Blönduós Gagnaver Borealis Data Center bætir við sig verkefnum.
Blönduós Gagnaver Borealis Data Center bætir við sig verkefnum. — Morgunblaðið/Jón Sigurðsson
Borealis Data Center og ítalska fyrirtækið Leaf Space hafa gert samning sem felst í hýsingu og rekstri á búnaði fyrir gervitunglafjarskipti.

Borealis Data Center og ítalska fyrirtækið Leaf Space hafa gert samning sem felst í hýsingu og rekstri á búnaði fyrir gervitunglafjarskipti. Um er að ræða samskiptabúnað, loftnetastöð og annan tæknibúnað sem sinnir móttöku og meðhöndlun gagna frá gervitunglum á sporbraut um jörðu. Gervihnattastöðin er staðsett við gagnaver Borealis Data Center á Blönduósi þar sem allur búnaður er hýstur.

Leaf Space sérhæfir sig í samskiptum við gervihnetti og þjónustar fyrirtæki sem þurfa aðgengi að gervihnöttum á sporbaug um jörðu.

Gervihnettir á norðurslóðum

Lausn Leaf Space á Blönduósi er hönnuð með það í huga að þjónusta gervihnetti á norðurslóðum. Stöðin er hluti af neti Leaf Space og þéttir útbreiðslusvæðið á norðurhveli jarðar og lágmarkar biðtíma gagna frá gervihnöttum í náinni samvinnu við Borealis Data Center, segir í fréttatilkynningu.

Borealis Data Center rekur tvö gagnaver hér á landi, á Blönduósi og Fitjum í Reykjanesbæ, með áherslu á sjálfbæra gagnaversþjónustu. Viðskiptavinir félagsins eru fyrst og fremst erlend fyrirtæki sem leggja ríka áherslu á að lágmarka kolefnisfótspor af starfsemi sinni.