Kæru Reykvíkingar. Ég sækist eftir 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík núna í mars. Þessi ákvörðun er tekin á grundvelli þeirrar sannfæringar að reynsla mín, þekking og sýn henti vel til að mæta þeim áskorunum sem Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir.
Ég er drifin áfram af hugsjón og ástríðu fyrir bættu samfélagi og hef verið í forystuhlutverki og hagsmunabaráttu í menningargeiranum til margra ára. Ég hef umfangsmikla og farsæla reynslu í stjórnun og rekstri og hef gegnt fjölmörgum stjórnunar- og trúnaðarstörfum í menningargeiranum og fyrir hið opinbera. Ég sit m.a. í stjórnum Samtaka skapandi greina og Bandalags íslenskra listamanna, Útflutnings- og markaðsráði Íslandsstofu, Icelandic Trademark Holding, Kvikmyndaráði og Höfundarréttarráði. Þá hef ég m.a. setið í stjórn Hörpu, Þjóðleikhúsráði og sjórn Stockfish kvikmyndahátíðar, og var í nokkur ár formaður Bandalags sjálfstæðra leikhópa og forseti Sviðslistasambands Íslands.
Í störfum mínum, ekki síst sem stéttarfélagsformaður Félags íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum, hef ég lagt áherslu á fagmennsku og jafnrétti sem og ábyrgan og gagnsæjan rekstur.
Ég hef unnið með fjölbreyttum hópum fólks og öðlast reynslu í því að leiða saman ólíka hópa og mismunandi skoðanir til að ná fram farsælli niðurstöðu og lausnum í sátt.
Einstaklingar og fyrirtæki fá að blómstra
Grunnforsenda blómlegrar borgar, þar sem einstaklingar og fyrirtæki fá að vaxa og dafna án íþyngjandi boða og banna, er heilbrigður fjárhagur og sýn til framtíðar sem þjónar þörfum fólksins í Reykjavík. Minnka þarf yfirbyggingu borgarinnar en styrkja innviði og grunnþjónustu. Einfalda þarf kerfi fyrir einstaklinga og fyrirtæki með skilvirkum hætti og jákvæðum hvötum til uppbyggingar á betra samfélagi þar sem lýðheilsa og umhverfisvitund eru leiðarstef.
Skapandi fólk – súrefnið í samfélaginu
Vaxtarbroddur nýrra starfa liggur hjá skapandi fólki. Listir, menning, hugverkaiðnaður, nýsköpun; allt þetta er hluti af hinum skapandi greinum. Borgin þarf að innleiða hugsun og sýn með það fyrir augum að stuðla að framþróun þessara greina og búa til sterkari grunn til að hægt sé að skapa ný og fleiri tækifæri. Við eigum að vera leiðandi að þessu leyti, vera frumkvöðlar, nýta smæðina og hafa hugrekki til að tileinka okkur nýjar leiðir. Við erum að keppa um fólk í alþjóðlegum heimi sem tekur sífellt örari breytingum. Við viljum að borgin okkar sé framsækinn og spennandi valkostur fyrir alla. Tækifærin til þess eru svo sannarlega til staðar. Lifandi og öflug menning laðar að fólk frá öllum heimshornum sem eflir bæði atvinnulíf og mannlíf í borginni.
Fjölbreytt borgarsamfélag
Ég á þrjú börn á grunnskólaaldri og það er gott að búa og ala upp börn í Reykjavík en við getum gert miklu betur. Ég tel afar mikilvægt að öll börn hafi greiðan aðgang að íþróttum og tómstundum, en þannig er það ekki í dag. Fjölskyldumynstrið hefur breyst mikið á undanförnum árum. Kerfin okkar þurfa að styðja við börn og flókin fjölskyldumynstur – á forsendum barna. Systkini á leik- og grunnskólaaldri þurfa að geta átt sameiginlegan reynsluheim eftir daginn og tryggja þarf að systkini geti verið í sama leikskóla innan síns hverfis. Efla þarf skapandi hugsun og listkennslu á grunnskólastigi og setja uppbyggingu fyrir börn og unglinga í forgang þegar kemur að úthlutun fjármuna í íþróttastarf. Bæta þarf starfsumhverfi leik- og grunnskólakennara, fólksins sem menntar börnin okkar og ver stórum hluta dagsins með þeim. Tryggja þarf möguleika fólks til að ákveða sjálft hvaða samgöngumáta það velur, gangandi, hjólandi, keyrandi eða með almenningssamgöngum sem þarf að stórbæta. Í húsnæðismálum þarf að taka tillit til ólíkra óska fólks og þarfa, bæði með þéttingu núverandi byggðar og uppbyggingu nýrra hverfa.Mér finnst miklu skipta að borgin tefli fram til stjórnar einstaklingum með fjölþættan bakgrunn og ólíka þekkingu – með þeim hætti þjónum við borgarbúum öllum best. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum í ykkar þágu, fái ég til þess stuðning.
Höfundur er formaður FÍL – Félags íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum og í framboði í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík. birnahafstein@hotmail.com