Gunnhildur Sif Oddsdóttir gunnhildursif@mbl.is Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari og myndlistarmaður, sem búsettur er í Kænugarði, þurfti í nokkur skipti í gær að fara í sérútbúin sprengjuskýli þegar sprengjuviðvararnir fóru í gang í borginni.

Gunnhildur Sif Oddsdóttir

gunnhildursif@mbl.is

Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari og myndlistarmaður, sem búsettur er í Kænugarði, þurfti í nokkur skipti í gær að fara í sérútbúin sprengjuskýli þegar sprengjuviðvararnir fóru í gang í borginni. Hann segist búsettur á öruggum stað og bygging hans sé varin úr öllum áttum.

„Sírenurnar fara í gang og þá áttu að fara í sprengjuskýlið, ef það gerist ekkert á 20 mínútum eftir að sírenurnar hætta þá máttu fara úr því og við förum þá bara aftur upp í íbúð til okkar,“ segir Óskar.

Tveggja hæða bílakjallari nýttur sem sprengjuskýli

Óskar hefur fengið að fara í sprengjuskýlið í næsta húsi. Þar er bílakjallari á tveimur hæðum en í húsi Óskars er sprengjuskýlið moldarkjallari. Hann segir bílakjallarann frekar notalegan, þar sé búið að koma fyrir stólum, beddum og hitablásurum og því hafi margir flúið þangað. Þeir sem eru hvað hræddastir hafa dvalið í skýlunum og ekki farið úr þeim á milli þess sem heyrist í sírenunum.

Óskar heyrir í bardaganum og sprengjunum frá húsinu sínu og segir hljóðið koma úr fjarska. „Maður heyrði að þetta var alveg fleiri fleiri kílómetra í burtu.“

Þá segist hann ætla að halda kyrru fyrir í Kænugarði. „Ég met öryggi mitt bara frekar fínt eins og staðan er. Já, ég kæmi mér úr bardaganum en ég kæmi mér bara einn í eitthvert annað vesen með því að fara héðan,“ segir Óskar.

Þá segir Óskar að rússneska hernum hafi gengið mjög illa að ná yfirráðum. „Þeir héldu að þeir gætu komið hingað síðastliðna nótt og valtað hérna yfir en það er alls ekki þannig,“ segir hann.