Hannes Karlsson: Afhverju er hér enginn öflugur samfélagsbanki? Vantar ekki mótvægisafl?
Hannes Karlsson: Afhverju er hér enginn öflugur samfélagsbanki? Vantar ekki mótvægisafl? — Mynd: SkaptiHallgrímsson
„Samvinnufélagsformið hefur markvisst verið talað niður á Íslandi.“

Samband íslenskra samvinnufélaga (Sambandið, SÍS) var þegar á heildina er litið umsvifamesta atvinnufyrirtæki landsins á síðustu öld. Nú hefur það að vísu stjórn og heimilisfang á Akureyri en hefur ekki með höndum neina eiginlega atvinnustarfsemi. „Segja má að við séum á hliðarlínunni,“ segir Hannes Karlsson, stjórnarformaður SÍS. „Við höldum til haga sögu og munu m en getum líka verið samstarfsvettvangur og regnhlíf fyrir þau kaupfélög og samvinnufélög sem í landinu eru, telji þau sér hag af því að vera undir henni.“

Líklega eru starfandi í dag um 32 samvinnufélög sem eitthvað kveður að. Þar af eru sex kaupfélög. Kaupfélögin voru flest um 60 talsins. Þau sem eftir standa eru öll burðug fyrirtæki með framtíðarmöguleika þótt ólík séu innbyrðis. Meðal annarra samvinnufélaga má nefna til dæmis Hreyfil og Búseta en auk þess er í landinu margvísleg starfsemi í félagslegri eigu, ýmist í formi sjálfseignarstofnana eða félagasamtaka.

Fleiri rekstrarform möguleg

„Samvinnufélagsformið hefur markvisst verið talað niður á Íslandi,“ segir Hannes. „Það er í hrópandi mótsögn við þá staðreynd, að víða um heiminn, í Evrópu, Bandaríkjunum og í Afríku til að mynda, er samvinnuhreyfingin í sókn. Það er eins og tekin hafi verið um það ákvörðun í ráðuneytum og háskólum að hlutafélög og einkahlutafélög séu einu rekstrarformin sem komi til greina. Líklega má rekja þetta til þess að þrot Sambandsins á sínum tíma var áfall sem skildi eftir sig slæma ímynd. En skýringin á því var ekki rekstrarformið heldur óeining um stefnu og ákvarðanir sem ekki stóðust nýjar forsendur í efnahagslífinu.“

Hannes minnir á að fyrsti kaupfélagsstjórinn, Jakob Hálfdánarson, hafi sjálfur rekið einkaverslun við hlið kaupfélagsins, enda byrjaði Kaupfélag Þingeyinga fyrst eingöngu sem pöntunarfélag. Í hugum brautryðjenda samvinnustarfs, bæði í Þingeyjarsýslum og á Suðurlandi, var það „lífsþörf mannsins“ sem kallaði fram „viðskiptaþörf manna og samtakavilja“. – „Hagnaðarvon einstaklinganna mun traustasta félagsbandið í almennum samtökum,“ er haft eftir Jakobi fyrir 140 árum.

Hvar er „lífsþörfin“ fyrir hendi?

Innan samvinnufélaga ræður fjármagnið ekki úrslitum, þar hefur hver félagsmaður eitt atkvæði og viðskipti milli félagsmanna og félagsins sjálfs með gagnkvæmum ábata eru með einhverjum hætti kjarninn. „Mér hefur fundist,“ segir Hannes, „að löggjöfin um samvinnufélög sé hamlandi og kannski með öllu óþörf. Það ætti að nægja að hafa hér almennan félagarétt en síðan væri rekstrarformið og aðferðir til þess að deila ábyrgð og afrakstri eins og hverjum líkaði innan marka reglna og laga um rekstur. Þessu mættu háttvirtir þingmenn gjarnan huga að.“

Þá er spurning hvort „lífsþörf“ sé fyrir samvinnufélög á Íslandi í dag. Hannes bendir á að bændur á um 40 bæjum í Suður-Þingeyjarsýslu hafi nýverið sameinast um kaup á áburði til að ná niður verði eftir rokhækkanir síðustu mánaða. Þessi hópur mun ætla sér að standa saman að kaupum á ýmsu er snýr að búrekstrinum. „Kannski eru Þingeyingar enn á ný að marka tímamót,“ segir Hannes. „Þegar litast er um í þjóðfélaginu er margt sem stingur í augun. Af hverju til dæmis unir fólk við þau vaxtakjör sem bankarnir bjóða? Af hverju lætur fólk það líða um dal og hól að bankarnir reka sig ekki lengur á vaxtamun, þótt hann sé oftast ríflegur, en byggja reksturinn á þjónustugjöldum? Af hverju er hér enginn öflugur samfélagsbanki? Vantar ekki mótvægisafl? Við þessum spurningum hef ég ekki svar, en á þessu afmælisári verður ný spurning sífellt áleitnari: Hvernig hefðu Þingeyingarnir brugðist við?“

Verðmæt þekking í þróun

Hinn umsvifamikli atvinnurekstur Sambandsins og kaupfélaganna hefur með ýmsum hætti fengið framhaldslíf. Þannig er fyrirtækið Grófargil, sem er með starfsemi bæði í Reykjavík og á Akureyri, sprottið upp úr tölvudeild KEA – Kaupfélags Eyfirðinga Akureyri. Það er í meirihlutaeigu fjögurra starfsmanna, m.a. Hannesar, en Samkaup og KEA eru bakhjarlar Grófargils. „Við þjónum meðal annars öllum 65 verslunum Samkaupa um land allt með pappírslausum rafrænum vörukaupaskráningum í svonefndu EDI-kerfi, sem eykur hraða, öryggi og áreiðanleika í öllum viðskiptum. Í þessu fyrirtæki hefur verið þróuð verðmæt þekking sem nýtist víða í atvinnulífinu,“ segir Hannes að lokum.