Rannsókn Gréta Bergrún fær sér kaffibolla á heimili sínu á Þórshöfn en eldhúsin geta oft verið vettvangur sagnastunda úr nærsamfélaginu.
Rannsókn Gréta Bergrún fær sér kaffibolla á heimili sínu á Þórshöfn en eldhúsin geta oft verið vettvangur sagnastunda úr nærsamfélaginu. — Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Líney Sigurðardóttir Þórshöfn Slúður og áhrif þess urðu óvænt rauður þráður í doktorsrannsókn Grétu Bergrúnar Jóhannesdóttur, sem hefur vakið töluverða athygli.

Viðtal

Líney Sigurðardóttir

Þórshöfn

Slúður og áhrif þess urðu óvænt rauður þráður í doktorsrannsókn Grétu Bergrúnar Jóhannesdóttur, sem hefur vakið töluverða athygli.

Gréta býr á Þórshöfn á Langanesi og stundar doktorsnám við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri með byggðafræði sem undirgrein. Nýleg rannsókn hennar er hluti af doktorsverkefninu en hún fjallar um áhrif nærsamfélagsins á ungar konur í sjávarbyggðum. Þar voru margir áhrifaþættir skoðaðir en einn þeirra kom óvænt sterkur inn, slúðrið.

„Í doktorsnámi mínu tók ég þátt í verkefni Byggðastofnunar um búferlaflutninga á landsbyggðinni, Byggðafesta og búferlaflutningar, og rannsókn mín átti upphaflega að fjalla um áhrif samfélagsins á ungar konur í sjávarbyggðum. Í búferlakönnuninni var ein spurning á þá leið hvort slúður hefði áhrif á líf þitt og búsetu og þessi þáttur kom svo afgerandi og marktækur út að áhugavert varð að skoða hann betur,“ segir Gréta Bergrún sem fann þarna marktæka tengingu á milli búferlaáætlana og slúðurs.

Slúðrið varð því óvænt aðalfókusinn í rannsókn hennar.

Rannsóknin náði til 56 þorpa

Gréta var með 18 þorp í sínum markhópi í búferlarannsókninni, litlar sjávarbyggðir með íbúafjölda í kringum 100-500 í hverju þorpi en alls var heildarrannsóknin send í 56 þorp.

„Ég er búin að fara bæði á Austfirði og Vestfirði en má ekki taka viðtöl í minni heimabyggð,“ segir Gréta og bætir við að hún hafi fengið mjög jákvæð viðbrögð, fólki finnst þetta áhugavert efni og vill vita meira. Ótrúlega margir tengja við þennan þátt, slúðrið og áhrif þess á fólk og búsetu. Fyrirlestrar Grétu hafa fengið jákvæð viðbrögð og töluverða athygli. Eitt af því sem er svo sterkt við rannsóknina og mörgum þykir áhugavert, er að hún sjálf er íbúi í sjávarþorpi og spyr þá öðruvísi þar sem hún er úr þessum jarðvegi. „Já, umhverfið hefur vissulega áhrif á mig sem spyrjanda en ég held að það sé bara jákvætt,“ segir Gréta. „Ég þekki líka á eigin skinni sögur Gróu á Leiti eins og fleiri ungar konur í sjávarþorpum, einnig hef ég verið skemmtiefni þorpsbúa á þorrablótum en hef ekki tekið það nærri mér.“

Slúður er félagslegt hugtak af valdi

„Það er mikið valdfæði í slúðrinu og það er t.d. hluti af vinnustaðaeinelti. Við höfum áttað okkur betur á eðli og virkni þessa valds sem felst í slúðrinu svo vissulega hefur rannsókn eins og þessi skilað þekkingu sem hefur yfirfærslugildi á fleiri staði en lítil samfélög, enda er alls staðar slúðrað þar sem fólk kemur saman. Rannsóknin kemur einnig í kjölfarið á metoo-byltingunni og umræðan er að opnast. Miklar breytingar hafi orðið í þjóðfélaginu og ýmis stór mál í gangi. Áður fyrr ráðlögðu almannatenglar valdamiklu fólki gjarnan að þegja af sér óþægileg málefni sem hvern annan kjaftagang en nú er ekki lengur hægt að afskrifa alvarlega hluti sem slúður. Það gæti kannski hafa komið öðruvísi út ef þetta verkefni hefði verið unnið um það bil fimm árum fyrr,“ segir Gréta.

