Hjörtur Eiríksson Kjerúlf fæddist á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal 11. febrúar 1945. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 15. janúar 2022.

Foreldrar Hjartar voru hjónin Eiríkur M. Kjerúlf, bóndi á Vallholti, f. 31.10. 1915, d. 11.5. 1991, og Droplaug J. Kjerúlf, húsfreyja á Vallholti, f. 29.7. 1917, d. 23.11. 2011.

Systkini Hjartar: Reynir E. Kjerúlf, f. 6.5. 1950. Sigurður E. Kjerúlf, f. 31.12. 1951. Elísabet E. Kjerúlf, f. 8.12. 1957. Rúnar Metúsalem Kjerúlf, f. 3.2. 1956, d. 30.7. 1958.

Sambýliskona Hjartar frá 1970 til ársins 1986 var Málfríður Stella Benediktsdóttir frá Urðarteigi. Foreldrar hennar voru Lilja Skúladóttir frá Urðarteigi og Benedikt Sigurbjörnsson frá Gilsárteigi.

Börn Hjartar og Málfríðar Stellu eru: 1) Lilja, f. 11.8. 1971. 2) Eiríkur Rúnar, f. 4.1. 1974, maki Anna Guðlaug Gísladóttir. 3) Sólrún Júlía, f. 30.5. 1979, maki Kjartan Benediktsson. 4) Benedikt Logi, f. 28.11. 1981, maki Særún Kristín Sævarsdóttir.

Barnabörn Hjartar eru níu og tvö barnabarnabörn.

Hjörtur starfaði í sláturhúsum árin 1963-1970, bæði á Reyðarfirði og á Egilsstöðum, aðallega í fláningum. Hann hafði sumarvinnu í Vegagerð 1962-1965. Meirapróf tók hann 1965 og vann sem leigubílstjóri sumrin 1965 og 1966. Hann stundaði byggingarvinnu á Eskifirði 1967 og á Reyðarfirði 1968 og fór til sjós á vetrarvertíð á Breiðdalsvík 1969.

Árið 1968 stofnuðu þeir bræður hljómsveit í dalnum sem fékk nafngiftina Fljótsmenn og spilaði Hjörtur á gítar og söng. Þeir spiluðu á alls kyns samkomum til ársins 1971 en hljómsveitin kom síðar saman á 40 ára afmæli sveitarinnar og hélt tónleika á Skriðuklaustri árið 2008.

Árið 1970 keypti Hjörtur Hrafnkelsstaði I og II þar sem hann starfaði sem sauðfjárbóndi allt til síðasta dags. Hann var kosinn í hreppsnefnd í Fljótsdalshreppi 1982 og einnig til oddvita og sat til ársins 1999, alls 17 ár. Hjörtur var formaður byggingarnefndar við byggingu íþróttahúss og sundlaugar við grunnskólann á Hallormsstað. Hann var formaður ungmennafélags og búnaðarfélags í Fljótsdal um nokkurra ára skeið.

Hjörtur var mikill veiðimaður, stundaði refa-, rjúpna- og hreindýraveiðar. Hann var leiðsögumaður með hreindýraveiðum um 30 ára skeið.

Útför Hjartar fór fram í Egilsstaðakirkju 5. febrúar 2022 og var hann jarðsettur í Valþjófsstaðarkirkjugarði í Fljótsdal.

Nú ertu farinn fóstri minn og vinur.

Það er mjög sárt að þurfa að kveðja einn af mínum bestu vinum, fóstra og fyrirmynd. Mér finnst þetta of snemmt, finnst eins og við hefðum átt að eiga inni nokkrar tófuferðir. En þetta er víst það eina sem við vitum fyrir vissu í lífinu að það tekur enda einn daginn.

Já sæll vertu, eitthvað að frétta? Svona byrjuðu flest okkar samtöl. Þegar ekkert var að frétta voru það samt lengstu samtölin okkar og oftar en ekki vorum við búnir að kveðjast allavega þrisvar áður en samtalinu lauk raunverulega. Það kemur svo margt upp í hugann þessa daga, óendanlega margar minningar um ferðir okkar á fjöll til að vitja um tófur eða hreinlega að taka kvöldbíltúra um sveitina í góðu veðri og oft á vorkvöldum í kringum sauðburð.

