Þorkell Sigurlaugsson
Þorkell Sigurlaugsson
Eftir Þorkel Sigurlaugsson: "Reykjavíkurborg þarf að rækta tengsl við atvinnulífið. Það er eitt af mínum stefnumálum að stöðva flótta fyrirtækja úr borginni og fá önnur heim."

Núverandi meirihluti borgarstjórnar í Reykjavík hefur vanrækt atvinnutengsl – fyrirtæki flýja borgina og verkefni skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar hafa verið færð undir skrifstofu borgarstjóra og týnst þar. Reykvíkingar og fyrirtæki hafa orðið fyrir barðinu á áratugafrestun Sundabrautar. Það er kominn tími á nýjan meirihluta, sem kemur með nýtt verklag, kraft og öfluga framtíðarsýn í borgarstjórn.

Á næstu vikum fram að prófkjörsdegi mun ég fjalla sem víðast um helstu stefnumál mín sem borgarfulltrúa sem býð mig fram í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Eitt af þeim málum er að stöðva fyrirtækjaflóttann úr Reykjavík.

Marel fór frá Reykjavíkurborg – atvinnulífstengsl í skötulíki

Lítið hefur verið gert til að koma í veg fyrir að fyrirtæki hverfi úr borginni. Eitt gamalt dæmi er mér eftirminnilegt og það er Marel, en ég var varaformaður í stjórn fyrirtækisins, þegar það hóf árið 1996 undirbúning flutnings úr Höfðabakka í Reykjavík í Garðabæ. Þar fékk Marel nógu stóra lóð undir nýja 12.000 fermetra nýbyggingu og höfuðstöðvar sínar en húsið var fljótlega stækkað enn frekar. Þetta gerðist á vakt Reykjavíkurlistans og aðstandendur hans kölluðu sig félagshyggjuflokka. Ekki voru þeir aðdáendur félaganna, þ.e. fyrirtækjanna í borginni.

Mikið tjón fyrir Reykjavíkurborg að missa þetta ört vaxandi alþjóðlega fyrirtæki til nágrannasveitarfélagsins, en hjá Marel starfa nú mörg hundruð manns í Garðabæ og 7.000 manns um allan heim í 30 löndum. Eitt mikilvægasta fyrirtæki Íslendinga og langverðmætasta íslenska fyrirtækið í Kauphöll Íslands. Það tókst að halda Háskólanum í Reykjavík árið 2006 þegar staðarval fór fram, en ég þurfti að vekja borgina til umhugsunar um mikilvægi skólans og tryggja skólanum lóð til að halda honum í Reykjavík.

Dæmin eru allt of mörg

Ég vil nefna nokkur nýleg dæmi um fyrirtækjaflóttann úr höfuðborginni. Sýslumaður höfuðborgarsvæðisins flutti til Kópavogs árið 2016, höfuðstöðvar Íslandsbanka fluttu til Kópavogs í lok sama árs og Tryggingastofnun ríkisins til Kópavogs árið 2019. Starfsemin í Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut flutti einnig í Kópavog árið 2019. Hafrannsóknastofnun fór 2020 til Hafnarfjarðar, ýmis heilbrigðisfyrirtæki í Urðarhvarf í Kópavog árin 2019-2021 og Vegagerðin til Garðabæjar 2021.

Þá fyrirhugar Tækniskólinn nú flutning til Hafnarfjarðar svo og Icelandair og Víkingbátar, öflugt og ört vaxandi fyrirtæki sem framleiðir litla og allt upp í 30 tonna smábáta úr trefjaplasti. Eitt af nýjum dæmum sem ég heyrði er flutningur ILVA sem fer af Korputorgi í Kauptún í Garðabæ núna í mars nk. Þetta eru aðeins örfá dæmi af mörgum. Bendir fátt til þess að vilji standi til þess hjá núverandi borgarstjóra eða meirihluta borgarstjórnar að snúa þessari þróun hratt og vel við.

Skipta fyrirtækin borgina engu máli?

Mikilvægt er fyrir Reykjavíkurborg að rækta tengsl við atvinnulífið. Ekki bara með fallegum glærukynningarfundum öðru hvoru í Ráðhúsinu heldur með daglegum tengslum. Frá 2016 og reyndar mörg ár þar á undan hefur verið í undirbúningi uppbygging á Ártúnshöfða, en lítið gerst fyrr en skrifað var undir samning um verkefnið 2019 við Borgarhöfða ehf. https://www.vb.is/frettir/mikil-uppbygging-artunshofda/ 155378/.

Mikill hægagangur er enn á verkefninu. Þarna hefði verið hægt að byggja 250.000 fermetra af íbúðum og atvinnuhúsnæði og fyrirsláttur að bíða þurfi eftir svokallaðri Borgarlínu

Fyrirtækjum fylgir starfsfólk og viðskiptavinir

Fyrirtækjum fylgir yfirleitt fólk sem vill búa nærri vinnustaðnum, ekki hvað síst vegna sívaxandi umferðartafa; þetta eru skattgreiðendur sem greiða heimasveitarfélagi sínu útsvar. Fyrirtæki í örum vexti geta ekki treyst á einhvern þéttingarreit á miðborgarsvæðinu eða jöðrum þess sem verður kannski tilbúinn einhvern tíma eftir 10-15 ár. Þetta gildir um sprotafyrirtæki en ekki síður lítil og meðalstór fyrirtæki sem eiga mikla vaxtarmöguleika.

Stöðvum flóttann

Áratugatafir Sundabrautar segja svo ekki síður sína sögu um vanræksluna í byggðaþróun Reykjavíkurborgar, sem hefur tafið fyrir þróun á tugþúsundum íbúða- og atvinnulóða í Geldinganesi, Álfsnesi og Kjalarnesi. Svipaða sögu er að segja um umfangsmikla þróunarmöguleika í landi Keldna og Keldnaholti. Þá mætti koma mun meiri íbúabyggð fyrir í Úlfarsársdal. Frestun Sundabrautar er þannig að mörgu leyti eitt stærsta hneykslið í langri skandalsögu núverandi meirihluta. Það má svo e.t.v. hafa til marks um einbeittan „brotavilja“ gegn Sundabrautinni, ef svo má að orði komast, að allar aðgerðir núverandi meirihluta hafa fram að þessu miðast við að koma þessari framkvæmd út af kortinu, með einum eða öðrum hætti.

Við þessa þróun verður ekki búið lengur. Tryggja verður Reykvíkingum breytta og betri tíma í atvinnulífstengslum eftir næstu kosningar. Það er kominn tími á nýjan meirihluta, sem kemur með nýtt verklag og öfluga framtíðarsýn í borgarstjórn. Koma verður Reykjavík aftur í fremstu röð. Í mínum huga er fátt mikilvægara en að fólkið sem hér býr og fyrirtækin sem hér vilja starfa finni að nærveru þeirra sé óskað innan borgarmarkanna.

Höfundur er í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Höf.: Þorkel Sigurlaugsson