Vetrarfrí Grunnskólabörnum borgarinnar ætti ekki að leiðast um helgina.
Vetrarfrí Grunnskólabörnum borgarinnar ætti ekki að leiðast um helgina. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Vetrarfrí í grunnskólum borgarinnar hefst í dag, 17. febrúar, og stendur til sunnudags, 20. febrúar. Frístundamiðstöðvar og menningarstofnanir borgarinnar bjóða upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna og þar kennir ýmissa grasa.

Vetrarfrí í grunnskólum borgarinnar hefst í dag, 17. febrúar, og stendur til sunnudags, 20. febrúar. Frístundamiðstöðvar og menningarstofnanir borgarinnar bjóða upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna og þar kennir ýmissa grasa. Af þessu tilefni verður frítt inn á söfn fyrir fullorðna í fylgd með börnum og frítt verður í sund á tilgreindum tímum. Það ætti því engum að leiðast um helgina.

Á frístundamiðstöðvum verður leikið, föndrað, klifrað og grillað, í Bláfjöllum verða diskalyfturnar í gangi fyrir þá sem vilja skella sér á skíði og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn býður upp á dagskrá með Lalla töframanni og margs konar fræðslu.

Fjölbreytt dagskrá verður í öllum bókasöfnum borgarinnar í vetrarfríinu þar sem gert er ráð fyrir afþreyingu fyrir börn sem fullorðna. Þar verður meðal annars haldin Harry Potter-spurningakeppni, Minecraft- og myndbandasmiðjur, bingó og perluveisla og bókasafnsráðgátan verður á sínum stað.

Borgarsögusafn mun einnig bjóða upp á spennandi og endurgjaldslausa dagskrá fyrir unga sem aldna. Á Sjóminjasafninu verður boðið upp á plöntuleikhússmiðju, milli 13 og 15 á sunnudag. Þar býðst plöntusérfræðingum á öllum aldri að prófa sig áfram í leikritun og búa til hugmyndir fyrir senur sem leiknar eru fyrir, með eða af plöntum.

Á Landnámssýningunni í Aðalstræti verða húsdýr landnemanna í brennidepli í ýmsum leikjum, á Árbæjarsafni má búa til vindóróa Góu til dýrðar og Ljósmyndasafnið býður upp á skemmtilega fjölskylduþraut í tengslum við sýninguna Augnablik af handahófi.

Í Listasafni Reykjavíkur og á Kjarvalsstöðum verða sköpunarsmiðjur í boði og sýningar sem skoða má endurgjaldslaust og með leiðsögn fyrir alla fjölskylduna. Og ef einhvern skyldi langa til að prófa að búa til prentgrip þá bjóða Prent og vinir upp á prentnámskeið fyrir börn á Kjarvalsstöðum í tengslum við sýningu Birgis Andréssonar.

Í Hafnarhúsi verður haldin svokölluð Galdraleiðsögn með töfrasprotum, þ.e. stutt leiðsögn með leikjaívafi fyrir fjölskyldur á öllum aldri um sýninguna Abrakadabra – töfrar samtímalistar. Vísindasmiðja Háskóla Íslands verður einnig með opna listræna vísindasmiðju í tengslum við sömu sýningu.