Ævintýralegt Pétur Atli hefur meðal annars túlkað Star Wars-söguheiminn í nýjum bókum frá Disney Books.
Ævintýralegt Pétur Atli hefur meðal annars túlkað Star Wars-söguheiminn í nýjum bókum frá Disney Books.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Listamaðurinn Pétur Atli Antonsson Crivello hefur getið sér gott orð erlendis undanfarin ár og hefur meðal annars teiknað nýjar Star Wars-bækur fyrir Disney og kápur fyrir hina vinsælu bókaröð Artemis Fowl.

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Myndlistarmaðurinn Pétur Atli Antonsson Crivello segist hafa teiknað mikið frá því hann var barn. Nú er alls kyns teikning, myndlýsing og kápuhönnun orðin hans aðalstarf og hefur hann sinnt ýmsum spennandi verkefnum fyrir stór fyrirtæki erlendis undanfarin ár.

Eftir að hann brautskráðist frá Borgarholtsskóla lá leiðin til San Francisco og má segja að þar hafi ferillinn hafist. Hann hóf nám við Academy of Art University og lagði þar stund á það sem á ensku kallast illustration, en myndlýsing á íslensku. Þar bjó hann í sex ár og útskrifaðist með BFA-gráðu í greininni.

„Fyrsta starfið mitt eftir nám var í litlu tölvuleikjastúdíói í San Francisco. Þá byrjaði ég að vinna sem svona bakgrunnsteiknari í tvívíddarleik. Þetta var byggingarleikur, maður átti að byggja lítinn bæ, svo ég var að teikna hús og svoleiðis.“ Þannig hófst ferill Péturs sem myndhöfundur.

„Þegar ég var búinn að vera hjá þeim í einhvern tíma var ég kominn með smá heimþrá svo ég flutti heim. En þeim hjá tölvuleikjafyrirtækinu leist svo vel á mig að þau buðu mér að halda áfram að vinna fyrir þau heiman frá Íslandi. Það hjálpaði mér mikið í flutningunum,“ segir hann.

„Svo upp úr þurru fór ég að fá lítil verkefni hér og þar. Þá var fólk kannski búið að sjá heimasíðuna mína eða skoða skólann sem ég var í og sjá hverjir höfðu útskrifast þaðan.“

Hann var til dæmis beðinn að myndskreyta bókarkápu og hanna teiknimyndapersónur. Þessi verkefni voru öll fyrir erlend fyrirtæki.

„Þá byrjaði ég að færa mig úr því að vinna hjá töluleikjafyrirtækinu og yfir í að vinna meira í lausamennsku. Svo hætti ég á endanum hjá þeim.“

Hið ævintýralega skemmtilegast

Nokkrum árum eftir heimkomuna hafði umboðsskrifstofa í New York, Shannon Associates, samband við Pétur. Hann tók vel í tilboð þeirra og hefur verið í samstarfi við umboðsmenn hjá fyrirtækinu frá 2015.

„Þeir sjá um að redda mér verkefnum alls staðar að úr heiminum. Síðan ég fór að vinna með þeim hef ég verið rosalega mikið í bókaútgáfu. Ég hef gert mikið af kápum fyrir alla helstu bókaútgefendur í Bandaríkjunum og á Bretlandi.“ Hann hefur til dæmis unnið fyrir stór útgáfufyrirtæki á borð við HarperCollins, Penguin Random House, Simon & Schuster, Scholastic og Disney Books.

„Þegar ég var búinn að gera slatta af bókarkápum fór ég að fá stærri verkefni. Ég var til dæmis beðinn að gera nýju kápurnar fyrir Artemis Fowl-seríuna, það er mjög þekkt sería sem kom út á sama tíma og Harry Potter-bækurnar voru vinsælar. Ég fékk að gera allar átta kápurnar á þessa vinsælu seríu og í framhaldi af því fór ég að fá fleiri verkefni frá Disney.“

Annað stórt verkefni sem hann fékk í kjölfarið var að vinna nýtt efni tengt Star Wars. Disney hefur keypt Lucasfilm sem framleiðir Star Wars og hefur verið að framleiða nýtt efni undir merkjum Star Wars, meðal annars nýjar bækur.

„Í fyrra var ég mikið að vinna fyrir þau. Ég gerði fimm Star Wars-bækur; tvær myndskreyttar barnabækur og þrjár lestrarbækur fyrir krakka á aldrinum 9-12 ára, þar sem ég teikna kápuna og nokkrar myndir.“ Pétur hefur einnig tekið að sér alls kyns smáverkefni hér og þar, meðal annars teiknað persónur fyrir teiknimyndaþætti.

„Mig langaði alltaf að vinna að einhverri teiknimynd, það hefur alltaf verið smá draumur, en því eldri sem ég verð þá er ég bara sáttur við að gera alls konar mismunandi. Þetta er fjölbreytt starf,“ segir listamaðurinn.

„Það nýjasta sem ég er að gera er að í janúar byrjaði ég sem listrænn stjórnandi hjá litlu tölvuleikjafyrirtæki hér í Reykjavík, Porcelain Fortress.“ Samhliða því vinnur hann áfram í lausamennsku fyrir aðra.

Spurður hvernig hann myndi lýsa teiknistíl sínum segir hann: „Auðveldasta lýsingarorðið væri teiknimyndastíll en ef ég myndi lýsa því eitthvað frekar er þetta kannski blanda af Disney og Pixar með smá evrópskum og japönskum áhrifum.“ Sér þyki skemmtilegast að teikna eitthvað ævintýralegt, ævintýraheima og persónur sem tilheyra þeim.

Pétur var nýlega fenginn til þess að hanna plakat fyrir Íslandsdeild barnamenningarfélagsins IBBY og Reykjavík bókmenntaborg UNESCO sem sett verður upp í öllum grunnskólum landsins.

Pétur minnir á að hann sé mjög opinn fyrir því að vinna verkefni hér á Íslandi hafi fólk áhuga á samstarfi, þrátt fyrir að hafa hingað til mest starfað á erlendum markaði.