[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Gunnlaugur Valþór Sigurðsson fæddist á Ytra-Hrauni í Landbroti 26. febrúar 1939. Þar ólst hann upp með fjölskyldu sinni og bjó alla tíð. Gunnlaugur lést 8. janúar 2022. Foreldrar hans voru Sigurður Sveinsson, f. 15.6. 1909, d. 14.10. 1995, og Þórdís Ágústsdóttir, f. 26.4. 1908, d. 19.12. 1998. Systkini Gunnlaugs eru: Arnar, f. 19.6. 1935; Birna, f. 5.10. 1936 og Ágústa, f. 2.5. 1944.

Útförin fór fram 22. janúar 2022.

Gunnlaugur, eða Daddi eins og hann var kallaður, fæddist á Ytra-Hrauni í Landbroti og ólst þar upp með fjölskyldu sinni. Að loknu barnaskólaprófi frá Þykkvabæ stundaði Gunnlaugur margvísleg störf til sjávar og sveita. Hann var í mörg ár sjómaður á línu- og netabátum, lengst af frá Hornafirði, en einnig Vestmannaeyjum, Keflavík, Þorlákshöfn og Reykjavík. Gunnlaugur var eftirsóttur beitningamaður, þótti lipur, laginn og handfljótur. Þegar vetrarvertíð lauk fór hann heim að Hrauni og stundaði þar öll almenn bústörf.

Gunnlaugi var margt til lista lagt og var smiður á tré og járn; gerði jafnvel við úr og klukkur, auk þess sem hann sinnti margvíslegum viðgerðum á dráttarvélum og öðrum tækjum og tólum sem tilheyra búskap til sveita. Hann starfaði um tíma við bílaviðgerðir á Kirkjubæjarklaustri hjá Steinþóri Jóhannssyni.

Feðgarnir á Hrauni komu upp heimarafstöð á bænum á árunum 1951-53. Þeir stífluðu Tjarnarlæk, eina af fallegu bergvatnsánum sem koma undan Skaftáreldahrauni. Með því varð til stórt lón sem varð athvarf og heimkynni fjölmargra tegunda andfugla. Þeir steyptu stöðvarhús og með aðstoð Eiríks Björnssonar í Svínadal komu þeir fyrir 6 kW rafstöð sem sá bænum fyrir ljósum og hita í íbúðarhúsi og útihúsum. Rafstöðin og viðhald hennar var eitt af hjartans málum Gunnlaugs. Síðastliðið sumar fylgdist hann af ánægju með því þegar bræðrasynir hans stóðu að endurbótum á heimarafstöðinni.

Lengst af var Gunnlaugur bóndi á Ytra-Hrauni ásamt foreldrum sínum og bróður. Hann lagði sérstaka rækt við fjárbúskap og hlúði vel að skepnunum. Einstaklega haganleg fjárrétt er heima við bæ, hlaðin úr hraungrjóti, byggð á bjargi.

Þeir feðgar á Hrauni höfðu vanið fé sitt á að hafa opinn aðgang að fjárhúsum og gátu því verið vissir um að féð skilaði sér í hús áður en eða um leið og óveður brast á. Gunnlaugur fór jafnan á dráttarvél til að sinna skepnum sínum og hundur hans með honum, hans kæri vinur. Þeir rötuðu betur en GPS-tæki milli hinna fögru gjallhóla með fuglaþúfum sem eru eins og konubrjóst og einkenna landslag í Landbroti. Trúnaður Gunnlaugs við sauðféð var fölskvalaus. Hann hafði glöggt auga fyrir fuglalífi í kringum sig en var uppsigað við mink og ref sem herjuðu á lömb, fugla og sjóbirting í Landbroti.

Það var jafnan gaman að heilsa upp á Gunnlaug þegar komið var að Ytra-Hrauni. Hann var viðræðugóður og vel heima í þjóðmálum. Hafði greinilega lagt rækt við lestur margvíslegra rita.

Fyrir um fjórum árum greindist Gunnlaugur með krabbamein. Hann fékk hvíldarinnlögn á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Klausturhólum sl. haust þar sem hann lést 8. janúar 2022. Bræðrabörn hans sinntu honum mjög vel síðustu dagana.

Við sendum nánustu fjölskyldu Gunnlaugs samúðarkveðjur.

Magnús Guðmundsson.