[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dagmál Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is „Það virðist vera að Drífa Snædal sé að einangrast og það mun hafa heilmikil áhrif á kjaraviðræður ef það rætist.

Dagmál

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

„Það virðist vera að Drífa Snædal sé að einangrast og það mun hafa heilmikil áhrif á kjaraviðræður ef það rætist.“

Þetta segir Gísli Freyr Valdórsson, ráðgjafi hjá KOM og ritstjóri Þjóðmála, þegar litið er yfir nýjustu atburði í valdabaráttunni innan verkalýðshreyfingarinnar þar sem Sólveig Anna Jónsdóttir náði að nýju völdum í Eflingu, næststærsta stéttarfélagi landsins.

Hörður Ægisson, ritstjóri Innherja á visir.is, tekur í sama streng og segir vendingar síðustu vikna hafa komið á óvart þar sem Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, og Ragnar Ingólfsson, formaður VR, lýstu yfir stuðningi við framboð hennar. Bendir Hörður á að það hafi ekki alltaf verið miklir kærleikar milli þeirra, m.a. þegar lokisins tókst að reka smiðshöggið á hina svokölluðu lífskjarasamninga árið 2019.

Launakröfur áfram miklar

Þeir telja báðir að stefni í nokkur átök á vinnumarkaði á árinu, þar sem áfram verði sótt á miklar launahækkanir. Hins vegar sé óvíst að vinnumarkaðurinn í heild muni taka undir ákall um sérstakt átak við hækkun lægstu launa. BHM og fleiri aðilar hafi sagt að nú verði áhersla fremur lögð á prósentuhækkanir á öll laun. Hörður segir í samtalinu í Dagmálum að margt bendi til þess að verðbólga muni fara í 7% á þessu ári og að það undirstriki mikilvægi þess að allir aðilar stilli saman strengi. Varhugavert sé fyrir verkalýðshreyfinguna að líta aðeins til hagnaðartalna stærstu skráðu fyrirtækja landsins, hagkerfið sé ekki byggt upp í kringum þau heldur minni fyrirtæki þar sem annar veruleiki blasi við, m.a. vegna mikils aukins launakostnaðar síðustu árin.Tali gegn betri vitund.

Arðsemin hefur verið vandamál

Í liðinni viku kom í ljós að viðskiptabankarnir þrír, Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki höfðu skilað um 80 milljarða hagnaði á liðnu ári. Hörður segir að það sé ágæt útkoma fyrir bankana en að vandinn á fyrri árum hafi einmitt verið sá að arðsemi af starfsemi bankanna hafi ekki staðist samanburð við aðra banka á Norðurlöndum. Ljóst sé að tekjurnar nú komi ekki af okurlánastarfsemi eða auknum umsvifum á húsnæðismarkaði heldur þóknanatekjum og jákvæðum virðisbreytingum.

Tali um hug sinn þvert

Spurðir út í hugmyndir Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra um að leggja aukinn bankaskatt á fyrirtækin ef þeir skili ekki hluta af arðsemi sinni aftur til heimilanna í landinu, segja þeir báðir að tillögur hennar séu ótrúverðugar. Fullyrðir Gísli Freyr beinlínis að hún geti ekki haft raunverulega trú á að þessar tillögur muni skila nokkru. Spurður út í viðbrögð Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion banka, sem brást jákvætt við hugmyndum Lilju, segir Hörður að þau beri helst vott um að þungavigtarfólk á fjármálamarkaði hafi litla trú á að raunverulegur hljómgrunnur sé fyrir málflutningi ráðherrans.