KA gerði góða ferð í Garðabæ í gærkvöld og lagði þar Stjörnuna að velli, 27:25, í sextán liða úrslitum bikarkeppni karla í handknattleik.
Patrekur Stefánsson var markahæstur hjá KA með sex mörk þó hann fengi rauða spjaldið um miðjan síðari hálfleik. Ólafur Gústafsson skoraði fimm mörk og Bruno Bernat varði 18 skot. Tandri Már Konráðsson og Björgvin Hólmgeirsson skoruðu sex mörk hvor fyrir Stjörnuna.
Valsmenn lentu í miklum vandræðum á Hlíðarenda með HK sem komst tvisvar tveimur mörkum yfir um miðjan síðari hálfleik. Valur var sterkari á endasprettinum og vann 31:29. Valur mætir Víkingi sem vann Vængi Júpíters, 31:19.
Arnór Snær Óskarsson skoraði 9 mörk fyrir Val og Vignir Stefánsson 5 en Hjörtur Ingi Halldórsson skoraði 7 mörk fyrir HK.
*Leikjum Gróttu – Hauka og ÍR – Selfoss var ekki lokið þegar blaðið fór í prentun. Sjá mbl.is/sport/handbolti.