Hulda Gestsdóttir fæddist í Stykkishólmi 26. september 1943. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sundabúð 5. febrúar 2022.

Foreldrar hennar voru hjónin Gestur Guðmundur Bjarnason, f. 22.5. 1904, d. 15.2. 1970, og Hólmfríður Hildimundardóttir, f. 15.11. 1911, d. 8.1. 2003.

Systkini Huldu eru: 1) Kristinn Bjarni, f. 23.11. 1932, d. 8.11. 2009, maki Ingveldur Sigurðardóttir sem er látin. 2) Ingibjörg, f. 9.2. 1935, d. 1.7. 2010, maki hennar Gísli Birgir Jónsson sem er látinn. 3) Hildimundur, f. 9.8. 1936, d. 2.1. 1988, maki Þórhildur Halldórsdóttir. 4) Jónas, f. 10.6. 1940, maki Elín Ólafsdóttir. 5) Ólafía Sigurborg, f. 29.7. 1941, d. 2.8. 2016, maki Þórður Ársæll Þórðarson sem er látinn. 6) Brynja, f. 25.8. 1945, maki Einar Halldórsson sem er látinn. 7) Ævar, f. 14.9. 1947, maki Alma Diego. 8) Júlíana Kristín Gestsdóttir, f. 19.6. 1949, d. 27.11. 2010, maki Hermann Bragason. 9) Hrafnhildur, f. 7.2. 1952.

Árið 1972 byrjar Hulda sambúð með maka sínum, Kjartani Þorgrímssyni, f. 13.2. 1942, d. 20.11. 1992, og giftu þau sig 26.12. 1978. Hann var sonur hjónanna Þorgríms G. Kjartanssonar, f. 26.9. 1920, d. 22.8. 1999 og Oktavíu Jóhönnu Karlsdóttur, f. 3.5. 1923, d. 22.3. 1982.

Barn Huldu er Svanur Snæþórsson, f. 5.12. 1966, sambýliskona hans er Kapitola Rán Jónsdóttir, börn hennar eru Jódís Anna, f. 8.9. 1995, Thomas Smári, f. 8.8. 2000 og Elías Franklin, f. 20.1. 2003.

Börn Huldu og Kjartans eru: 1) Þorgrímur, f. 6.7. 1974, kona hans er Dorota Burba, f. 6.2. 1980, dætur þeirra eru Viktoría Hulda, f. 24.3. 2001, Elísabet Oktavía, f. 9.7. 2006 og Alexandra Björk, f. 25.8. 2011. 2) Elfa Björk, f. 14.8. 1978, sambýlismaður hennar er Gunnar Dór Karlsson, f. 3.1. 1980, börn þeirra eru Kjartan Karl, f. 1.5. 2005 og Svandís María, f. 4.5. 2010.

Útför Huldu fer fram frá Þórshafnarkirkju í dag, 12. febrúar 2022, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku mamma. Núna er komið að kveðjustund hjá okkur.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa náð að hitta þig og vera hjá þér síðustu tímana og halda utan um þig þegar þú kvaddir okkur.

Þakklát fyrir símtölin þar sem við náðum að tala um svo margt, sama hvort það var að rifja upp skemmtilegar minningar, taka á erfiðum málum eða bara spjall um ekkert.

Þú varst svo mikill handavinnusnillingur og þegar kom að því að prjóna eða sauma var ekkert sem þú gast ekki gert, ef ég sá peysu eða eitthvað sem mig langaði í varstu enga stund að klára það fyrir mig.

Börnin mín nutu þess að hafa þig þegar þú komst til okkar og að hitta þig þegar við komum til þín, þú sýndir þeim ást og umhyggju og gast spjallað endalaust við þau.

Minning þín lifir með okkur og ég veit að pabbi hefur tekið vel á móti þér.

Þótt móðir mín

sé nú aðeins minningin ein

mun ég ávallt minnast hennar

með glöðu geði

og dýpstu virðingu,

hugheilu þakklæti

og hjartans hlýju,

fyrir allt og allt.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Takk fyrir allt, elsku mamma.

Þín dóttir,

Elfa Björk.