Lilja Hulda Auðunsdóttir fæddist 27. maí 1944. Hún lést 15. janúar 2022.
Lilja Hulda var jarðsungin 4. febrúar 2022.
Elsku mamma mín, mikið á ég nú eftir að sakna þín. Ég veit ekki hversu oft ég hef ætlað mér að hringja í þig í vikunni til að segja þér eitthvað eða spyrja þig ráða. Nú sit ég hérna í eldhúsinu þínu og horfi út á Norðfjörðinn sem var þér svo kær og fjallahringinn sem umvefur fallega bæinn okkar.
Þú varst einstök kona með svo fallegt hjartalag og fallegt bros, þú varst glaðlynd og mikil félagsvera og alltaf til í eitthvað skemmtilegt. Þú vildir alltaf líta vel út, klæddir þig smart og þér fannst skipta máli að hárið á þér væri fínt og flott. Þú varst ein af fyrirmyndum mínum í lífinu og styrkur þinn og æðruleysi kom svo berlega í ljós í veikindum þínum og þá ekki síst seinustu vikuna sem þú dvaldir á spítalanum. Þar áttir þú samtal við okkur öll og lagðir línurnar fyrir útförina þína. Við áttum yndislegan tíma með þér því að við vissum að hverju stefndi. Við vildum taka inn sérhvert orð, bros, tár og andardrátt. Ég verð ævinlega þakklát fyrir þennan tíma og það verður gott að ylja sér við þær minningar þegar söknuðurinn og sorgin lætur á sér kræla.
Mamma mín, þú varst orðin þreytt og varst tilbúin að fara enda búin að skipuleggja flest sem var í þínu valdi. Þú huggaðir okkur og hughreystir og vildir hafa okkur hjá þér helst allan sólarhringinn en það veitti þér styrk og okkur líka. Þú kvaddir á friðsælan hátt hinn 15. janúar síðastliðinn með okkur börnin þín og Elsu systur þér við hlið, þú varst svo falleg eins og alltaf. Kærar þakkir vil ég send starfsfólki sjúkradeildar Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað fyrir einstaka umhyggju og velvilja, þið eruð einstök og reyndust okkur svo vel.
Elsku mamma, þó að þú sért búin að yfirgefa þessa jarðvist þá veit ég að þú ert alltaf með okkur. Margs er að sakna en líka að þakka. Strákarnir mínir Egill og Kristinn eiga góðar minningar um yndislega ömmu sem var umhugað um velferð þeirra. Elsku mamma, nú er komið að leiðarlokum, við ráðum ekki okkar tíma hér á jörð. Með djúpu þakklæti og mikilli elsku vil ég þakka þér fyrir að standa við hlið mér og allt sem þú varst mér elsku mamma. Guð blessi þig og okkur öll sem syrgjum og söknum. Takk fyrir allt og allt.
Þeir segja mig látna, ég lifi samt
og í ljósinu fæ ég að dafna.
Því ljósi var úthlutað öllum jafnt
og engum bar þar að hafna.
Frá litlu hjarta berst lítil rós,
því lífið ég þurfti að kveðja.
Í sorg og í gleði ég senda mun ljós,
sem að mun ykkur gleðja.
(Höf. ók.)
Kristín.
Besta mamma í heimi eins og ég sagði þér svo oft. Nú ertu farin frá okkur.
Þú varst svo góð mamma og amma.
Ég fékk alltaf að fara mínar leiðir og þú reyndir ekki að stjórnast neitt í mér en varst alltaf til staðar, ég gat alltaf leitað til þín með alla hluti. Þú varst svo dásamlega hreinskilin á svo skemmtilegan hátt. Sem mér fannst dásamlegur eiginleiki.
Þegar ég horfi til baka þá átti ég yndislega æsku með þér.
Þú kvartaðir aldrei yfir nokkrum hlut. Þú varst algjör nagli, mjög dugleg og horfðir glöð fram á veginn með fallega brosið þitt. Þú varst mikil félagsvera og hafðir mjög gaman af að vera innan um skemmtilegt fólk.
Þú hafðir mjög gaman af því að vera fín og áttum við nokkrar búðarferðirnar saman. Þú hugsaðir alltaf vel um útlitið og hárið á þér var alltaf svo fallegt. Þú ætlaðir sko aldrei að verða gráhærð.
Við vorum mjög nánar og heyrðumst nánast daglega og stundum oft á dag. Við ræddum svo margt skemmtilegt eins og drauma, uppskriftir, mat, bakstur, barnabörnin, fiskirí og ekki má gleyma veðrinu. Með alla hluti á hreinu.
Við bjuggum of langt hvor frá annarri en gerðum okkar besta til að hittast eins og færi gafst en síminn reddaði öllu.
Það var alltaf svo gott að koma heim. Þú tókst alltaf svo vel á móti okkur með endalausum veislum. Krakkarnir elskuðu að fara á bryggjuna og veiða, eiga þau svo yndislegar minningar um ömmu Huldu.
Síðasta skiptið sem þú komst til okkar á Akranes var í október. Það var yndislegt fyrir okkur fjölskylduna að fá að hafa þig hjá okkur. Við ræddum marga skemmtilega hluti og þar á meðal um nísku. Hún bað mig sérstaklega um að koma því að hérna að hún hefði ekki verið nísk! Sem ég held að allir geti tekið undir. Þetta var svo ekta mamma. Því er hér með komið á framfæri.
Það var mjög dýrmætur tími sem við fengum með þér á sjúkrahúsinu í Neskaupstað. Bæði mjög skemmtilegur og erfiður. Vil ég þakka yndislegu starfsfólki fyrir mikla hlýju á þessum tíma sem mamma dvaldist þar.
Þú saknaðir pabba alltaf mikið sem fór allt of snemma frá okkur. En ég veit að hann hefur tekið fast utan um þig þegar þú sveifst yfir í Sumarlandið. Nú getið þið farið saman til Parísar eins og þið ætluðuð alltaf að gera.
Við söknum þín svo sárt og erum þakklát fyrir þann tíma sem við höfum fengið að njóta með þér í gegnum þessi ár. Það er alltaf erfitt að kveðja manneskju sem maður elskar svona mikið.
Það á eftir að taka tíma að átta sig á að ekki er hægt að hringja og spjalla. Það er skrítin tilfinning að eiga ekki foreldra.
Við elskum þig endalaust elsku drottningin okkar.
Rán, Fannar, Eir, Snær og Ísey.