Jónína Ólafsdóttir
Jónína Ólafsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Innihaldsríkt líf getur aðeins orðið til í samfélagi fólks og í því samfélagi þarf að ríkja velvilji og náungakærleikur.

Það var einu sinni drengur sem vaknaði upp við óljósan draum, fór á fætur og áttaði sig á því að foreldrar hans og allt annað fólk virtist vera horfið úr lífi hans. Á götum borgarinnar naut hann þess frelsis sem fylgir því að þurfa ekki að hafa áhyggjur af að fylgst sé með hverju skrefi manns. Enginn afgreiðslumaður í nammibúðinni svo þar gat hann fengið sér eins mikið nammi og hann vildi. Ekkert afgreiðslufólk í leikfangabúðinni þannig að hann gat tekið öll þau leikföng sem hann langaði í. Ekki heldur neinn ökumaður í sporvagninum svo Palli gat bara sjálfur sest undir stýri og ekið sporvagninum hvert sem hann vildi. Í bankanum var heldur enginn svo þar gat hann tekið eins mikla peninga og hann gat borið.

Einræða eða samtal?

Hvað gerist svo? Nú Palli gat enga mynd séð í bíóinu því enginn var til að sýna myndina. Á leikvellinum var ekki hægt að vega salt, því þar voru engir krakkar til að sitja á móti á vegasaltinu. Það fóru að renna tvær grímur á Palla þegar hann áttaði sig á því að heimur án annarra, heimur án félagsskapar, samkenndar, mótlætis og árekstra; sá heimur er harla

lítils virði. Megininntak sögunnar um Palla sem var einn í heiminum er það að heimur án samskipta við aðra verður þrátt fyrir allsnægtir og auð heldur fátæklegur. Við lesum söguna af Palla gjarnan fyrir börn. Hún er full af tilvistarlegum vangaveltum sem gera kröfur til þess að lesandinn velti fyrir sér hvort það er í raun eitthvað fengið með því að eiga alla hluti og geta gert það sem manni sýnist án tillits til alls. Í fyrstu fannst Palla spennandi að hafa aðgang að veraldlegum lystisemdum, en fann svo að þær voru ekki það sem gaf lífinu gildi. En um hvað fjallar sagan um Palla sem var einn í heiminum?

Óhugnaður allt til enda?

Sagan af Palla fjallar um einsemd og er eiginlega svolítið óhugnanleg – alla vega þar til maður veit hvernig hún endar. Er hún ádeila á velferðarsamfélagið eða kröfuna um frelsi í því að geta gert allt sem mann langar til? Getur verið að það sé einmanalegt að vera frjáls og engum háður?

Af ríkum og fátækum

Sagan af Palla vekur okkur til umhugsunar, en það gera dæmisögur Biblíunnar líka gjarnan. Í þeim koma gjarnan fram andstæður sem eru áhrifamiklar en hjá Lúkasi má finna frásögnina af Lazarusi og ríka manninum. Ríki maðurinn lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði en sá fátæki lá sár og svangur fyrir dyrum hans og vonaðist eftir því að fá einhvern skerf af því sem félli af borðum ríka mannsins. En hann hafði ekki erindi sem erfiði.

Þegar þeir dóu var Lazarus borinn af englum í faðm Abrahams en ríki maðurinn sendur í hinn verri stað. Hann leið kvalir og bað um miskunn. Þá fékk hann aftur á móti að vita að hann hefði haft mörg tækifæri til að breyta betur og gefa af sér. Nú væri bara heldur seint í rassinn gripið. Þessi dæmisaga sem Jesús segir er opin fyrir túlkun og nærri mætti ætla að mikill auður komi í veg fyrir sáluhjálp hins ríka. En er það svo? Er ekki sagan frekar ádeila á eigingirni og sjálfhverfu? Við þurfum vissulega öll peninga til að lifa af, hafa í okkur og á eins og sagt er. Það sem sagan kennir okkur er að því fylgir ekki hamingja að líta á auðæfi sín sem takmark. Það að keppa statt og stöðugt að því að eignast alltaf meira og meira ýtir undir sjálfhverfu okkar og einangrar okkur frá samfélagi við Guð og menn.

Til góðra verka

Að líta á auðæfi sín sem tækifæri til góðra verka skapi hins vegar mannlega samstöðu og móti samfélag fólks. Og kannski er það það sem er líkt með sögunum tveimur, um Palla sem var einn í öllum heiminum og dæmisögu Biblíunnar um Lazarus og ríka manninn. Þær minna okkur báðar á það að samstaða og samfélag með öðru fólki gefur lífsfyllingu. Það að sitja einn heima og kúra á auðæfum sínum og hugsa um það eitt hvernig maður sjálfur kemst best frá hlutunum – burtséð frá líðan eða lífsgæðum annarra, er sennilega ekki líklegt til varanlegrar hamingju. Það er í það minnsta sennilegt að sú hugsun verði til lengri tíma litið afar innihaldslaus, hamingjusnauð og einmanaleg.

Sagan um Palla sem var einn í heiminum sýnir okkur að án annars fólks getur líf okkar aldrei orðið annað en harla fátæklegt í andlegum og félagslegum skilningi.

Þrátt fyrir að Palli hafi haft yfir að ráða ótal veraldlegum lystisemdum þá varð líf hans fljótlega innihaldslaust, tómlegt og jafnvel ógnvænlegt. Innihaldsríkt líf getur aðeins orðið til í samfélagi fólks og í því samfélagi þarf að ríkja velvilji og náungakærleikur. Fallegar hugsanir.

Við þurfum hvert á öðru að halda því það er ekki hægt að vega salt ef maður er einn í heiminum.

Höfundur er sóknarprestur Hafnarfjarðarkirkju.

Höf.: Jónína Ólafsdóttir