Fyrstu kynnum mínum af þér og þínum bæ mun ég aldrei gleyma. Það var á átta ára afmælisdaginn minn sem við mamma komum til að hitta þig til að ráða okkur í vinnu um sumarið í heyskap og síðar sem ráðskonu hjá þér. Þegar við komum á bæinn heilsuðumst við öll kampakát og þú sýndir okkur húsakynni þín. Síðan ferð þú með okkur í fjárhúsin og á leiðinni upp að húsum er þér bent á að ég eigi átta ára afmæli í dag. Þú stoppar og tekur höfðinglega í hönd mína og óskar mér innilega til hamingju með daginn. Frá þessum degi varð ekki aftur snúið og hef ég verið með annan fótinn á Hrafnkelsstöðum síðan.

Eftir að við mamma fluttum frá Hrafnkelsstöðum reyndi ég að nýta hvert einasta tækifæri sem gafst til að komast í sveitina. Heyskapur var mér mikið áhugamál enda fékk maður þá að keyra traktor. Þó var og er ég með þann galla að vera með frjókornaofnæmi. Það gat oft verið svo slæmt að ég sá varla út um augun og röddin nánast farin. En ég passaði bara að segja þér að allt væri fínu lagi með mig ef þú spurðir, þó held ég að þú hafir nú alveg vitað hvað var að. Þetta var oft fjörugur tími þar sem við vorum fyrstu árin í böggunum sem þurfti mannskap en síðar voru það rúllur.

Sauðburður var ekki síðra áhugamál hjá mér. Ég fékk stundum frí í skólanum til að geta verið í sauðburði hjá þér. Fyrsta rollan mín var einstök og þú hafði oft orð á því hvað hún væri einstök skepna, hún hvarf oftar en ekki á sauðburðartímanum og þá vissum við að hún var að fara að bera. Síðan kom hún í ljós með lömb sín hraust og fín, ótrúleg skepna en að vísu var hún nú ekki mikið að láta ráðskast með sig. En það voru nú svo sem fleiri sem léku okkur oft grátt á sauðburðartíma í gegnum árin. Eitt sem er kannski minnisstæðast í þeim málum er þegar nokkrar rollur létu illa að stjórn nokkur vor í röð og fengu þær viðurnefnið óvinur ríkisins númer 1, 2 og 3. Þessu höfðum við bara gaman af enda alltaf stutt í gamanmálin hjá okkur alla tíð.

Það er varla hægt að horfa yfir farinn veg án þess að líta á allar hrakfallasögurnar af þér. Þeim sögum fannst þér skemmtilegast að segja frá sjálfur og varstu oft glaður í bragði ef sagan var komin um víðan völl. Gott dæmi um að þú vildir vera milli tannanna á fólki er þorrablót þar sem ég man eftir að þú varst tekinn fyrir, enda varla blót nema þú fengir gott hlutverk þar. En þegar leið á kvöldið og þulur kvöldsins sagði svona út í salinn jæja þá er þetta nú orðið gott um hann Hjört okkar greipst þú þá orðið og sagðir hátt og snjallt: Er þorrablótið þá búið? Blótið var rétt að byrja og þetta vakti mikla kátínu. En þetta sýndi bara hvað þú hafði gaman af því þegar aðrir tóku undir þínar hrakfallasögur.

Að mörgu er að taka í þeim málum, flest sem þú sagðir sjálfur frá. En sumt skeði þó með minni viðveru eins og þegar þú fékkst nýja Fendtinn og lentir í smá brasi með hann. Það var þannig að þú ferð inn í dal til að sækja rúllur og við sem vorum þarna vorum heima í mat, þetta var á sauðburðartíma og mikið um að vera. Þegar þú kemur til baka dæsir þú alveg óvenju mikið og segir að þetta sé ónýtur traktor og hann fari bara ekki hraðar en 14, alveg sama hvað setur og hvaða stöng ég toga í. Maður getur nú rétt ímyndað sér hamaganginn í traktornum meðan á þessu stóð, togað í allt sem hægt var að toga og hreyfa. En ég fer svo að pæla í þessu, fer smá rúnt og sé strax hvað var að, ég reyndar komst alveg í 15 miðað við það sem þú varst að horfa á. Enda var klukkan orðin 15.00 þegar ég fer að prufa traktorinn, því eina sem blasti við manni var jú klukkan í mælaborðinu! Önnur saga sem kemur upp í kollinn er þegar þú sagði mér frá hrikalegri upplifun sem þú hafðir lent í eina nóttina þar sem þú hélst að þú hefðir gert alveg hroðalega í brók. Það var þannig að þú vaknar um nótt eina og tekur eftir því að hendur þínar eru útataðar í brúnum lit og var það mikið áfall þar sem þú hélst að nú væri þetta búið; búinn að gera í brók og það uppi í rúmi. En þegar betur var að gáð var þetta nú bara kassi af súkkulaðirúsínum sem þú hafðir lagst ofan á og þannig varstu útataður í súkkulaði en ekki saur, þessu hafðir þú mikið gaman af að segja mér frá og við hlógum mikið að þessu. En svona var þetta og þú hafðir bara gaman af þessu öllu og gerðir oft bara meira úr sögunum og gafst ekkert eftir.

