[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Rússar sóttu í gær að Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, og reyndu að ná borginni á sitt vald með öllum ráðum. Á sama tíma dró Úkraínuher sig inn í borgina og undirbjó sig fyrir götubardaga.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Rússar sóttu í gær að Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, og reyndu að ná borginni á sitt vald með öllum ráðum. Á sama tíma dró Úkraínuher sig inn í borgina og undirbjó sig fyrir götubardaga. Var hart barist í Oblonskí-úthverfi borgarinnar og heyrðust sprengingar í miðborg hennar.

Tilraun Rússa til þess að hertaka Hostomel-flugvöllinn á fyrsta degi innrásarinnar með fallhlífarhermönnum mistókst hins vegar, þar sem gagnárás Úkraínumanna náði að fella marga af sérsveitarmönnunum sem höfðu tekið flugvöllinn og reka afganginn í reiðuleysi út í skóg.

Var það mat vestrænna sérfræðinga í varnarmálum að sókn Rússa hefði ekki náð markmiðum sínum á fyrsta degi átaka, en svo virtist sem fremstu fylkingar innrásarinnar hefðu einkum verið skipaðar óreyndum nýliðum. Úkraínumenn sendu frá sér myndbönd í fyrrakvöld sem sýndu rússneska stríðsfanga segja að þeir hefðu ekki vitað að þeim væri ætlað að ráðast inn í Úkraínu.

Var það einungis sókn Rússa frá Krímskaga, sem náði að einhverju marki inn í Úkraínu, en strandhögg á Mariupol og Odessa náði ekki að tryggja Rússum yfirráð yfir borgunum. Þá var enn mikil andspyrna í borginni Kharkiv í gær, þrátt fyrir að Rússar hefðu talið sig hafa hernumið hana á fyrsta degi. Beittu þeir stórskotaliði sínu, bæði eldflaugum og fallbyssum óspart til þess að reyna að kveða hana niður.

Heimildarmaður Washington Post í bandaríska varnarmálaráðuneytinu sagði að svo virtist sem helsti slagkrafturinn væri farinn úr upphafssókn Rússa, en þeir hafa nú sett um þriðjung þess herliðs sem þeir umkringdu Úkraínu með í sóknaraðgerðir sínar.

Rússum hefði til dæmis mistekist að útrýma flugher og loftvarnarkerfi Úkraínumanna, líkt og talið var, og þeir hefðu misreiknað þá andspyrnu sem innrás þeirra myndi kalla fram. Varaði embættismaðurinn hins vegar við því að ýmislegt gæti breyst á næstu dögum.

Samkvæmt heimildum úkraínska varnarmálaráðuneytisins höfðu Rússar misst að minnsta kosti 80 skriðdreka, 516 brynvarða bíla, sjö þyrlur og 2.800 hermenn í átökum í gær. Á móti var áætlað að 137 Úkraínumenn hefðu fallið í gær.

Kallar eftir valdaráni hersins

Vladimír Pútín Rússlandsforseti skoraði í gær á her Úkraínu að steypa ríkisstjórn landsins af stóli. Sagði Pútín að líklega yrði auðveldara fyrir Rússa að ná samkomulagi við yfirstjórn hersins en ríkisstjórnina, sem væri „glæpagengi dópista og nýnasista,“ og vísaði þar til stjórnar Volodimírs Zelenskís, forseta Úkraínu, sem er gyðingur.

Þá hélt Pútín því fram að öfgaþjóðernissinnar í Úkraínu ætluðu að skjóta með eldflaugum á íbúðabyggðir í Úkraínu, þar á meðal í Kænugarði, og er óttast að það sé vísbending um að Rússar hyggist brátt beina vopnum sínum að óbreyttum borgurum.

Rússnesk stjórnvöld buðust einnig í gær til þess að senda sendinefnd til viðræðna í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, sem leyfði rússneskum hermönnum að nota land sitt til innrásar í Úkraínu.Var þeirri umleitan hafnað.

Rússar reyndu einnig að koma þeirri sögusögn á flot að Zelenskí væri flúinn frá Kænugarði. Brást hann við með því að taka myndband af sér ásamt helstu ráðherrum sínum í miðborg Kænugarðs, og sagði: „Við erum allir hér.“

Zelenskí hefur til þessa neitað að yfirgefa borgina, þrátt fyrir að talið sé að Rússar vilji handsama hann eða drepa, svo þeir geti reynt að knýja hann eða eftirmann hans til þess að undirrita uppgjöf. Birtist hann um kvöldið ásamt hermönnum í Kænugarði og varaði við því að þetta kynni að vera í síðasta sinn, sem fólk myndi sjá hann á lífi.

Saka Rússa um stríðsglæpi

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sakaði í gær Rússa um að hafa beint stórskotahríð sinni að leikskóla og munaðarleysingjahæli, en áður höfðu borist fregnir um að Rússar hefðu einnig skotið á sjúkrahús og íbúðahverfi í Kænugarði. Sagði Kuleba að sönnunargögnum um þessa og aðra stríðsglæpi Rússa yrði komið til alþjóðlega sakamáladómstólsins í Haag. Rússar hafa lýst því yfir að þeir hafi eingöngu skotið á hernaðarmannvirki, og hefur ekki verið hægt að útiloka að skothríð þeirra á borgaraleg skotmörk hafi verið óviljandi.

