Bólusetning Um mánaðamótin verður hætt að bólusetja í Laugardalshöll.
Bólusetning Um mánaðamótin verður hætt að bólusetja í Laugardalshöll. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fram að mánaðamótum verður bólusett gegn Covid-19 í Laugardalshöll. Eftir það verður hægt að leita á heilsugæslur landsins.

Fram að mánaðamótum verður bólusett gegn Covid-19 í Laugardalshöll. Eftir það verður hægt að leita á heilsugæslur landsins.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segir ástæðuna vera að mæting í bólusetningu hafi minnkað á síðustu vikum, nú mæti aðeins í kringum 100 til 150 einstaklingar daglega.

Um þrjú þúsund PCR-sýni voru tekin á Suðurlandsbraut í gær og segir Ragnheiður það vera svipað og undanfarna daga. Því hafi færri verið að mæta í sýnatöku en áður.

Þrír á gjörgæslu

2.489 greindust með kórónuveiruna innanlands í fyrradag og var það metfjöldi. Alls lágu 48 sjúklingar á Landspítala með Covid-19 í gær. Þrír sjúklinganna voru á gjörgæslu en enginn í öndunarvél.

Ekki er ljóst hversu alvarleg veikindi hinna 45 eru. Landspítalinn sér sér aðeins fært að uppfæra upplýsingar um ástæðu innlagna, þ.e. hvort smitaðir sjúklingar hafi verið lagðir inn vegna Covid-19 eða af öðrum ástæðum, á fimmtudögum.

Meðalaldur innlagðra er þó uppgefinn. Nemur hann nú 64 árum.

363 starfsmenn í einangrun

Af þeim, sem lágu inni á Landspítala með Covid-19 á fimmtudag fyrir viku, höfðu færri verið lagðir inn beinlínis vegna sjúkdómsins heldur en þeir sem voru lagðir inn af öðrum orsökum, en síðar reyndust smitaðir.

Innlögnum vegna Covid-19 hefur til þessa farið stöðugt fækkandi, miðað við uppgefna tölfræði undanfarinn mánuð, þó svo að sjúklingum á spítala með kórónuveirusmit hafi fjölgað.

Starfsmenn Landspítala í einangrun voru 363 í gær og hafa þeir aldrei verið fleiri. Fjölgar þeim um fimmtíu á milli daga.