Konur lenda oftar í kjaftamyllunni

Hún nefnir einnig drusluskömmun, þessa þekktu umræðu um konur og þeirra hegðun. „Það hefur alltaf áhrif á konur að lenda í kjaftamyllunni, þær verða fyrir öðruvísi kjaftagangi en karlmenn, þó vissulega upplifi þeir einnig slúður, en mín rannsókn snýst um áhrif slúðurs á kvenfólk, þær eru frekar drusluskammaðar. Þar virkar drusluskömmunin sem félagsleg stjórnun á þær að vissu leyti og takmarkar frelsi þeirra. Það hefur einnig komið fram í viðtölunum að ef einhleyp kona á vingott við giftan mann þá er hún nefnd hjónadjöfull þó í raun sé sá sem brýtur af sér í hjónabandinu hjónadjöfullinn en ekki hinn aðilinn.“

Í viðtölunum var einnig spurt um uppnefni og fram kom að minna er nú um niðrandi uppnefni. Gömul uppnefni lifa þó og bíta alltaf hjá einhverjum, t.d. ef konan flytur aftur heim í sjávarplássið eftir áratugi, þá er það kannski grafið upp og hvíslað um þannig uppnefni með kynferðislegri skírskotun, þetta bítur alltaf hjá einhverjum og afkomendur heyra það jafnvel. Þessu þarf að breyta og hætta niðrandi umræðu, t.d. um einhleypar konur sem stunda sitt ástalíf.

„Þetta átt þú að vita, doktor í slúðri“

Hin eiginlega rannsókn sem byrjaði í janúar 2019 fjallaði upphaflega um samfélagsáhrif á ungar konur en snerist upp í það að áhrif slúðurs urðu rauði þráðurinn í málefninu.

„Það er samt langt frá því að ég viti meira um bæjarslúður hér en hver annar, þó vinir mínir hafi stundum nefnt að sem doktor í slúðri þá eigi ég að vita um þessi eða hin málin í bænum,“ segir Gréta hlæjandi og hefur góðan húmor fyrir nafnbótinni. Hún nefnir einnig að til sé einskonar jákvæð útgáfa af slúðri eða upplýsingakerfi í litlum bæjarfélögum: „Nálægðin er mikil og umhyggja alltaf til staðar ef eitthvað kemur upp á, hér er engum sama ef einhver á um sárt að binda. Það er gott að búa í litlu samfélagi og ég myndi kjósa það sem fyrsta val, strákarnir mínir lifa líka hér eins og blómi í eggi.“

Sjálfstæð ung móðir með áhuga á kynjafræði

Gréta á að baki fjölbreyttan náms- og starfsferil og er mjög virk í samfélaginu á Þórshöfn, þar sem hún býr með tveimur ungum sonum sínum en dóttirin er flutt að heiman.

Hún var að verða 16 ára þegar hún eignaðist dótturina og segir að eflaust hafi það verið vatn á slúðurmyllur þó hún hafi ekki sjálf upplifað það en líklega hafi foreldrar hennar gert það. Hún missti móður sína ung að árum, varð snemma sjálfstæð og með ákveðnar skoðanir.

Að loknum grunnskóla lá leiðin til Akureyrar í framhaldsnám þar sem Gréta lauk stúdentsprófi á listnámsbraut frá Verkmenntaskólanum og síðan BA í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri en hún vann um tíma sem fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu.

Jafnréttismál hafa alltaf verið Grétu hugleikin og slík mál voru oft í umræðu á æskuheimili hennar, Gunnarsstöðum í Þistilfirði. Kynjafræði heillaði hana svo Lundur í Svíþjóð var næsti áfangastaður. Hún flutti þangað með ungri dóttur sinni og lauk meistaranámi í kynjafræði. Í Svíþjóð líkaði Grétu vel en um þetta leyti bauðst henni vinna hjá Þekkingarneti Þingeyinga svo hún flutti heim til Þórshafnar og starfaði í ellefu ár hjá Þekkingarnetinu, allt til ársins 2020. Hún segir að hugurinn hafi verið farinn að leita að frekari áskorunum og þá kom doktorsnámið til.