Veiðidella mín er alfarið komin frá þér og kenndir þú mér margt hvað viðkemur veiðum. Í minni fyrstu rjúpnaveiði fór ég með þér og lærði heilmargt af þér í tengslum við það. Þú sendir mig á Hálsinn mína fyrstu ferð, þú komst ekki strax með en ætlaðir að koma um hádegi. Ég gekk á þeim stöðum sem þú bentir mér á að fara en ég veiddi ekki mikið en var með eina til tvær ef ég man rétt. Þegar þú kemur svo um hádegið ferðu með mig nánast sömu leið og ég hafði farið um morguninn. Og viti menn; við lendum í fínni veiði og þetta sýnir bara hvað þú þekktir landið þitt vel og vissir upp á millimetra hvar þær voru.

Þær ferðir sem ég hef fengið að fara mér þér í tengslum við grenjavinnsluna á vorin eru ómetanlegar minningar. Ferðirnar eru svo margar að maður getur varla gert upp á milli þeirra, ævintýri í hverri ferð. Þolinmæði var nú oft ekki til hjá þér en þegar kom að þessum veiðum var þér fært að sitja og horfa á sömu holuna í marga klukkutíma. Ég lærði þetta fljótt af þér, að njóta þess að vera í náttúrunni og hlusta á þögnina, þetta var bara eins konar hugleiðsla.

Ein af eftirminnilegustu ævintýraferðum okkar var þegar þú hafðir samband við mig og spurðir hvort ég gæti losnað úr vinnu og komið í skemmtiferð að bjarga hreindýrstarfi úr girðingu. Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um enda hljómaði þetta mjög spennandi. Við tókum fréttamann okkar með, hann frænda þinn Rúnar Snæ, til að festa þetta á spjöld sögunnar. Þetta var mögnuð ferð; okkur tókst að berjast við tarfinn sem var fastur í girðingunni og náðum á endanum að stökkva á hann til þess að það væri hægt að losa af honum girðingarflækjuna. Þetta var það magnað að þetta endaði í áramótaannál RÚV það sama ár. Svo hittist þannig á að við vorum saman í mat þau áramót heima hjá bróður þínum Reyni og þar sáum við annálinn saman. Þetta fannst okkur magnað og gleymi ég þessu seint.

Ég gæti skrifað heilu bækurnar um endurminningarnar og allar sögurnar sem þú hefur sagt mér um sjálfan þig og sveitungana. Við áttum það oft til þegar ég gisti í sveitinni að spjalla heilu kvöldin um gömlu tímana og sögur af ætt þinni eða fólki í sveitinni. Þetta fannst mér dýrmætt að heyra og þótti vænt um þessar stundir okkar.

Ein af þessum stundum okkar í spjalli á kvöldin var mér einstök en það var þegar ég nefndi það hvort ég ætti ekki bara byggja bústað í Hrafnkelsstaðalandi. Þetta þurftir þú greinilega ekki að hugsa mikið um því þú varst ekki lengi að svara og sagðir: Jú og ég er með stað fyrir þig. Úr varð að við fórum að skoða staðinn og ég var heillaður, vill svo skemmtilega til að við mamma vorum að planta þarna þegar við bjuggum á Hrafnkelsstöðum. Hef upp frá því verið að koma mér upp aðstöðu þar í því landi sem kallast Brattagerði. Þessi staður minn í landi þínu var til þess að samverustundir okkar urðu fleiri og meiri tengsl einnig við fjölskyldu mína sem kemur alltaf með mér á sumrin til að dvelja þar og koma til þín í kaffi eða mat, ómetanlegt fyrir okkur.

Það er bara svo margt sem mig langar að segja, spyrja eða bara taka spjallið. En það sem stendur upp úr öllu er þakklætið fyrir allar stundir sem þú hefur gefið af þér og allt sem ég hef lært í gegnum árin, það er það sem ég mun muna. Minning þín gleymist aldrei og í hvert sinn sem ég fer um sveitina veit ég að þú ert þar, þú átt heima þar og í hjarta okkar.

Takk Hjörtur. Takk.

Kveðja,

Ásgeir Eiríksson.

