Peking Snorri Einarsson í liðakeppni sprettgöngunnar í gær.
Peking Snorri Einarsson í liðakeppni sprettgöngunnar í gær. — AFP
Skíðagöngumennirnir Isak Stianson Pedersen og Snorri Einarsson höfnuðu í 20. sæti af 25 liðum í liðakeppni í sprettgöngu á Vetrarólympíuleikunum í Peking í gærmorgun.

Skíðagöngumennirnir Isak Stianson Pedersen og Snorri Einarsson höfnuðu í 20. sæti af 25 liðum í liðakeppni í sprettgöngu á Vetrarólympíuleikunum í Peking í gærmorgun.

Þeir komu í mark á tímanum 21:05,66 mínútum sem var tuttugasti besti tími undankeppninnar en dugði þeim ekki til þess að komast áfram í úrslitin.

Snorri gekk fyrsta, þriðja og fimmta hlutann á meðan Isak gekk annan, fjórða og sjötta hlutann. Þeir urðu í tíunda sæti af tólf í seinni riðli undankeppninnar.

Ítalía, Svíþjóð, Sviss, Austurríki, Rússland og Bandaríkin urðu í sex efstu sætum riðilsins og komust í úrslitin. Isak og Snorri voru tæpum 54 sekúndum á eftir bandaríska liðinu og því talsvert langt frá því að komast áfram.

Úrslitin fóru síðan fram í kjölfarið og þar voru það Erik Valnes og Johannes Klæbo sem voru fljótastir og tryggðu Norðmönnum enn ein gullverðlaunin á þessum leikum. Þeir gengu á 19:22,99 mínútum og voru tæpum þremur sekúndum á undan Finnum sem fengu silfrið og rúmum fjórum sekúndum á undan Rússum sem hrepptu bronsverðlaunin. Noregur er þá kominn með 13 gull á leikunum, Þýskaland 10, Bandaríkin 8 og Kína 7.