki áburð í mánuðum sem enda á r, það er frá september og fram í febrúar. Í lok febrúar og þegar kemur fram í mars er ágætt að fara að huga að umpottun ef þörf er á slíku. Þá er einnig tímabært að draga fram áburðarbrúsann.“

Heitur tískustraumur

Fyrir rúmu ári, nánar tiltekið sunnudaginn 10. janúar í fyrra, birtist lífsstílsgrein eftir Mörtu Maríu undir fyrirsögninni: „2020 – þegar heimilið varð miðpunktur alls“. Þar segir meðal annars:

„Svo voru það pottaplönturnar sem urðu einn heitasti tískustraumur ársins. Plöntur hafa marga góða kosti. Þær auka til dæmis loftgæði heimilisins, fegra það og svo var auðveldara að halda í þeim lífi þegar enginn var í útlöndum.

Fólk sem leiddist mjög mikið í vinnunni gat umpottað á daginn, sem það hefði aldrei nennt að gera í venjulegu árferði. Vandamálið er bara að það er ekki nóg að vökva bara plönturnar. Þær þurfa að vera rétt staðsettar því plöntur eru lifandi – ekki dauðir hlutir. Á árinu blómstruðu lokaðir facebookhópar sem snerust um að halda lífi í pottaplöntum.“