Kæri pabbi, þín er sárt saknað, þú varst friðsæll að sjá með bros á vör þegar ég kvaddi þig. Margar minningar koma upp þessa dagana um þig og varla líður sú stund að þú skjótir ekki upp kollinum í amstri dagsins. Þær eru ótal veiðiferðirnar sem við fórum saman í, en mér er sérstaklega minnisstæð ferðin sem við fórum upp á Fljótsdalsheiði að skoða tófugreni við Grjótöldu. Ferðalagið gekk hægt en vel og það var liðið þó nokkuð á daginn þegar við komum á áfangastað. Við skoðuðum grenið, þú sýndir mér ummerki
að hérna væri tófa og hvíslaðir að mér að ekki tala hátt. Við læddumst í byrgið og tókum okkur stöðu í því, svo gaggaðir þú eins og tófa og ekki leið á löngu þangað til litlir tófuhvolpar kíktu út um holurnar.
Hjartað fór að slá hraðar og adrenalínið streymdi um mig allan. Þá hófst biðin og við biðum og biðum og já biðum, þetta var erfitt fyrir ungan mann sem átti nú nógu erfitt með að sitja kjurr í stól. Þú lést mig hafa verkefni; horfa vel í vissar áttir, hlusta og vera vakandi fyrir hreyfingum. Eitthvað var mér farið að leiðast þetta, lítið að gerast og eina sem heyrðist var vindurinn og lóan sem flögraði í kringum okkur. Svo ég fór að telja steinana sem stóðu upp úr á klettinum fyrir ofan okkur. Þar var farið að skyggja, ég veit ekki hvað ég var búinn að telja þessa blessuðu steina oft en ég hefði alveg getað skírt þá með nöfnum: Steinn Steinar, Stulli Bergs, Steini Mokk og svo framleiðis. En í eitt skiptið var einum steini ofaukið. Mér fannst þetta frekar einkennilegt og hvíslaði að þér: Pabbi, það er einum steini ofaukið á klettinum. Þú horfðir upp í klettabrúnina og sagðir: Ætli tófan sé mætt? Jú, ekki leið á löngu þangað til við urðum varir við hana gægjast á milli steina og sáum glitta í eyrun sem komu upp um hana. Við máttum okkur ekki hreyfa því hún hafði gott útsýni yfir greni sitt en svo læðupokaðist hún niður og í fyrsta skoti lá hún blessuð. Þarna var mig farið að gruna að ekki værum við að fara heim heldur myndum við sofa undir berum himni langt frá byggðu bóli. Nóg höfðum við af nesti en bara einn gamlan svefnpoka með ónýtan rennilás. Mér fannst þetta eins og í kúrekamynd nema það eina sem vantaði var varðeldurinn og pottur með bökuðum baunum. Það var áliðið og þú sagðir mér að skríða í pokann því þú ætlaðir að taka fyrstu vakt. Ég var fljótur að sofna þó ég reyndi að halda mér vakandi, vildi ekki missa af neinu. Morguninn eftir vaknaði ég og fann að mér var heitt í andlitinu, sólin var búin að baka á mér andlitið og þegar ég ætlaði að opna augun gerðist ekki neitt, þau vildu ekki opnast, það var eins og augnlokin væru límd saman. Ég varð skelkaður og kallaði á þig í geðshræringu. Þú komst og reifst upp augun og sagðir mér að það hefði verið svo mikið moldrok um nóttina sem hafði valdið þessu, mér 13 ára guttanum var mikið létt. Refurinn kom skokkandi beint í fangið á okkur snemma um morguninn, grunlaus um að langbesta refaskytta Austurlands væri mætt á svæðið, hvolpana öngluðum við upp með æti og grenið fullunnið. Hreindýraveiðiferðir okkar eru svo margar sem við fórum í saman. Eins og þegar við veiddum fyrstu hreindýrin sem fóru í Húsdýragarðinn. Ég brunandi á snjósleða með þig aftan á með deyfibyssuna en þegar við komum með dýrin að sveitabænum þá vildi ekki betur til en svo að eitt dýrið rankaði við sér, hljóp af stað og stökk inn um gat á súrheysturninum sem þarna var. Já, það dýr fór allavega ekki í Húsdýragarðinn. Þú varst duglegur að taka mig með í veiðiferðir sem eru fyrir mér ógleymanlegar minningar, mikil lexía og ævintýri. Á fjöllum og veiðum vorum við félagar, vinir, faðir og sonur. Við áttum okkar bestu stundir saman í þessum ferðum. Ég átti eftir að segja þér svo margt og hvað mér þótti vænt um þig en það samtal varð aldrei.

Hvíldu í friði, elsku pabbi.

Eiríkur H. Kjerúlf.