Axel Arnar Nikulásson fæddist 2. júní 1962. Hann lést 21. janúar 2022.

Útför hans fór fram 7. febrúar 2022.

Við kveðjum nú kæran vin og samstarfsfélaga, Axel Nikulásson. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vera samferða honum í fjögur ár í sendiráði Íslands í London og svo aftur um stund í utanríkisráðuneytinu á Rauðarárstígnum.

Mín allra fyrsta minning um Axel var þegar ég, nýgræðingurinn og enn í námi, hafði verið beðin að skjótast til að taka á móti honum og fjölskyldunni í nýjum húsakynnum þegar þau fluttu til Bretlands frá Kína. Ég kom mér vel fyrir á milli stórra stafla af flutningskössum en eitthvað hefur mér leiðst biðin því ég veiddi gamlan reyfara upp úr bókakassa og komst ansi langt með lesturinn. Í dyragættinni blasti svo skyndilega við mér stór, mikill og að því er virtist nokkuð brúnaþungur maður. Umbúðirnar segja ekki alla söguna enda kom fljótt í ljós að stutt var í stríðnislegt bros og mikla ljúfmennsku og urðum við góðir mátar. Í London fundum við fljótt að þarna var kominn góður og traustur liðsmaður í teymið, sem sinnti verkefnum sínum af alúð og fagmennsku fram í fingurgóma. Axel hafði komið víða við á ferlinum og gat sótt úr reynslubanka sínum frá fyrri störfum hjá lögreglunni, í körfuboltanum og við sögukennslu. Það kom sér einstaklega vel á Ólympíuleikunum 2012 þegar hann gegndi hlutverki fulltrúa sendiráðsins gagnvart ÍSÍ og skipuleggjendum leikanna. Ekkert verkefni var of smátt eða ómerkilegt, hvort sem það var að redda íþróttasokkum, skipuleggja Íslendingabar fyrir gesti sem ekki náðu miðum á leikana eða bjarga strandaglópum með glötuð vegabréf.

Axel varð ein mín helsta fyrirmynd í starfi og duga þessi skrif varla til að lýsa nægilega vel þeim frábæra manni sem hann hafði að geyma. Hann var hörkuduglegur og afkastamikill kollegi, vel lesinn, lífsglaður og afar hnyttinn í tilsvörum, rífandi skemmtilegur, tók sjálfan sig ekki of hátíðlega, mikill fjölskyldumaður og voru hann og Guðný höfðingjar heim að sækja. Axel gæfi sennilega lítið fyrir lofræðu af þessu tagi um sjálfan sig en lítillæti einkenndi hann einmitt svo vel og sú sérstaka geta að lyfta samferðafólki sínu upp, hvar sem hann var staddur. Við Axel var hægt að ræða heima og geima, hvort sem það voru heimsmálin, ljóðin hans Káins, reyfarar um þjáða lögreglumenn í Ystad, eða skiptast á fyndnum tilvitnunum úr The Big Lebowski með tilheyrandi hlátrasköllum. Hann kom til dyranna eins og hann var klæddur og voru þær ætíð opnar fyrir nýgræðingnum, sem oftar en ekki þurfti á góðum ráðum að halda.

Ég verð ævinlega þakklát fyrir vináttu og samvinnu okkar Axels í gegnum tíðina og votta Guðnýju, Fríðu, Agli, Bjargeyju og öðrum aðstandendum mína innilegustu samúð. Minning um einstakan mann lifir.

Kristín Halla Kristinsdóttir.