Svöl Íslenska sauðkindin er glæsileg skepna.
Svöl Íslenska sauðkindin er glæsileg skepna. — Morgunblaðið/Eggert
Fátt er skemmtilegra á fallegu vetrarkvöldi en að láta fjarstýringuna á sófaborðinu fara með sig í óvissuferð um undraheima sjónvarpsins. Sumsé taka „lífið er eins og konfektkassi“ á 'etta. Í vikunni hófst ferðin á N4.

Fátt er skemmtilegra á fallegu vetrarkvöldi en að láta fjarstýringuna á sófaborðinu fara með sig í óvissuferð um undraheima sjónvarpsins. Sumsé taka „lífið er eins og konfektkassi“ á 'etta.

Í vikunni hófst ferðin á N4. Þar var verið að ræða við einn hressasta mann sem ég hef séð lengi. Borgþór Borgarsson minnir mig að hann hafi heitið. Á skjánum stóð að vísu Borgason en það hlýtur að hafa verið villa. Menn eru ekki synir borga, nema þá Tómas skáld Guðmundsson.

Alltént. Borgþór er sæðingamaður og kom fram í kostulegri lopapeysu, sem tengdó hafði saumað á hann. Peysan var bara með einni ermi enda ómögulegt að ermar séu að flækjast fyrir mönnum við sæðingar. Kvaðst okkar maður sjaldan fara í henni út á lífið. Borgþór býr innst í einhverjum afdal í Skagafirði með 300 rollur. „Þú hefur þá gaman af rollum?“ spurði þáttarstjórnandi. „Nei,“ svaraði Borgþór. „Þær er bara afsökun til að hokra þarna.“

Á eftir sæðingum kemur bolla og það var engin smá veisla á Hringbraut þegar ég skipti þangað yfir. Sjöfn Þórðar og ungur bakari, sem leit út fyrir að vera dóttir Bjarkar Guðmundsdóttur, að gæða sér á rjómabollum enda bolludagurinn handan við hornið. Svakalega sem bollurnar litu vel út og brögðuðust ábyggilega enn þá betur.

Ég endaði svo hjá James Corden í Sjónvarpi Símans, þar sem maður frá Jemen hafði unnið það ótrúlega afrek að raða fjórum eggjum upp hverju ofan á annað. Ótrúleg sjón. Jemen eini!

Orri Páll Ormarsson

Höf.: Orri Páll Ormarsson