Flóð Mikil vatnssöfnun var á götum höfuðborgarsvæðisins í kjölfar óveðurs sem hafði mikla úrkomu í för með sér.
Flóð Mikil vatnssöfnun var á götum höfuðborgarsvæðisins í kjölfar óveðurs sem hafði mikla úrkomu í för með sér. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir liljahrund@mbl.is Djúp lægð kom inn frá Grænlandshafi snemma í gærmorgun og sendi hún óveður yfir landið allt. Öllu flugi til og frá Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði og Vestmannaeyjum var aflýst út daginn.

Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir

liljahrund@mbl.is

Djúp lægð kom inn frá Grænlandshafi snemma í gærmorgun og sendi hún óveður yfir landið allt. Öllu flugi til og frá Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði og Vestmannaeyjum var aflýst út daginn. Gular og appelsínugular veðurviðvaranir voru í gildi, appelsínugular á Suðvestur- og Vesturlandi sem og á miðhálendinu, en gular annars staðar á landinu.

Björgunarsveitir á suðvesturhorninu stóðu í stórræðum vegna veðursins og sinntu fjölmörgum útköllum vegna foks og vatnselgs. Þá komu björgunarsveitir rútu með sjö börnum innanborðs til aðstoðar eftir að rúta lenti í vandræðum á Hálsasveitarvegi í Borgarfirði. Tvö hús sem voru í byggingu við Dofrahellu í Hafnarfirði, hlið við hlið, urðu fyrir tjóni í óveðrinu.

Elding olli bilunum

Óveðrið leiddi til lokunar vega víða um land, m.a. á Reykjanesbraut, Grindavíkurvegi, Hellisheiði, Þrengslum, Sandskeiði og Mosfellsheiði.

Þá urðu miklar truflanir síðdegis í gær á veitukerfum Veitna. Truflanirnar orsökuðust af höggi á rafdreifikerfi og spennufalli í kerfi Landsnets vegna óveðurs og eldinga, en nær allar dælur Veitna í vatnsveitu, hitaveitu og fráveitu allt frá Grundarfirði og austur á Hvolsvöll stöðvuðust við umræddar truflanir.

Í dag má gera ráð fyrir sunnan- og suðvestanstrekkingi með éljum nokkuð víða, en bjartviðri norðaustantil á landinu. Þá kólnar frá því í gær og er viðbúið að hiti verði í kringum frostmark. Á sunnudag róast veðrið frekar, en þá er útlit fyrir suðlæga golu eða kalda með éljum.