Óli Grétar Blöndal Sveinsson fæddist 17. febrúar 1972 á Landspítalanum í Reykjavík. Þegar hann var nokkurra mánaða gamall flutti fjölskylda hans í vinnubúðir við Lagarfossvirkjun og dvaldi þar í tvö ár meðan faðir hans vann sem staðarstjóri verktakans við byggingu virkjunarinnar. Eftir það flutti fjölskyldan aftur til Reykjavíkur og við fjögurra ára aldurinn til Egilsstaða, þar sem hann ólst upp. „Eitt er mér minnisstætt, þegar ég átta ára gamall var sendur á Siglufjörð um sumarið til afa og ömmu. Eitthvað byrjaði það brösuglega sem varð til þess að ég ákvað að strjúka til Egilsstaða. Það gekk hins vegar ekki vel, þar sem ég gekk inn Siglufjörðinn í stað þess að ganga út fjörðinn. En ástæðan fyrir þessari slæmu byrjun þarna á Siglufirði var væntanlega sú að ég var vanur miklu frjálsræði þegar ég var á Eiðum hjá ömmu minni í föðurætt.
Ég var mjög upptekinn sem barn og unglingur og átti fjöldamörg áhugamál, auk þess sem fjölskyldan var dugleg að taka þátt í heyskap og réttum inni í Fljótsdal og ég síðar hjá vini mínum á Finnsstöðum í Eiðaþinghá. Fyrir utan fótboltann stundaði ég bæði skák og siglingar. Ég var Austurlandsmeistari í skólaskák nokkrum sinnum og náði það góðum árangri í siglingamótum að ég var eitt sinn sendur með unglingaliði Íslands til Danmerkur til að keppa á kænum. Síðar meir var ég einnig í liði Íslands sem tók þátt í tvíliðakeppni á stærri seglbátum á Írlandi 1995. Ég var einnig mikið í fjallamennsku og klifri og var m.a. formaður unglingadeildar Landsbjargar á Egilsstöðum um tíma.“
Óli Grétar gekk í Grunnskólann og Menntaskólann á Egilsstöðum. Eftir það fór hann til Konstanz í Þýskalandi í eitt ár og lærði þýsku, eðlisfræði og stærðfræði. Eftir að hafa þurft að fara í skurðaðgerð á ökkla ákvað hann að klára háskólanámið á Íslandi og útskrifaðist 1995 með gráðu í eðlisfræði frá Háskóla Íslands. Eftir árs hlé, þar sem hann vann sem kennari í eðlisfræði og stærðfræði við Menntaskólann á Egilsstöðum, þá fór hann í framhaldsnám í vatnaverkfræði til Fort Collins í Colorado þar sem hann lauk MSc-prófi árið 1998 og PhD-prófi árið 2002. „Þessi ár voru einstaklega góð enda náttúran, skíðasvæðin og veðurfar í Colorado með besta móti og fékk ég reglulega fjölskyldumeðlimi í heimsókn. Árið 2001 kynntist ég eiginkonu minni Anne-Andrée frá Kanada í brúðkaupi bróður hennar í Acapulco í Mexíkó, en bróðir hennar var skólafélagi minn frá Colorado. Við fluttum síðan til New York árið 2002 þar sem ég var nýdoktor hjá Columbia University að vinna að verkefni fyrir Hydro Quebec í Kanada og síðan árið 2004 til Íslands.
Ég byrjaði ungur að vinna sem mælingamaður á Verkfræðistofu Austurlands hjá pabba og svo í níu sumur frá og með bílprófsaldri hjá Vatnamælingum Orkustofnunar með aðsetur hjá Rarik á Egilsstöðum. Þessi vinna var góður skóli og oft mikil ævintýri sem fylgdu þessum mælingaverkefnum. Árið 2004 hóf ég störf hjá Landsvirkjun og hef verið þar í ýmsum stjórnendastöðum og lengst af sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs frá 2010 til 2021. Núna er ég forstöðumaður þróunar vatnsafls hjá Landsvirkjun. Þessi tími hefur verið mjög ánægjulegur og krefjandi og hef ég komið að undirbúningi og byggingu á Kárahnjúkavirkjun, Búðarhálsvirkjun, tveimur vindmyllum við Búrfell, Þeistareykjavirkjun og stækkun Búrfellsvirkjunar.“
Óli Grétar hefur setið í ýmsum stjórnum og er núna m.a. í stjórn Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar og í stjórn og framkvæmdastjórn International Hydropower Association.
„Helstu áhugamál snúa að almennri útivist, veiðum, hlaupum og siglingum og er ég meðlimur í siglingaklúbbnum Ými. Við fjölskyldan erum dugleg að ferðast og fara á skíði og töluvert umstang er oft í kringum íþróttaiðkun krakkanna. Þar sem við búum ekki í næsta nágrenni við fjölskyldur okkar förum við reglulega í frí bæði til Egilsstaða og til Quebec í Kanada.“
Fjölskylda
Eiginkona Óla Grétars er Anne-Andrée Bois, f. 12.3. 1977, grafískur hönnuður. Þau eru búsett í Vesturbænum í Reykjavík. Foreldrar Anne-Andrée: Hjónin André Bois, f. 20.5. 1943, d. 14.11. 2017, lögfræðingur og Suzanne Christine Beauchemin, f. 3.2. 1947, enskukennari. Þau voru búsett í Quebec-borg í Quebec, Kanada, þar sem Suzanne býr enn.Börn Óla Grétars og Anne-Andrée eru Lilja Kristín Óladóttir, f. 2.7. 2009, og Lúkas André Ólason, f. 2.11. 2011.
Systkini Óla Grétars eru Þórarinn Sveinsson, f. 26.6. 1967, verkfræðingur, fjárfestir og tónlistarmaður í Reykjavík; Sveinn Snorri Sveinsson, f. 28.10. 1973, rithöfundur á Egilsstöðum; Rósa Björk Sveinsdóttir, f. 7.5. 1980, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, búsett í Reykjavík.
Foreldrar Óla Grétars eru hjónin Sveinn Þórarinsson, f. 23.7. 1940, verkfræðingur á Egilsstöðum, og Ólöf Birna Blöndal, f. 11.11. 1942, píanókennari og myndlistarmaður. Þau eru búsett á Egilsstöðum.