Lily James er ein af Liljum skjásins. Því miður var ekki pláss fyrir mynd af Hamish Linklater.
Lily James er ein af Liljum skjásins. Því miður var ekki pláss fyrir mynd af Hamish Linklater. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bandaríski leikarinn Hamish Linklater kom skyndilega inn í líf mitt á dögunum. Ekki seinna vænna enda maðurinn kominn á miðjan aldur og búinn að vera í bransanum frá aldamótum. Hér skal hermt af ævi hans og störfum. Eða ekki. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Fyrir fáeinum vikum hafði ég aldrei heyrt nafnið Hamish Linklater – sem er eftir á að hyggja klár skerðing á lífsgæðum mínum enda nafnið alveg ofboðslega hljómmikið og gott. Þetta er sumsé bandarískur kvikmynda- og sjónvarpsleikari sem skaut upp kollinum á skjánum hjá mér í dramaþáttunum Tell Me Your Secrets frá árinu 2021 sem ég nálgaðist á einhverri efnisveitunni.

Þar fór Linklater með hlutverk sérlundaðs raðnauðgara sem var laus úr fangelsi til reynslu eftir að hafa sannfært þar til bær yfirvöld um að sér væri „batnað“. Líklega best að hafa ekki fleiri orð um það ef þið eruð ekki þegar búin að horfa á þessa þætti og ætlið ykkur að gera það í náinni framtíð. En okkar maður stendur sig prýðilega þarna. Svo mikið dirfist ég að upplýsa.

Ég var ekki fyrr búinn að klára Tell Me Your Secrets þegar Linklater birtist mér í öðru verki í sjónvarpi; kvikmyndinni Paper Year. Þar leikur hann sjálfumglaðan handrits- og textahöfund (og vonnabí leikskáld) sem daðrar/reynir við flest sem hreyfist og snýr tilveru aðalsöguhetjunnar á hvolf. Best að hafa ekki mörg orð um það heldur enda hægur vandi að horfa á kvikmyndir í sjónvarpinu löngu eftir að þær hafa verið sýndar og þið eigið mögulega eftir að nýta ykkur það. Ekki er upp á hana logið, tæknina sem við búum við í þessum heimi.

Í Tell Me Your Secrets leikur Linklater á móti bandarísku leikkonunni Lily Rabe en svo skemmtilega vill til að þau eru í raun og veru hjón og hafa verið í heil níu ár. Eiga saman tvær ungar dætur en fyrir átti Linklater þriðju dótturina. Hvernig í ósköpunum veit maðurinn þetta? hugsar þú nú með þér, lesandi góður, og klórar þér í höfðinu. Wikipedia maður, Wikipedia.

Er það bara ég, eða heita allar ungar leikkonur í dag Lily? Við erum með Lily James, sem bregður sér í bolinn hennar Pamelu Anderson í Pam & Tommy, og Lily Collins. Sú síðarnefnda er dóttir Phils Collins, söngvara og trymbils. Staðreynd sem hún er mér ábyggilega ekki þakklát fyrir að draga fram enda vill ungt listafólk upp til hópa ólmt meika'ða á sínum forsendum – ekki vegna þess að það er dóttir eða sonur hins eða þessa. En Lily mín, þú verður að fyrirgefa mér! Ég er nefnilega kominn á þann aldur að margfalt líklegra er að ég þekki til foreldra fólks sem er í umræðunni eða hreinlega langforeldra þeirra. Það er bara þannig, eins og þeir segja á öldum ljósvakans.

Þess má geta að Lily James heitir alls ekki Lily James, heldur Lily Chloe Ninette Thomson. Hún breytti eftirnafni sínu þegar hún komst að því sér til armæðu að þegar var til leikkona að nafni Lily Thomson. Hversu margir þekkja hana? James er ekki út í loftið en það var skírnarnafn föður hennar sem lést úr krabbameini árið 2008, þegar Lily var aðeins 19 ára. James Thomson var tónlistarmaður en ekki heimsfrægur né heldur móðir Lilyjar, leikkonan Ninette Mantle.