Sagði Kuleba meðal annars á Twitter-síðu sinni að Rússar hefðu beint hræðilegum eldflaugaárásum á borgina, og líkti hann árás Rússa við árás Þjóðverja á Kænugarð árið 1941. „Úkraína sigraðist á þeirri illsku og mun sigrast á þessari,“ sagði Kuleba og hvatti þjóðir heims til að einangra Rússa og slíta öll tengsl við þá.

Þá bárust fregnir af því að Rússar hefðu sent tvo úkraínska herbíla, sem þeir höfðu handsamað, ásamt hermönnum sem klæðst höfðu úkraínskum herbúningum til árásar á Kænugarð, en slíkt er brot á Genfarsáttmálanum. Voru hermennirnir felldir.

Breska ríkisútvarpið BBC sýndi í gær myndband, þar sem brynvarinn bíll á vegum Rússa sást leggja lykkju á leið sína til þess að keyra yfir einkabíl almenns borgara. Ökumaður bifreiðarinnar náði að lifa af.

Rússar hóta Finnum og Svíum

Árás Rússa á Úkraínu hefur fengið aðrar nágrannaþjóðir Rússa til þess að íhuga sinn gang í varnarmálum. Sanna Marin, forsætisráðherra Finna, sagði í umræðum á finnska þinginu að Finnar væru reiðubúnir til þess að ganga til liðs við Atlantshafsbandalagið ef öryggi landsins krefðist þess. Svíar hafa hins vegar ekki íhugað slíka aðild enn.

María Zakharova, talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins, sagði að hlutleysi Finna og Svía væri mikilvægur þáttur í öryggi Norður-Evrópu, og að innganga þeirra í Atlantshafsbandalagið myndi hafa „pólitískar og hernaðarlegar afleiðingar,“ án þess að taka fram hverjar þær afleiðingar yrðu.

„Farðu til fjandans!“

Meðal þeirra sem hafa fallið Úkraínumegin voru 13 menn og konur, sem var falið að verja Snákaeyju, litla eyju á Svartahafi sem markar hvar landhelgi Úkraínu á hafinu byrjar. Rússneskt herskip sendi hermönnunum þau skilaboð að vissara væri að leggja niður vopn.

„Rússneska herskip, farðu til fjandans!“ var svarið. Volodimír Zelenskí, forseti Úkraínu, hyllti hermennina 13 sem létust sem þjóðhetjur Úkraínu.

Beina refsiaðgerðum sínum að Pútín og Lavrov

• Eigur þeirra frystar • Tusk ósáttur við afstöðu ESB-ríkja Evrópusambandið, Bandaríkjamennog Bretar tilkynntu í gær að þau hefðu fryst eigur Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og Sergeis Lavrovs utanríkisráðherra vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, sagði í gær að hann hygðist setja refsiaðgerðirnar á þegar í stað. Johnson mun einnig hafa beitt sér fyrir því á fundi leiðtoga sjö helstu iðnríkja heims í fyrradag að Rússar yrðu lokaðir frá SWIFT-bankakerfinu svonefnda. Það tókst hins vegar ekki.

Heimildir breskra fjölmiðla herma að Þjóðverjar og Ítalir hafi verið með mótbárur, og óttast að sú aðgerð myndi bitna meira á eigin löndum en Rússum. Hefðu Ítalir m.a. krafist undanþágu á refsiaðgerðum ESB varðandi sölu á ítölskum lúxusvarningi til Rússlands.

Donald Tusk, fyrrverandi forseti leiðtogaráðs ESB, gagnrýndi ákvörðun ESB-ríkjanna um að standa gegn brottvikningu Rússa úr SWIFT harðlega, og sagði að þær þjóðir sem það hefðu gert hefðu lítilsvirt sig sjálfar.

Johnson fundaði einnig með leiðtogum Norðurlandanna, Hollands og Eystrasaltsríkjanna í gærmorgun, og sammæltust þeir um að frekari refsiaðgerða væri þörf.

Kínverskir bankar taka þátt

Þá greindi Bloomberg frá því í gær að tveir af stærstu ríkisbönkum Kínverja hefðu takmarkað lánveitingar til kaupa á rússneskum varningi, allavega í bandaríkjadölum, í ljósi þeirra refsiaðgerða sem Bandaríkjastjórn hefur sett á Rússa.

Aðgerðin gæti verið tímabundin, en hún þykir einnig sýna að innrásin hefur sett Kínverja í viðkvæma stöðu gagnvart umheiminum.

Viðbragðslið NATO kallað út í fyrsta sinn

• Um 100 þotur og 130 skip á varðbergi Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði í gær að bandalagið myndi styrkja varnir sínar í austri í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Sagði Stoltenberg að innrás Rússa hefði skapað nýjan veruleika í Evrópu, sem ógnaði öryggi álfunnar allrar, ekki bara Úkraínu, en bandalagsríkin samþykktu í fyrradag í fyrsta sinn að virkja varnaráætlanir sínar í austri.

Hefur viðbragðslið bandalagsins því nú verið kallað út í fyrsta sinn, en í því eru um 40.000 manns. Verður hluti þess liðs nú staðsettur í bandalagsríkjunum Póllandi og Eystrasaltsríkjunum.

Sagði Stoltenberg að nú væru rúmlega hundrað herþotur á vegum bandalagsins á hæsta viðbúnaðarstigi, sem og 130 skip sem væru staðsett allt frá norðurslóðum suður til Miðjarðarhafs. „Tilgangurinn er að verja friðinn og koma í veg fyrir árás, og að koma í veg fyrir að stríðið sem nú geisar í Úkraínu breiðist út til bandalagsríkis,“ sagði Stoltenberg.