Otto Tulinius fæddist 18. mars 1939. Hann lést 15. janúar 2022.

Útför Ottos fór fram 4. febrúar 2022.

Elsku afi. Það er erfitt að hugsa til þess að þú sért farinn þótt þú hafir í raun lagt af stað fyrir þó nokkru. Mér fannst ég alltaf vera yngsta barnið þitt og finnst það enn í dag enda bjuggum við mamma hjá ykkur til að byrja með. Ég hef alla tíð litið svo mikið upp til þín enda ekki annað hægt. Þú varst alltaf til staðar og alltaf til í að hjálpa, sama hvað það var. Allt frá því að dansa með mig á tánum eða gefa mér ís þegar mamma eða amma voru búnar að segja nei, yfir í að kenna mér að bera virðingu fyrir peningum, sjálfri mér og öllum í kringum mig. Fyrir mér varstu alltaf svo virðulegur, en líka sá allra klárasti, heiðarlegasti og besti. Þú kenndir mér að standa á mínu og mikilvægi þess að vera heiðarleg.

Ég man svo vel eftir því þegar ég spurði þig hvort þú værir til í að leiða mig inn kirkjugólfið þegar við Sævar giftum okkur. Auðvitað fannst þér það meira en sjálfsagt og ég var svo montin að hafa þig með mér í þessu. Þú sagðir við mig á leiðinni í kirkjuna „Adda mín, þú veist svo að hjónaband á að vera gott í byrjun og batna upp frá því.“ Það er svo mikið til í þessu en þetta var bara eitt af svo ótalmörgum góðum ráðum sem þú hefur gefið mér í gegnum tíðina. Það var bara alltaf hægt að stóla á þig, ekki bara ég heldur allir, alltaf.

Mér fannst alltaf svo fyndið þegar ég kom í heimsókn í Birkilundinn, að þú varst oftast á einhverjum þeytingi. Þú settist kannski hjá okkur í smástund en svo varstu farinn að brasa eitthvað. Alltaf með einhver verkefni eða í reddingum, þú stoppaðir aldrei lengi á sama stað. Svo þegar þú hættir að vinna og seldir Kæliverk hélt ég að nú færi eitthvað að róast hjá þér. Næst þegar ég kom í heimsókn varstu búinn að stofna fyrirtæki í bílskúrnum.

Elsku afi, takk fyrir allar ráðleggingarnar, öll knúsin, allan ísinn, allar snjósleðaferðirnar og öll skiptin sem þú dansaðir með mig á tánum. Takk fyrir að vera pabbi minn.

Ég veit að þú hefur það gott í sumarlandinu hjá ömmu Höllu.

Þangað til næst.

Þín

Agnes Tulinius (Adda rófa).