Amma Lilyjar var hins vegar bærilega þekkt á sama starfsvettvangi, Helen Horton hét hún. Hún vann einkum í leikhúsi og tók til að mynda við af Vivien Leigh sem Blanche í Sporvagninum Girnd eftir Tennessee Williams þegar sýningum lauk í Lundúnum og skónum var stefnt út á land. Þegar Leigh var einhverju sinni spurð um þetta svaraði hún lítið eitt undrandi: „Það tekur enginn við af mér, vinan. Þegar ég hætti í sýningu er henni lokið.“

Rosaleg kona, Vivien Leigh. Og hún var sannarlega bresk enda þótt flestir tengi hana við bandarískar bíómyndir, á Hverfanda hveli og téðan Sporvagninn Girnd.

Dóttir hvers?

En aftur til nútíðar. Ein leikkona sem heitir alls ekki Lily er Eve Hewson sem leikur á móti Linklater í Paper Year. Ekki einu sinni að millinafni en hún var vatni ausin á Írlandi fyrir þremur áratugum og nefnd Memphis Eve Sunny Day Hewson. Sem er reyndar stóreflis nafn og velgir Hamish Linklater jafnvel undir uggum. Og hver skyldi eiga hana? Nú rétta ugglaust margir lesendur upp hönd og hrópa Bob Geldof! Bob Geldof! Það er gott gisk hjá ykkur, hann er Íri og á ofboðslega margar dætur sem heita ofboðslega undarlegum nöfnum, en samt ekki nægilega rökrétt. Eftirnafn Evunnar okkar er nefnilega ekki Geldof. Heldur Hewson. Það hefur þegar komið fram og ekki ætla mér það vit að bjóða ykkur upp á einhverjar brelluspurningar.

Hver er þetta þá? Hann er sannarlega kollegi Geldofs, sumsé tónlistarmaður og söngvari. Hewson? hugsið þið nú. Hvaða írski söngvari er Hewson? Hér er vísbending: Hann hefur ekki notað það nafn né heldur skírnarnafn sitt síðan hann var unglingur, alltént ekki opinberlega, og er í hljómsveit sem á margfalt fleiri smelli en Boomtown Rats. Þar erum við eiginlega bara að tala um I Don't Like Mondays. Sem er reyndar algjör negla.

En aftur að getrauninni okkar og haldiði að það sé ekki bara komið bingó í sal! Bono. Bono. Bono. Eve Hewson er að sönnu dóttir Bonos eða Pauls Davids Hewsons, eins og móðir hans vildi láta kalla hann. Fyrst við erum svona létt á því verður hér gefið aukastig ef þið vitið hvað félagi Bonos í U2, The Edge, var skírður. O, sei, sei, já. David Howell Evans. Þeir félagar eru því í reynd nafnar, heita báðir Davíð. Hvet ykkur til að slá um ykkur með þeirri vitneskju við fyrsta tækifæri, til dæmis í páskaboðinu hjá Stínu frænku. „Hvað segirðu, Stína mín? Ertu búin að heyra nýja lagið frá þeim nöfnum Bono og The Edge?“ Hafið símann endilega á lofti til að ljósmynda svipinn á Stínu!

En jæja, er þetta nú ekki orðið gott af ADHD? Við erum jú að fjalla hér um Hamish Linklater í þessari grein, ekki satt? Hver veit hins vegar nema hann sé grjótharður U2-aðdáandi, tilbiðji Vivien Leigh og hafi hreint ekkert á móti þessum útúrdúrum öllum.

Við því fáum við ekki svar, alltént ekki hér enda er plássið víst á þrotum. Dálksentimetrar í blöðum vaxa því miður ekki á trjánum. Nánari greining á ævi og störfum Hamish Linklaters bíður því betri tíma. En við erum alla vega búin að lilja okkur hressilega upp. Það dugar í bili.