Valgerður Sigurðardóttir
Valgerður Sigurðardóttir
Eftir Valgerði Sigurðardóttur: "Nú getur þú fundið reiknivél inni á valgerdur.is þar sem þú sérð hvað af sköttunum þínum fer til Reykjavíkurborgar og hvað til ríkisins."

Skuldir Reykjavíkurborgar voru í upphafi kjörtímabilsins 299 milljarðar en nema núna um 400 milljörðum. Skuldirnar hafa vaxið hratt á kjörtímabilinu, samkvæmt áætlun er gert ráð fyrir að þær verði 453 milljarðar árið 2025. En hvað koma þær okkur íbúum Reykjavíkurborgar við? Hvers vegna á okkur ekki að vera sama þegar verið er að gagnrýna meirihlutann fyrir þá miklu skuldasöfnun sem hefur verið á kjörtímabilinu? Vegna þess að við sem búum í Reykjavík erum líka ábyrg fyrir þessum skuldum, því það er okkar að greiða þær niður með sköttum og gjöldum sem sveitarfélagið leggur á okkur. Það er ekki hægt að halda uppi góðu þjónustustigi hjá sveitarfélögum nema fjármál þeirra séu sterk. Sveitarfélag sem safnar skuldum líkt og Reykjavíkurborg hefur gert er ekki sveitarfélag sem á auðveld rekstrarár framundan. Því það kemur jú alltaf að skuldadögum.

Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem innheimtir hámarksútsvar eða 14,52%. Það er því langt frá því að ríkið beri ábyrgð á öllu því sem er tekið af okkur í skatta um hver einustu mánaðamót. Nú getur þú fundið reiknivél inni á valgerdur.is þar sem þú sérð hvað af sköttunum þínum fer til Reykjavíkurborgar og hvað til ríkisins. Ef launaseðlarnir okkar væri þannig settir upp að við myndum geta séð hvað sveitarfélagið sem við búum í tekur af okkur í skatta á mánuði og síðan hvað ríkið er að taka af okkur þá gerðum við eflaust mun meiri kröfur til sveitarfélaganna. Við gerum miklar kröfur um góða löggæslu, betra heilbrigðiskerfi og lægri skatta til ríkisins. Það er hins vegar ekki sama pressa á sveitarfélög, einfaldlega vegna þess að við gerum okkur ekki grein fyrir því hvað við erum að greiða mikið til þeirra og hverjar skyldur þeirra eru. Þessu þarf að breyta. Ef við gætum um hver mánaðamót séð á launaseðlinum hvað fer í skatta til sveitarfélagsins þá væri okkur ekki sama um skuldastöðuna og við myndum gera kröfur í kosningum um lækkun skatta sem sjaldan er gerð í sveitarstjórnarkosningum. Breyting á launaseðlinum okkar myndi verða til þess að við sæjum að ríkið er ekki að taka til sín megnið af því sem er tekið af okkur í skatta. Það er því ótrúlegt að við getum ekki séð þetta svart á hvítu á launaseðlinum. Þetta getur þú hins vegar séð núna á valgerdur.is.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. valgerdur.sigurdardottir@reykjavik.is

Höf.: Valgerði Sigurðardóttur