„Eftir að hafa búið sem ung kona og móðir í sjávarþorpi þá fannst mér þetta verkefni um búferlaflutninga mjög áhugavert. Það er margt sem þarf að skoða og breyta hvað varðar jafnréttismál og lengi hefur blundað í mér að taka jafnréttisstöðu í þessum litlu byggðarlögum. Ég ákvað að taka þátt og sækja um styrk til doktorsnáms og fékk byrjunarstyrk hjá Jafnréttissjóði árið 2018 og þá varð ekki aftur snúið. Þetta er nú orðin fjögurra ára vegferð og ég reikna með að geta lokið námi næsta vetur því ég fékk styrk þetta ár frá Rannís og er því fulllaunuð á síðasta doktorsári mínu.“

Gréta er núna stundakennari við Háskólann á Akureyri þar sem hún kennir félagsfræði sinn annan vetur en næsta vetur mun hún helga sig því að ljúka doktorsnáminu.

Hún er jafnframt með mörg járn í eldinum, leggur mikið af mörkum til samfélagsins og hefur áhuga á því. Hún lenti í sóttkví vorið 2020 og stofnaði þá facebook-síðu sem nefnist Boðinn og flytur þar fréttir og myndir úr nærsamfélagi sínu og hefur þessum nýja miðli verið vel tekið.

Fjarvinna, fundir og ferðalög

Það hefur alltaf verið nóg að gera hjá Grétu og fjarvinna hennar kallar oft á fundi og ferðalög. Drengirnir hennar tveir eru á grunnskólaaldri og eiga sín áhugamál sem Gréta tekur fullan þátt í.

„Fótboltinn er í fyrsta sæti hjá þeim svo við þurfum oft að þeytast landshorna á milli í fótboltaferðir,“ segir Gréta og bætir við að vissulega hefði hún oft kosið að geta verið meira heima með drengjunum en gæðastundirnar eru margar og betra að horfa frekar á gæði en magn. „Ég á líka góða fjölskyldu sem stendur með okkur bakkar upp þegar þarf, það hlýtur að vera hverju barni hollt að moka smá skít í sveitinni hjá frænku eða fá ofgnótt af hafragraut hjá afa,“ segir hún kímin. Hún segist oft hafa orðið vör við athugasemdir um að hún væri mikið í burtu og hver hugsaði þá um börnin en þáverandi maki hennar var sjómaður og vinna hennar hjá Þekkingarnetinu útheimti oft ferðalög, svo Gréta ákvað að gera litla rannsókn:

„Þetta rak mig til að kanna málið frekar en pirrast bara yfir þessu, eiginlega út frá jafnréttisstöðu, svo ég tók mig til eitt árið og setti upp excel-skjal fyrir heilt ár varðandi viðveru okkar og komst að því að faðirinn var þrefalt meira að heiman en ég en hafði ekki í eitt einasta skipti fengið athugasemdir við sína fjarveru frá heimilinu. En umræða og viðhorf eru því miður enn of neikvæð í garð kvenna þegar horft er til svona hluta,“ segir Gréta og telur afar mikilvægt að svona viðhorf breytist til að lítil samfélög séu búsetuvænni kostur fyrir ungar mæður sem vilja einnig sinna sínum starfsframa.

Framtíðarstarfið opin bók

Hvað tekur svo við hjá þessari fjölhæfu konu sem er á lokaspretti doktorsnámsins?

„Ég hef hingað til verið heppin með atvinnu sem er fjarvinna og vildi gjarnan geta haldið því áfram ef kostur er,“ segir Gréta bjartsýn. Hún er enda með fjölbreyttan grunn; fjölmiðla, hönnun, kennslu, og verkefnastjórnun svo eitthvað sé nefnt. Gréta telur það einnig til styrkleika að hafa alist upp í sveit og unnið í fiski þó fræðastörfin eigi hug hennar allan nú í seinni tíð.

Kynjafræðingur
» Gréta Bergrún Jóhannesdóttir er fædd og uppalin á Gunnarsstöðum í Þistilfirði, yngst fjögurra systkina. Býr á Þórshöfn á Langanesi með tveimur sonum, 10 og 12 ára.

» Nám og störf: Kynjafræðingur frá Lund University í Svíþjóð og stundar nú doktorsnám í félagsfræði við Háskólann á Akureyri.
» Lengst af unnið við byggðarannsóknir hjá Þekkingarneti Þingeyinga, auk þess að fást við eigin verkefni í hönnun, fjölmiðlun og samfélagsvinnu ýmiss konar. Hönnun hennar nefnist: Berg-íslensk hönnun úr heimabyggð.