— Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Fimm tilboð bárust í æðardúnstekju við Hrafnseyri í Arnarfirði, en tilboð voru opnuð hjá Ríkiskaupum í fyrradag. Eftirtalin tilboð bárust: Brekka guesthouse, Dúnn, Guðjón Ingólfsson, Hákon Sturla Unnsteinsson og Valur Richter.

Fimm tilboð bárust í æðardúnstekju við Hrafnseyri í Arnarfirði, en tilboð voru opnuð hjá Ríkiskaupum í fyrradag. Eftirtalin tilboð bárust: Brekka guesthouse, Dúnn, Guðjón Ingólfsson, Hákon Sturla Unnsteinsson og Valur Richter.

Ekki verða birtar tilboðsfjárhæðir að svo stöddu þar sem niðurstaða útboðs veltur á niðurstöðu matsnefndar 80% og boðnu endurgjaldi 20%, segir í tilkynningu sem birt er á vef Ríkiskaupa.

Skýrsla um niðurstöðu útboðsins verður birt þegar hún liggur fyrir, segir í tilkynningunni.

Ríkiskaup fyrir hönd forsætisráðuneytisins óskuðu eftir tilboðum í að nýta æðardún við Hrafnseyri.

Hrafnseyri er ríkisjörð

Ekki er vitað með vissu hversu mörg hreiður eru á svæðinu en áætlað hefur verið að hægt sé að tína að 3-8 kíló af dúni á Hrafnseyri á ári hverju. Áætla megi að fyrir hvert kíló fáist um 200 þúsund krónur.

Hrafnseyri við Arnarfjörð er ríkisjörð í umsjón forsætisráðuneytisins. Æðarvarpið liggur við ós árinnar sem liggur á milli Hrafnseyrar og Auðkúlu. Girt er meðfram veginum og niður í fjöru. Varpið er að hluta á aflögðum flugvelli sem liggur með fjöruborðinu.

Nýr rekstraraðili þarf að gera varpsvæðið tilbúið um miðjan apríl. Stefnt að því að gera samning um dúntekjuna til fimm ára, með möguleika á þriggja ára framlengingu.

sisi@mbl.is