[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Að stinga niður penna um nokkra bókatitla er nánast ómögulegt verkefni fyrir bókaorma. Mér fallast hendur. Ég er bókaormur, í fjölskyldu bókaorma og ég var alltaf með nefið ofan í bók.

Að stinga niður penna um nokkra bókatitla er nánast ómögulegt verkefni fyrir bókaorma. Mér fallast hendur. Ég er bókaormur, í fjölskyldu bókaorma og ég var alltaf með nefið ofan í bók. Góðu fréttirnar fyrir þennan pistil eru að efnið takmarkar sig sjálft við það að í dag les ég vandræðalega lítið. Já, það komst upp um mig. Tíminn til lestrar virðist fara minnkandi með hverju árinu vegna vinnu, barneigna og öllu því sem manns eigin söguþráður hefur upp á að bjóða.

Það eru nú samt alltaf einhverjar bækur í lestri á náttborðinu. Náttborð fólks geta nefninlega verið hin skemmtilegasta skyndimynd af lífi þeirra. Hjá mér liggja nokkrar nýlega kláraðar bækur, allt of margar hálfnaðar bækur, bækur til að glugga í, vinnutengt efni, barnabækur, snuð og Airpods. Airpods standa fyrir hljóðbækur og hlaðvörp.

Hljóðbækur eru ákveðið svar við tímaleysinu og ég kann alltaf betur og betur að meta þann möguleika að geta stillt hraðann eftir áhuga, efni og athygli. Ég mæli t.d. eindregið með því að hlusta á mjög áhugaverða ævisögu Arnolds Schwarzeneggers lesna af höfundi á tvöföldum hraða. Annars var ég að byrja á Putin's People: How the KGB Took Back Russia and Then eftir Catherine Belton og hún er frábær.

Í nýlega kláraða bunkanum eru bækurnar Invisible Women, Exposing data bias in a world designed for men eftir Caroline Criado Perez sem vekur umhugsun og Rauði þráðurinn eftir Ögmund Jónasson sem ég hafði ótrúlega gaman af. The pandemic century, a history of global contagion from the Spanish flu to Covid-19 eftir Mark Honigsbaum er í vinnslu en mér til varnar er letrið mjög smátt.

Meðal barnabókanna má finna klassíkina Gagn og gaman sem óþreyjufullt og greinilega afskipt þriðja barn er að nota til að kenna sjálfu sér að lesa, Palla Playstation eftir Gunnar Helgason og nokkrar vel valdar úr hinum skemmtilega Ljósaseríuklúbbi.

Að lokum er við hæfi að nefna nokkrar bækur sem hafa haft djúpstæð áhrif á mig á einhverjum tímapunkti. Uppvöxtur Litla trés eftir Forrest Carter í þýðingu Gyrðis Elíassonar, sjálfsævisaga Helen Keller The story of my life, The old man and the sea eftir Ernest Hemingway og Úr dagbókum skurðlæknis eftir James Harpole sem var gefin út árið 1941 í íslenskri þýðingu Gunnlaugs Claessen.

Þessi síðasta ásamt öðrum gömlum lækningabókum átti þátt í því að ég ætlaði að verða líkkryfjari þegar ég yrði stór. Það hefur vafalaust valdið einhverjum áhyggjum en líkkryfjaradraumurinn tók við af því að vilja verða töfralæknir frumbyggja í N-Ameríku svo kannski varð einhverjum létt. Ég endaði á því að verða bara læknir.